Hagnaður Eimskips á öðrum ársfjórðungi þessa árs nam um 24,9 milljónum evra, sem er um 3,5 milljarðar á núverandi gengi. Hagnaðurinn eykst um tæp 87% á milli ára. Tekjur félagsins námu um 283 milljónum evra og jukust um 34% á milli ára. Rekstrarkostnaður félagsins eykst þó einnig, eða um 31% á milli ára og nam um 238,4 milljónum evra á tímabilinu. Í uppgjörstilkynningu frá Eimskipi í gær kemur fram að hærri rekstrarkostnaður skýrist að mestu af kaupum á þjónustu flutningabirgja og hærra olíuverði.
Þrátt fyrir þessar kostnaðarhækkanir batnaði afkoma félagsins umtalsvert á milli ára. Það skýrist af góðri nýtingu í siglingakerfi félagsins og mikilli eftirspurn eftir flutningum, þá sérstaklega á milli Evrópu og Norður-Ameríku. Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips, segir í tilkynningu að innflutningsmagn til Íslands sé enn mikið og að félagið geri ráð fyrir að útflutningsmagnið frá Íslandi taki við sér með haustinu.
Þegar horft er til fyrstu sex mánaða ársins jukust tekjur félagsins um 34% á milli ára og námu 523 milljónum evra. Þá hefur hagnaður á fyrri helmingi ársins aukist um 119% á milli ára.