Leikskólamál Kristín Tómasdóttir tók til máls eftir að meirihlutinn kynnti tillögurnar að leikskólavandanum
Leikskólamál Kristín Tómasdóttir tók til máls eftir að meirihlutinn kynnti tillögurnar að leikskólavandanum — Morgunblaðið/Hákon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Hér hafa allir hlaupið mjög hratt.

„Hér hafa allir hlaupið mjög hratt. Ég held að það sé góð samstaða í borgarráði milli minni- og meirihluta um að gera allt sem við getum til þess að auka framboð á plássum og koma börnum á leikskóla,“ sagði Einar Þorsteinsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og formaður borgarráðs, eftir kynningu borgarráðs á tillögum vegna leikskólavandans í gær. Alls voru sex tillögur kynntar.

Kristín Tómasdóttir, fjögurra barna móðir og fjölskyldumeðferðarfræðingur sem hefur staðið fyrir mótmælum vegna leikskólavandans í Reykjavíkurborg, tók til máls að kynningu lokinni. Kvaðst hún ekki sátt við kynningu borgaryfirvalda á tillögum þeirra á lausn vandans og telur hún borgina þurfa að gera betur. Þá sakaði hún borgaryfirvöld um kæruleysi og dónaskap og sagði kynninguna ekki innihalda nein bein svör. „Við getum ekki farið í vinnuna okkar vegna þess að þið eruð ekki að vinna vinnuna ykkar.“

Biðlistabætur ekki á meðal tillaganna

Kristín kallaði eftir því að borgin myndi greiða foreldrum biðlistabætur þar sem margir hefðu þurft að hætta vinnu. Á fundi borgarráðs þann 11. ágúst lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að foreldrar þeirra barna sem væru orðin 12 mánaða eða eldri og enn á biðlista fengju um 200.000 krónur í mánaðarlegar biðlistabætur. Biðlistabætur voru ekki meðal tillagnanna sem meirihluti borgarráðs kynnti í gær.

Einar Þorsteinsson segir það vera snúið mál að greiða foreldrum sem eru með börn á biðlista eftir leikskólaplássi í Reykjavík biðlistabætur. „Það þarf að nýta fjármagnið sem best til að auka úrræðin. Það eru víða biðlistar í borginni.“ Sem dæmi nefnir Einar biðlista eftir félagslegu húsnæði og þjónustu við fatlað fólk.

„Það er alveg viðbúið að þeir sem myndu fá biðlistabætur í leikskólakerfinu myndu ekki vera þeir einu sem myndu gera kröfu um biðlistabætur. Af því að aðrir hópar, sem eiga rétt á lögbundinni þjónustu, munu telja sig eiga skýra kröfu á að fá bætur líka. Í því samhengi má benda á að leikskólaúrræði er ekki lögbundin skylda sveitarfélaganna.“

Tillögunni um biðlistabætur var ekki hafnað af borgarráði. Var hún sendi til umsagnar hjá fjármála- og áhættustýringarsviði sem mun greina umfang hennar og þau lagalegu sjónarmið sem eru uppi varðandi jafnræði gagnvart öðrum hópum.

Stórt mál sem geti haft alvarlegar afleiðingar

Skúli Helgason, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður stýrihóps borgarinnar í uppbyggingu leikskóla, segir biðlistabætur vera í skoðun en að það sé mjög stórt mál sem geti haft alvarlegar afleiðingar. „Við þurfum að skoða fordæmið og jafnræði gagnvart öðrum umsækjendum um grunnþjónustu. Eiga þeir þá sama rétt eins og í þessu tilviki? Þessari tillögu er ekki hafnað, hún fer í rýni og skoðun og fær umsögn hjá fjármálaskrifstofunni.“

Hann segir að á biðlista eftir leikskólaplássi séu um 665 börn sem eru 12 mánaða og eldri.

Segir tillögurnar ekki duga til

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, fagnar því að eitthvað sé gert til að taka á vandanum en segir þó að tillögur meirihlutans dugi ekki til. „Það skortir raunhæfar tímaáætlanir, áætlanir um mönnun og tölfræði um það hversu langt þetta nær til að stytta biðlistann til framtíðar.“ Að mati Hildar koma tillögur meirihlutans heldur seint.

Skúli Helgason telur aftur á móti tillögurnar til þess fallnar að bæta stöðuna mikið.

„Við erum fyrst og fremst með þessum tillögum að reyna að koma til móts við foreldra sem höfðu réttmætar væntingar um að þeir kæmust með börnin inn í haust. Við byggðum okkar tímaáætlun á þeirri spá sem skóla- og frístundasvið gaf út miðað við þær framkvæmdir sem voru í gangi. Samkvæmt þeim átti að vera hægt að taka á móti 12 mánaða börnum í haust. Svo hafa ýmsir þættir orðið til þess að tefja það plan en markmiðið er áfram það sama. Við viljum koma börnum frá 12 mánaða inn í leikskólana og þurfum að finna nýjar leiðir, til viðbótar við þær sem hafa þegar verið samþykktar. Þessar tillögur eru innlegg inn í þá vinnu,“ segir Skúli.

Margar aðgerðir í tengslum við mönnunarvandann

Spurður um mönnunarvandann segir Skúli að hann sé vel reifaður í greinargerðinni sem fylgir með tillögunum. „Þar er sérstakur kafli um mönnunarmálin. Það eru mjög margar aðgerðir í gangi á sviðinu um þau mál. Þetta er meiri vinna varðandi mönnun en við höfum séð lengi.“