Þorvaldur Sigurjón Helgason fæddist 29. desember 1931 á Kollsá í Hrútafirði. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 29. júlí 2022.

Foreldrar hans voru Helgi Hannesson, f. 1901, d. 1988, trésmiður og Sólveig Tómasdóttir, f. 1900, d. 1973, húsmóðir.

Systkini Þorvaldar: Tómas Valtýr, f. 1929, d. 1992, Þrúður Ingibjörg, f. 1929, d. 1929, og Hannes Grétar, f. 1935.

Hinn 14. ágúst 1954 giftist Þorvaldur eftirlifandi eiginkonu sinni, Helgu Ingvarsdóttur. Foreldrar hennar voru Ingvar Magnússon, f. 1905, d. 1986, bóndi og Sigrún Einarsdóttir, f. 1893, d. 1981, húsmóðir.

Börn Helgu og Þorvaldar eru: 1) Ingvar Sigurjón, f. 1955, giftur Önnu Maríu Bjarnadóttur og eiga þau börnin Huldu Björgu og Bjarna Rúnar, barnabörnin eru fimm. 2) Helgi Benedikt, f. 1957, giftur Elínu H. Ragnarsdóttur og eiga þau Ragnar Má, Helgu Dögg og Andra Þór, barnabörnin eru sex. 3) Rúnar Sólberg, f. 1960, giftur Helgu J. Karlsdóttur, börn þeirra eru Sigurður Karl, Þórunn Valdís og Rúnar Freyr, barnabörnin eru 10. 4) Valdimar Tómas, f. 1965, giftur Adrian Estorgio. 5) Sólveig Þrúður, f. 1974, gift Reyni Þór Valgarðssyni, dætur þeirra eru Sóldís Birta, Kolfinna Bjarney og Emma Sóllilja. Fyrir á Reynir soninn Arnór Gísla.

Fyrir átti Þorvaldur soninn Bjarna Þór, f. 1953, með Helgu Ágústu Vigfúsdóttur.

Þorvaldur ólst upp á Kollsá í Hrútafirði fram á unglingsár þegar hann flutti til Reykjavíkur til að læra. Hann lærði bifvélavirkjun hjá Símanum og vann þar í nokkur ár. Þorvaldur vann lengst af í Loftorku Hafnarfirði sem bifvélavirki.

Á árunum 1966-1972 bjuggu Þorvaldur og Helga á Borðeyri við Hrútafjörð. Þar rak Þorvaldur búvéla- og bifreiðaverkstæði.

Hestamennska átti allan hans hug og var hann með hesta alla tíð. Lengst af í Gusti í Kópavogi þar sem hann var virkur félagsmaður. Hestaferðalög voru í miklu uppáhaldi hjá Þorvaldi. Þorvaldur og Helga áttu sér unaðsreit í Borgarfirði þaðan sem Helga er ættuð. Á Hofsstöðum í Stafholtstungum byggðu þau sér bústað sem þau voru mikið í alla tíð. Á Hofsstöðum bjuggu foreldrar Helgu sem og systir hennar Ingunn, sem var gift bróður Þorvaldar, Tómasi. Í Þrúðarseli, sem var heitið á bústaðnum þeirra, áttu þau góðar stundir og sinnti Þorvaldur viðhaldi allt fram á síðasta dag.

Þorvaldur bjó lengst af í Kópavogi, nánar tiltekið á Hraunbraut 2, í húsi sem foreldrar hans byggðu. Bjó hann þar þangað til í október 2021 þegar heilsu hans og getu fór að hraka. Í kjölfarið fór hann í Sunnuhlíð og var þar ásamt konu sinni. Helga fór á hjúkrunarheimili 2014 vegna heilsubrests. Frá þeim tíma bjó Þorvaldur hjá dóttur sinni Sólveigu, manni hennar Reyni og dætrum þeirra þremur, Sóldísi Birtu, Kolfinnu Bjarneyju og Emmu Sóllilju.

Þorvaldur verður jarðsunginn frá Kópavogskirkju í dag, 19. ágúst 2022, kl. 15.

Elsku pabbi minn, allt mitt líf hef ég kviðið fyrir þessum degi sem rann upp hinn 29. júlí sl. þegar þú lést. Allt í einu varð ég bara fimm ára og vildi ekki trúa því að þú yrðir ekki eilífur. Allt mitt líf hef ég verið með þér og kringum þig, þú varst maðurinn í mínu lífi sem allt kunnir og allt gast. Þú varst með stærstu hendurnar sem vermdu mig svo vel þegar mér var kalt. Hver á að verma hendurnar mínar núna? Ég er svo heppin að hafa fengið þig og mömmu sem foreldra og alla þessa bræður líka, allir báru mig á höndum sér og pössuðu upp á mig. Ekkert mátti koma fyrir litlu prinsessuna allra. Ég var yndið þitt yngsta og besta og einnig eina stelpan ykkar. Elsku pabbi, það sem ég sakna þín og stundanna okkar þar sem við gátum setið saman, stundum með „ég munda“, stundum með Reyni og stelpunum okkar og stundum bara við tvö. Þær stundir voru alltaf svo yndislegar af því að við pabbi vorum svo lík, við þurftum ekki mikið af orðum og kunnum svo vel að sitja og þegja saman.

Ég minnist með svo mikilli hlýju og þakklæti allra stundanna okkar í Þrúðarseli eða á Hraunbrautinni. Ég og þú elsku pabbi minn. Ég var svo heppin þegar ég kynntist hinum manninum í mínu lífi, honum Reyni mínum, hvað þið smulluð vel saman. Það sem þið gátuð spáð og spekúlerað. Stundum hér á Hraunbrautinni og stundum uppi á Hofsstöðum.

Það voru forréttindi fyrir okkur fjölskylduna og ekki síst fyrir stelpurnar mínar að fá að alast upp í ömmu og afa húsi. Fyrst við uppi og þið mamma niðri og svo við í öllu húsinu, mamma komin í Sunnuhlíð og þú bjóst hjá okkur. Þú varst svo mikill partur af okkar lífi og tókst þátt í öllu með okkur. Ég minnist ferðalags sem við fórum í fyrir tveimur árum um Suðurlandið. Þá fórum við, ég og þú, Reynir og elsku Emma þín, með nesti og nýja skó og gerðum vel við okkur og gistum á hótelum og borðuðum á veitingastöðum. Í þessari ferð fórum við til Vestmannaeyja en þangað hafðir þú aldrei farið. Þetta var yndisleg ferð og skildi eftir sig margar minningar.

Síðustu dagana þína dró smátt og smátt af þér, stundum fannst mér samt eins og þú værir að bíða eftir mér að ég kæmi heim. Ég var erlendis þegar þú kvaddir elsku pabbi minn en daginn áður en þú fórst náði ég myndsímtali með þér þar sem ég hvíslaði að þér að þú mættir fara í sumarlandið þitt sem þú varst alveg með á hreinu hvernig liti út. Ég sagði þér að loka augunum og hvíla þig vel, ég elskaði þig og gæfi þér leyfi til að fara. Þegar stundin þín kom hafðirðu þetta alveg eins og þú varst alltaf, fórst hægt og hljótt. Þú meira að segja beiðst eftir því að þið mamma væruð ein og þar héldust þið í hendur og þú dróst síðasta andardráttinn einn með kærustunni þinni sæll og glaður.

Elsku pabbi minn, núna er komið að því að kveðja þig og eftir standa allar þær minningar sem ég á af mér með þér. Þessar minningar ætla ég að geyma og varðveita í hjartanu um ókomin ár. Góða ferð í sumarlandið, þú ert alveg örugglega kominn á bak á Andvara með Kolla á eftir þér.

Lof jú!

Þín pabbastelpa alltaf,

Sólveig Þrúður.

Elsku afi, ég sakna þín óendanlega mikið. Ég vildi að þú værir hérna hjá mér að verma hendurnar mínar. Og þegar ég kom heim úr skólanum sagðir þú við mig: „Hvað varstu að gera í skólanum í dag?“ Þú sýndir mér alltaf svo mikinn áhuga og sagðir alltaf Emma mín. Þegar ég kom heim úr skólanum vildirðu alltaf heyra mig lesa. Þegar ég var lítil varst það þú sem naglalakkaðir mig. Ég man líka að á jólunum bökuðum við parta saman. Þá gerðum við deigið og þú steiktir. Elsku afi minn, ég veit að þú ert kominn í sumarlandið og þar líður þér vel. Ég skal passa ömmu fyrir þig.

Vertu, Guð faðir, faðir minn,

í frelsarans Jesú nafni,

hönd þín leiði mig út og inn,

svo allri synd ég hafni.

(Hallgrímur Pétursson)

Ég elska þig.

Þín afastelpa,

Emma Sóllilja.

Elstu minningar mínar af Valda afa eru sennilegast af honum á Hraunbrautinni að gefa mér í nefið. Ef ég sá afa fá sér í nefið þurfti ég alltaf að fá líka og afi gaf mér nokkur korn sem ég blés af handarbakinu. Ég elskaði að vera á Hraunbrautinni hjá ömmu og afa og ef maður heyrði af því að þau væru að fara í sveitina þá reyndi maður að fara með. Ef ég fór ein í bíl með afa þá fékk ég að sitja frammí, hafa gluggann opinn og stoppa í sjoppu í Hvalfirðinum, annað en hjá mömmu og pabba.

Afi var mikill hestamaður og sótti ég mikið í að fá að fara með honum í húsin og á hestbak. Þegar ég var 10 ára datt ég af baki og missti kjarkinn þótt mig langaði alltaf á bak. Afi, svo ljúfur og þolinmóður, tók mig með sér í aukataumi í útreiðartúra alveg þar til ég fór að hafa kjarkinn til að ríða ein út, og það tók nú alveg tímann sinn að ná hræðslunni úr stelpunni. Stundirnar sem ég átti með afa í hesthúsinu voru ómetanlegar, við hjálpuðumst að við að moka og gefa, fórum á hestbak, spjölluðum og afi sagði manni sögur. Svo hitti maður hina og þessa félaga afa yfir spjalli í húsunum.

Ég man ekki eftir því að afi hafi skammað mig, ég man eftir honum skammast, en hann varð aldrei reiður við mig. Ég fékk bílinn þeirra ömmu lánaðan til að keyra um í sveitinni viku fyrir 17 ára afmælið mitt. Það fór ekki betur en svo að ég gleymdi mér aðeins og keyrði út af, braut spegilinn og rispaði bílinn. Það sem ég var hrædd við að segja afa frá þessu. En afi tók því ósköp rólega. – Ég gæti þó trúað því að þessi bílferð mín hafi verið ástæðan fyrir því að afi var ekkert hrifinn af því að lána yngri frændsystkinum mínum bílinn sinn.

Eftir að ég varð fullorðin voru flestar okkar samverustundir í sveitinni. Þegar Maggi minn var um tveggja ára fór hann að kalla afa Gomba og einhvern veginn festist það við hann hjá mínum börnum. Þegar maður mætti í sveitina kom maður alltaf við hjá afa í kaffibolla og smá spjall. Maggi minn var ekki hár í loftinu þegar hann fór að byrja alla morgna á því að kíkja yfir til ömmu og afa í morgunspjall. Eitt sumarið þegar ég var með krakkana í sveitinni var ég að verða fatalaus og þurfti að komast í þvottavél. Afi var með litla þvottavél í athvarfinu sínu sem hann bauð mér að nota. Ég mætti með stóran poka af þvotti og setti í fyrstu vél. Þegar ég ætlaði svo að koma og taka úr henni var afi búinn að hengja allt upp fyrir mig og setja í næstu. Ég gat nú ekki annað en dáðst að dugnaðinum í honum afa mínum. Þá var mér bent á það að honum leiddist það ekki því að hann væri með kassa af bjór í athvarfinu og fengi sér alltaf einn þegar hann færi að taka úr vélinni.

Þau eru svo ótalmörg lýsingarorðin sem eiga við hann Valda afa minn og minningarnar um hann eru óteljandi. Eitt er víst að ég á aldrei eftir að keyra fram hjá Þrúðarseli á leið heim úr sveitinni án þess að verða hugsað til afa, því að kveðja afa var alltaf það síðasta sem maður gerði þegar maður keyrði af stað heim.

Hvíl í friði elsku afi minn og takk fyrir allt.

Þín

Þórunn Valdís Rúnarsdóttir (Dísa).

Elsku hjartans afi minn, mikið þykir mér erfitt að setjast niður og skrifa um þig í þátíð. Þú varst svo stór maður, svo stór persónuleiki og svo gríðarlega stór partur af mér og mínu lífi. Ég minnist allra sveitaferðanna, bíltúranna og pólitísku samræðnanna okkar þar sem við gátum rætt allt milli himins og jarðar. Ekki vorum við alltaf sammála en urðum þó alltaf að lokum sammála um að vera ósammála. Ég ólst upp í faðmi ykkar ömmu, og þvílík forréttindi sem það voru. Þú hafðir frá svo mörgu að segja og gátum við eytt mörgum klukkustundum í að ræða málin og þá oft á tíðum töluðum við um gamla tíma. Þú sagðir mér ýmsar sögur frá því hvernig þú ólst upp og hvernig þið amma fetuðuð ykkar fyrstu fótspor, sem gaf mér gott veganesti út í lífið. Þú varst staðfastur á þínu fram að síðasta degi, þegar þú tókst ákvörðun var ekki hægt að hreyfa við henni, sama hvort sú ákvörðun hafi verið rétt eða röng að mati okkar hinna. Ég man hvað þú hafðir skrítinn smekk á mat, og var þorrinn þinn eftirlætistími. Ég laumaði því oft að þér hvort það væri hollt að borða skemmdan mat, en þau ummæli voru afar óvinsæl í þínum eyrum enda þótti þér þorramatur lostæti. Ég bað þig oft á tíðum að borða þennan óþverra úti, og þá rakstu upp hlátur og bauðst mér smakk, sem ég afþakkaði pent. Elsku afi, mér þykir vænt um að hafa fylgt þér síðasta spölinn og ég geri ráð fyrir að þú sért farinn í útreiðartúr á öðrum slóðum í góðra vina hópi. Ég held fast í höndina á ömmu og mun passa hana fyrir þig, eins og ég lofaði þér. Þegar ég vissi í hvað stefndi samdi ég ljóð, og mig langar til að láta það fylgja með. Við sjáumst hinum megin þegar minn tími kemur, þangað til ylja allar minningarnar um heimsins besta afa ásamt því dýrmæta sem þú skildir eftir.

Ég þakka þér afi liðin ár,

þær stundir er áttum við saman.

Af hvörmum mér falla sorgartár,

ég minnist hve alltaf var gaman.

Heima á Hraunbraut við hugsum til þín,

hve gott var þig ávallt að hafa.

Sjá það svo betur að hamingja mín,

var að eiga svo indælan afa.

Hér sólin er sest hjá þér afi minn,

á öðrum stað skín hún bjartar.

Nú sál þín og andi þar friðinn finn,

guðsbirtan fegurð þar skartar.

Kvöldið er komið afi minn,

þú hvílir nú friðsæll og sefur rótt.

Ég legg að vanga tárvota kinn,

og býð þér í hinsta sinn góða nótt.

Þín afastelpa,

Birta.