Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, sagði í gær að krísuviðræður á milli Serba og Kósóvóa, sem ESB hefur staðið að, hefðu ekki náð að draga úr spennunni sem ríkir á milli ríkjanna tveggja. Borrell sagði þó að viðræðurnar myndu halda áfram.
„Þetta eru ekki sögulok,“ sagði Borrell. „Viðræðurnar halda áfram á næstu dögum ... ég mun ekki gefast upp,“ sagði hann.
Albin Kurti, forsætisráðherra Kósóvó og Aleksandar Vucic, forseti Serbíu, tóku þátt í viðræðunum en þeim var ætlað að draga úr spennu og óróleika sem hefur skekið samskipti ríkjanna undanfarnar vikur.
Peter Petkovic, einn af ráðgjöfum Vucic, sagði hins vegar í gær að forsetinn hygðist flytja „eina af sínum mikilvægustu ræðum“ í dag, föstuda. Þá hermdu serbneskir ríkisfjölmiðlar að Vucic ætlaði sér að halda „neyðarfund“ með leiðtogum serbneska minnihlutans í Kósóvó á sunnudaginn.
Ósáttir við bílnúmeraplötur
Tvö málefni voru í brennidepli á fundinum. Annars vegar var rætt um áform stjórnvalda í Kósóvó um að samræma bílnúmeraplötur yfir allt landið en serbneski minnihlutinn í norðurhluta landsins hefur tekið þau áform óstinnt upp. Þá var einnig rætt um þau skjöl sem fólk þyrfti að hafa meðferðis sem vildi ferðast um landamæri nágrannaríkjanna.Borrell sagði að alþjóðasamfélagið vildi ekki að frekari spenna kæmi upp í samskiptum Serbíu og Kósóvó og að ríkin myndu bera fulla ábyrgð á því ef hún yrði aukin.