Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
„Ég held að þetta verði rosa flott keppni og leikirnir eru á hentugum tíma fyrir áhorfendur,“ segir Hilmar Björnsson, íþróttastjóri RÚV.
Undirbúningur stendur nú yfir fyrir útsendingar frá heimsmeistaramóti karla í knattspyrnu sem fer fram í Katar dagana 20. nóvember til 18. desember. Allir 64 leikir mótsins verða í beinni útsendingu á stöðvum RÚV. Í riðlakeppni eru fjórir leiktímar, klukkan 10 að morgni að íslenskum tíma, klukkan 13, klukkan 16 og klukkan 19. Þegar kemur að síðustu umferð í riðlakeppni og svo útsláttarkeppninni verður leikið klukkan 15 og 19.
„Leikirnir klukkan 10, 13 og 16 verða á aðalrás RÚV. Leikirnir klukkan 19 verða flestir á RÚV 2 nema þegar það eru tveir leikir á sama tíma, þá verður annar leikurinn á RÚV. Undanúrslit og úrslitaleikurinn sjálfur verða á RÚV,“ segir Hilmar.
Ekki er búið að ganga frá því hverjir sjá um að lýsa leikjum og greina þá. Hilmar segir það í vinnslu og ætti að liggja fyrir mjög fljótlega. Hann vill ekki upplýsa neitt en fyrir fjórum árum, þegar Ísland lék á HM í Rússlandi, voru Guðmundur Benediktsson og Eiður Smári Guðjohnsen kallaðir til verksins og öllu til tjaldað. „Við verðum með HM-stofu fyrir og eftir flesta leiki og ætlum að enda daginn á HM-kvöldi þar sem við förum yfir alla leiki dagsins. Okkar fólk verður einnig í Katar þar sem við fáum að upplifa stemninguna beint í æð. Við erum í góðri æfingu eftir EM kvenna í sumar sem lukkaðist mjög vel en við viljum alltaf gera betur, sama á hvað miðlum RÚV um ræðir. Það er nýtt að heimsmeistaramótið sé haldið í nóvember og desember en það er mikil tilhlökkun í okkar herbúðum að færa þjóðinni fótboltaveislu í aðdraganda jóla,“ segir Hilmar.