Sverrir Ragnars Arngrímsson
Sverrir Ragnars Arngrímsson
Eftir Sverri Ragnars Arngrímsson: "Hvert sem litið er virðast innviðirnir brostnir."

Ég hef áhyggjur. Ég er uggandi. Jafnvel er hægt að segja að mér sé um og ó. Hvað veldur? Jú, ég óttast að landið okkar sé ekki sjálfbært eins og fjármálum þjóðarinnar er háttað. „En það er nóg til“ bylur á okkur í sífellu. Hvernig stendur þá á að svo víða virðist pottur brotinn í sameiginlegum verkefnum þjóðarinnar? Hvert sem litið er virðast innviðirnir brostnir. Samgöngur, heilbrigðis- og menntakerfi, löggæsla, neyðarþjónusta, allt á hverfanda hveli ef marka má fréttir. Forgangsröðun brengluð. Hvernig má það vera, að þrátt fyrir að allir skattstofnar séu nýttir í botn, þá sé ástandið eins og raun ber vitni?

Óráð

Ég hef það á tilfinningunni að ástæðan sé veik eða gölluð beinabygging kjörinna fulltrúa. Þeir hafa hvorki þrek né þor til að standa á móti botnlausum kröfum borgaranna um þjónustu og/eða vildarforgang til alls milli himins og jarðar. Ekki má heldur gleyma því að „kerfið“ og stofnanir þess virðast lifa sjálfstæðu lífi og fitna stöðugt eins og púkinn á fjósbitanum.

Mér er til efs að nokkur maður hafi litið á bókhaldið áður en lýðveldið var stofnað árið 1944. Að minnsta kosti má fullyrða að ráðamenn þeirra tíma hafi ekki séð fyrir sér hina stjarnfræðilegu útgjaldaaukningu sem við verðum vitni að í dag, sem farin er að grafa undan fjárhagslegri velferð borgaranna og sjálfstæði þjóðarinnar.

Þessi gríðarlega skattheimta svarar líka spurningunni: „Af hverju er allt svona dýrt á Íslandi?“ Háir skattar leiða til hærra verðlags vöru og þjónustu sem aftur leiðir til hærri launakrafna sem aftur leiða til ósamkeppnisfærni atvinnulífsins, atvinnuleysis og þannig afkomubrests heimilanna. Þennan vítahring verður að rjúfa. Frumkvæði að þessum breytingum er á valdi kjörinna fulltrúa, þetta er í raun embættisskylda þeirra. Er þinn þingmaður/bæjarfulltrúi að sinna þessu?

Bjargráð

En hjálpin er ekki langt undan. Það má leggja ofureinfalda mælistiku á fjárlög Alþingis og sveitarfélaga. Það má byrja á að einfaldlega flokka útgjöld hins opinbera, fyrst eftir notagildi í tvo flokka: A; hvað verðum við að hafa? B; hvað er huggulegt að hafa ef um afgang er að ræða? Síðan má takast á um forgangsröð innan þessara tveggja meginflokka. Einbeitum okkur að því sem við verðum að hafa en sleppum hinu í bili.

Samráð

Hver er tilgangurinn með sameiginlegum rekstri þjóðfélagsins? Það má færa rök fyrir því að heilbrigðisþjónusta, greiðar samgöngur, örugg löggæsla og almenn menntun sé nokkuð sem við verðum að hafa. En veldur hver á heldur. Það er alls ekki sama hvernig úthlutuðum fjármunum er varið. Mikilvægt er að ráðdeild sé viðhöfð og fé vel nýtt. Það er margsannað að samkeppni leiðir til betri nýtingar fjármuna og meiri árangurs í þjónustu. Samkeppni á þessum sviðum verður að auka markvisst ef ekki á illa að fara.

Með sama hætti má færa rök fyrir því að allt of stórum hluta skatttekna ríkis og sveitarfélaga sé varið í hluti eða starfsemi sem, ja, er alveg hægt að vera án og/eða færa á hendur borgaranna. Allt of mikið af útgjöldum opinberra aðila er falið á bak við stóra safnliði sem koma aldrei fyrir augu borgaranna sem eftir allt borga brúsann. Þess vegna er erfitt, ef ekki ómögulegt, fyrir almenning að hafa skoðanir og almennt taka þátt í vitrænni umræðu um útgjöld hins opinbera. Kannski er það einmitt tilgangurinn! Þegar ég fæ skattseðilinn minn vil ég hafa hann sundurliðaðan niður í smæstu liði, eftir því hvert peningarnir mínir fara.

Af mörgu er að taka: Það er til dæmis alveg galið að ríkið sé að halda úti sælkeraverslunum fyrir alkóhólista. Það er ekki hlutverk ríkisins að tryggja aðgengi að og/eða fjölbreytt úrval þessarar vöru. Áhugamenn um áfengi eru þess fullfærir. Sama má segja um margs konar aðra starfsemi hins opinbera og nægir þar að nefna fjölmiðlun, trúfélög, ýmiss konar umboðsmenn, sérhagsmunastofur og skemmtanahald sem niðurgreitt er af skattfé okkar í beinni samkeppni við einkaaðila. Listinn er því miður of langur. Það er líka ósköp huggulegt að fylgjast með metnaðarfullum blóma- og jólaskreytingum sveitarfélagana. Er er þar brýn nauðsyn á ferð? Það er líka ósköp fallegt að styrkja kóra, hljómsveitir og listmálara. Er það í raun nauðsynlegt? Eiga þeir ekki að borga sem njóta? Á ríkiskrumlan alltaf að vera á iði í vasa mínum í nafni, oft misskilinnar, góðmennsku? Nei, lækkum frekar skattana og skreytum, styðjum og starfrækjum sjálf.

Holl ráð

Það er lífsnauðsynlegt, eigi þjóðin að verða sjálfbær, að skila fjármunum aftur til borgaranna í formi þess að opinberir aðilar afsali sér völdum hlutverkum og starfsemi. Þannig skapast svigrúm til skattalækkana og almennt meiri samkeppni sem mun á endanum leiða til aukinnar almennrar velsældar. Heimilin þola ekki meiri skattheimtu, hvorki beina né óbeina. Það verður að lækka fastan kostnað hins opinbera svo skattgreiðendur geti staðið undir honum með góðri samvisku og bros á vör.

Höfundur er cand. oecon.

Höf.: Sverri Ragnars Arngrímsson