Það sem af er ári hafa 18 börn greinst með insúlínháða sykursýki hér á landi, en undanfarna áratugi hafa nýgreiningar aukist um 3% á ári. Það þýðir að 18 til 20 börn hafa greinst árlega, en breytileiki milli ára hefur þó verið mjög mikill vegna lítils þýðis.
Ragnar Bjarnason, yfirlæknir barnadeildar Landspítalans, segir við Morgunblaðið að ekki sé hægt að fullyrða að fjöldi greininga í ár hafi nokkuð með Covid-19 að gera. Til að svara þeirri spurningu þurfi mun stærra þýði. Til stendur að slíkt verði skoðað sameiginlega í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og á Íslandi. „Það mun taka langan tíma að fá fram þessar niðurstöður.“
„Börn greinast oft með sykursýki í tengslum við veirusýkingu. Sýkingin sjálf veldur þó ekki sjúkdómnum heldur flýtir greiningu þar sem insúlínþörf eykst vegna sýkingarinnar. Ekki er hægt að mæta þessari auknu þörf vegna þess að líkaminn er búinn að eyða svo mörgum beta-frumum, sem framleiða insúlín í brisinu.“