Ólafur Stefánsson yrkir á Boðnarmiði: Á nesi suður með sjó sífellt til tíðinda dró, með skrölti og drunum skjálftum í bunum og eldur úr iðrum lands smó. Á sama nesi við sjó, mér sviðsmynd var um og ó: um flugvöll til vara í vikri og þara.

Ólafur Stefánsson yrkir á Boðnarmiði:

Á nesi suður með sjó

sífellt til tíðinda dró,

með skrölti og drunum

skjálftum í bunum

og eldur úr iðrum lands smó.

Á sama nesi við sjó,

mér sviðsmynd var um og ó:

um flugvöll til vara

í vikri og þara.

En hugmyndin hikstaði og dó.

Halldór Halldórsson skrifar: „Nú sýnist mér að „sá vondi“ gefist bráðum upp á þessu eldgosi og þá er ekki seinna vænna að setja fram vísu um hvað ég hefði gert ef ég gæti!“

Skundar halur hátt um fjöll,

heillar fjallasalur;

en hvorki finnur frost né mjöll,

því funar Meradalur!

Anton Helgi Jónsson orti „Bað- og geðlæknalimru dagsins“:

Ef geðlæknar geðlækna mig

en geðlæknir skítur á þig

er geðlæknastefnan

að geðlæknisnefnan

í geðlæknum baði þá sig.

Kristján H. Theodórsson kvað:

Ekki er kyn að konu og mann,

það kaldrunnið í fýsi.

Sá heilsu góðri halda kann,

sem hellir í sig lýsi.

Hafsteinn Reykjalín Jóhannesson orti:

Vindurinn um veröld fer,

vingjarnlegur stundum.

Áhyggjur þó oft hann ber

og eyðir lífi á grundum.

Ármann Þorgrímsson segir: „Varð til í vinnunni í dag“:

Iðrakveisa er engin synd

oftast meinlaus veira

ljúft er þá að leysa vind

láta í sér heyra.

Jón Jens Kristjánsson yrkir:

Þjóðin lifir við sorg og sút

sífelldum þrautum hlaðin

öll eru málin í einum hnút

er samt þó mestur skaðinn

að verða að flytja vikur út

og vínarbrauð inn í staðinn

Hægt er þó brátt að finna frið

og fiðring í bognum hnjánum

LXS hópurinn á hér svið

og allir bíða á tánum

verður þar okkar varalið

væntanlega á skjánum.

Hrólfur Sveinsson kvað:

Hallvarður vill ná háttum

til Höllu; þó löngum sé fátt um

ástir og kjass,

þá er þetta skass

hreint afbragð í stórum dráttum.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is