Það er mikið að gera á skrifstofu Endurmenntunar Háskóla Íslands um þessar mundir. Haustdagskráin er komin í loftið á endurmenntun.is og skráningar í fullum gangi. Þar er fjölbreytt framboð styttri námskeiða, styttri námslína og námsbrauta
„Sumar námsbrautir hjá okkur eru unnar í samstarfi við viðkomandi deildir Háskóla Íslands og eru metnar til eininga þar. Aðrar eru skipulagðar í samstarfi við fagfélög eða aðra aðila sem hafa greint tilteknar þarfir í atvinnulífinu. Þessar námsbrautir höfða til þeirra sem eru tilbúnir til að stíga út úr rammanum og fara í alvörunám meðfram vinnu sem getur tekið 2-4 annir.
Dæmi um slíkt er leiðsögunám, nám í jákvæðri sálfræði, sálgæslu, fjölskyldumeðferð og nám til löggildingar fasteigna- og skipasala.
Svo erum við með námslínur sem klárast yfirleitt innan annar. Í vetur verðum við með nýjar og fjölbreyttar námslínur, s.s. ritlist, fjármál og rekstur, jákvæða sálfræði fyrir heilbrigðisstarfsfólk og jákvæða sálfræði fyrir stjórnendur og mannauðsfólk. Í styttri námskeiðunum er komið víða við en Sturlunga saga, tilfinningagreind stjórnenda og gönguleiðir á Tenerife eru meðal fjölmargra viðfangsefna þar. Menningartengt efni er ávallt í boði hjá okkur,“ segir Halla en Endurmenntun er í samstarfi við Borgarleikhúsið og Þjóðleikhúsið svo eitthvað sé nefnt.
„Síðast en ekki síst er fjölmargt í boði til að efla hæfni í starfi og lífi. Þar er gaman að nefna hlaðvarpsgerð, orkustjórnun, núvitundarnámskeið og námskeið um árangursrík samskipti. Það eiga allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi hjá okkur. Ekki bara þeir sem eru búnir með háskólanám,“ segir hún.
Hvaða merkingu hefur endurmenntun í þínum huga?
„Endurmenntun stendur fyrir það í dag að við lærum allt lífið. Það er ekki lengur þannig að maður velji sér hvað maður ætlar að verða sem ung manneskja og við það sitji. Í dag eru allar leiðir opnar og fólk getur tekið litlar og stórar beygjur í ferlinum sínum og lífinu. Ákveðið að bæta við sig þekkingu, hæfni og áhugasviði eftir því sem vindar blása og vilji stendur til. Þannig getur fólk nýtt það sem í því býr og vaxið. Það er auðvitað gríðarlega dýrmætt fyrir bæði einstaklinginn, atvinnulífið og samfélagið,“ segir hún.
Halla segir að stundum séu heilu og hálfu fjölskyldurnar að stunda nám í Endurmenntun á sama tíma og nefnir til dæmis hjón, systkini, mágkonur og mæðgin.
„Hér myndast líka oft órjúfanleg tengsl enda er fólk að ganga í gegnum ýmislegt saman þegar farið er að læra nýja hluti, tileinka sér nýja hæfni og jafnvel hegðun.
Það er líka mjög ánægjulegt að fylgjast með því sem gerist þegar fólk fer að nýta sér námið héðan. Stofna fyrirtæki, jafnvel í samstarfi við samnemendur, skipta um starf eða vinna verkefni sem maður sér að nýtast samfélaginu vel.
Við höfum til að mynda mörg dæmi um slík stór og smá verkefni í kjölfar náms í jákvæðri sálfræði.
Það var margt áhugavert sem gerðist á veirutímabilinu þó það reyndist okkur öllum strembið. Tæknin kom af krafti inn í símenntun eins og aðra þætti mannlífsins og kennsla færðist nær alfarið yfir á netið.
Það er í senn gleðilegt og áhugavert að sjá að fróðleiksfýsn fólks minnkaði ekki við það að einhverjar hindranir stæðu í veginum, heldur hefur mikill fjöldi fólks sótt námskeið hjá Endurmenntun síðustu misseri.“
Halla segir að endurmenntun sé fyrir fólk á öllum aldri og alls ekki bara fyrir fólk sem er á krossgötum í lífinu.
„Við þurfum öll að gæta þess að læra nýja hluti, bæði af því að það opnar okkur tækifæri og af því að það er gefandi og skemmtilegt og heldur okkur ferskum. Það eru svo margar leiðir opnar. Á hverju misseri eru til dæmis um og yfir 200 námskeið á dagskrá hjá okkur þar sem engar forkröfur um menntun eða reynslu eru gerðar og er því um gríðarlega mikið úrval að ræða sem nýtist fólki með alls konar bakgrunn. Við höfum til dæmis fengið hingað nýútskrifaðan stúdent sem tók leiðsögunám og var svo á leið í þyrluflugmanninn.“
Halla lærði sálfræði í Háskóla Íslands á sínum tíma og fór svo til Amsterdam þar sem hún lauk meistaranámi í vinnu- og skipulagssálfræði. Tíu árum síðar fór hún í MBA-nám við Háskólann í Reykjavík og var í því námi meðfram vinnunni.
„Þetta var mjög krefjandi tími en með þrautseigju og góðum stuðningi hafðist þetta allt. Þarna fann ég á eigin skinni hvað endurmenntun getur gert fyrir mann. Maður kynnist alls konar fólki, tekur inn fersk sjónarmið og opnar augun fyrir nýjum möguleikum. Þetta var hressandi og lærdómsríkt ferli og ég tel það hafa aukið víðsýni og hæfni hjá mér. Síðast en ekki síst þá opnaði námið ný tækifæri sem ég hef nýtt mér í kjölfarið,“ segir hún.
Hefur þú nýtt þér endurmenntun sjálf?
„Ég er mjög upptekin af því að það sé hollt og gott að læra. Ég legg upp úr því sjálf að sækja námskeið og kynna mér nýtt efni. Hjá Endurmenntun er starfsfólk hvatt til að sækja sér þá endurmenntun sem vantar hverju sinni og nýta sér framboð hússins. Það skiptir miklu máli fyrir fólk sem vinnur að endurmenntun að vera virkt í henni sjálft. Fylgjast vel með, rýna og fá hugmyndir í leiðinni. Síðasta námskeið sem ég sótti var námskeið hér í Endurmenntun um verkefnamiðað vinnuumhverfi með Tim de Vos frá Veldhoen + Company. Gríðarlega spennandi efni fyrir stjórnendur nútímans og ekki síður fyrir vinnusálfræðinga. Þar er fjallað um það hvernig þarf að innrétta nútímavinnustaði þannig að hönnun þeirra taki mið af verkefnum. Þannig sé til dæmis ekki sjálfgefið að fólk sitji við sama borðið með sjálfu sér allan daginn heldur þarf að hafa mismunandi svæði eftir viðfangsefnum, samstarfsfólki og stemmingunni sem styður best við starfsmanninn í sínum verkefnum. Sum verkefni er einfaldlega best að vinna heima í sófa, önnur á kaffistofunni eða í vel útbúnu fundarherbergi fyrir teymisvinnu. Hljómar einfalt og rökrétt en það þarf að vanda til verka þegar svona umhverfi er hannað og þá skiptir vinnustaðamenningin miklu máli líka. Þetta námskeið var áhugavert fyrir mig sem vinnusálfræðing en mun klárlega nýtast mér hér í starfi líka þar sem við erum að endurhanna vinnuumhverfið hjá okkur,“ segir hún.