Kristinn Halldór Gunnarsson fæddist 19. ágúst 1952 í Reykjavík og ólst þar upp í Hlíðunum en fluttist í Garðahreppinn á unglingsárum. Hann fluttist vestur á firði 1973, bjó fyrst á Tálknafirði en hefur búið í Bolungavík frá 1974 ef undan eru skilin háskólaárin. Kristinn var í sveit á Bakka í Austur-Landeyjum í níu sumur, 1959-67. Hann stundaði íþróttir, lék handknattleik með Val upp alla flokka og knattspyrnu með Stjörnunni í Garðabæ.
Kristinn gekk í Hlíðaskóla, lauk landsprófi frá gagnfræðaskóla Austurbæjar og stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1972. Hann var við kennslu á Tálknafirði og í Bolungavík 1973-75 og aftur frá 1979-1981 í Bolungavík eftir að hafa lokið BS-prófi í stærðfræði frá HÍ.
Kristinn var skrifstofustjóri hjá byggingarþjónustu Jóns Fr. Einarssonar 1981-84 og rak eigin bókhaldsþjónustu frá 1984. Hann var knattspyrnuþjálfari UMFB Bolungavík í 2. deildinni sumarið 1975, var formaður knattspyrnudeildar UMFB og formaður Verslunarmannafélags Bolungavíkur 1982-1992 og sat í stjórn LÍV 1987-1991.
Hann var bæjarfulltrúi í Bolungavík 1982-1998 og alþingismaður 1991-2009. Frá 1991-2003 var hann þingmaður Vestfjarðakjördæmis og 2003-2009 þingmaður Norðvesturkjördæmis. Hann var þingmaður Alþýðubandalagsins 1991-1998, Framsóknarflokksins 1998-2007 og Frjálslynda flokksins 2007-2009. Hann var formaður þingflokks Framsóknar 1999-2003 og formaður þingflokks Frjálslynda flokksins 2007-2008. „Stóru málin hjá mér voru atvinnu- og sjávarútvegsmálin. Ég talaði fyrir nauðsynlegum breytingum á kvótakerfinu, en 20 árum síðar eru þær enn jafn aðkallandi, sýnist mér.“
Kristinn sat í flugráði, stjórn Húsnæðismálastofnunar ríkisins, Skipaútgerðar ríkisins, Byggðastofnunar og formaður þess og Sjúkratrygginga Íslands.
Kristinn hóf nám eftir þingferilinn, lauk BA-prófi í ensku frá HÍ 2012 og BA-prófi í þýsku 2019, einnig frá HÍ, MA-prófi í stjórnmálaheimspeki frá University of Leeds í desember 2013, MS-prófi í hagfræði frá HÍ 2016 og sama ár lauk hann kennsluréttindanámi á framhaldsskólastigi. „Í náminu leiddi eitt af öðru, ég hef alltaf haft gaman af tungumálum og eftir að hafa lært stjórnmálaheimspekina fór ég að hafa áhuga á hagfræði og fór líka í meistaranám í því, en þurfti að taka undirbúningskúrsa til að geta hafið það nám.“ Kristinn hóf svo að kenna við Menntaskólann við Sund 2016. „Ég kenndi stærðfræði og þjóðhagfræði, það var mjög skemmtilegt, en ég er núna hættur að kenna.“
Kristinn keypti fréttavefinn Bæjarins besta á Ísafirði 2018 og hefur frá þeim tíma verið ritstjóri þess. „Nú einbeiti ég mér að vefnum og að ná heilsu. Ég þurfti að gangast undir mikla aðgerð í fyrra, fékk illkynja æxli í höfði, en það var skurðtækt. Aðgerðin gekk vel, horfur eru góðar og ég sé fram á að ná góðri heilsu. Þetta eru stóru verkefnin í bili. Ég hef getað sinnt vefnum þrátt fyrir veikindin. Bæjarins besta hefur alltaf verið góður vefur og vel sóttur. Hann er sérstakur að því leyti að ég sæki ekki um ríkisstyrk og er vefurinn rekinn á auglýsingatekjum.“
Bæjarins besta flytur fréttir af öllum Vestfjörðum og það hefur mælst vel fyrir að sögn Kristins. „Ég reyni að fylgjast með alls staðar á Vestfjörðum og þingmennskan og kunningsskapurinn frá þeim tíma hefur hjálpað til við það og maður er sæmilega vel inni í málunum. Það er vor á Vestfjörðum og 30 ára undanhaldi hér er lokið. Íbúum er að fjölga og atvinnulífið að styrkjast. Það er ekki vegna kvótakerfisins heldur er það fiskeldið sem hefur breytt þessu. Það er því framfaraskeið fram undan á Vestjörðum.“
Fjölskylda
Börn Kristins með fyrri eiginkonu sinni, Aldísi Rögnvaldsdóttur, f. 19.3. 1956, eru: 1) Dagný, f. 20.4. 1978, skólastjóri í Hvassaleitisskóla og bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ. Maki: Haukur Harðarson. Börn þeirra eru Kristinn Breki, f. 1999, Arnar Páll, f. 2004, Tómas Örn, f. 2006; 2) Erla, f. 18.10. 1979, með meistarapróf í endurskoðun og er aðalbókari Rauða krossins, búsett í Reykjavík. Dóttir hennar er Kaðlín Rögn, f. 2020; 3) Rögnvaldur Karstein, f. 19.9. 1981, tölvunarfræðingur, búsettur í Vantaa í Finnlandi. Maki: Elisa Leinonen. Börn þeirra eru Olavi Karstein, f. 2018, og Aldís, f. 2022; 4) Rakel, f. 5.5. 1985, bókari, búsett í Mosfellsbæ. Seinni kona Kristins var Elsa Björg Friðfinnsdóttir, f. 9.10. 1959, þau eru einnig skilin.Alsystkini Kristins: Sigrún Bryndís Gunnarsdóttir, f. 7.9. 1954, kennari; Karl Ágúst Gunnarsson, f. 26.9. 1955, fisktæknir; Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, f. 6.10. 1957, d. 9.2. 2009, hjúkrunarfræðingur; Katrín Gunnarsdóttir, f. 21.9. 1959, kennari; stúlka Gunnarsdóttir, f. 6.11. 1960, d. 7.11. 1960, og Hafsteinn Hörður Gunnarsson, f. 22.8. 1965, líffræðingur. Hálfbræður Kristins sammæðra voru Gunnar Ingi Birgisson, f. 30.9. 1947, d. 14.6. 2021, verkfræðingur, alþingismaður og bæjarstjóri, og Þórarinn Sigurðsson, f. 26.4. 1950, d. 17.5. 2010, kerfisfræðingur.
Foreldrar Kristins voru hjónin Gunnar H. Kristinsson, f. 1.11. 1930, d. 27.8. 2000, hitaveitustjóri, og Auðbjörg Brynjólfsdóttir, f. 1.11. 1929, d. 17.1. 2000, starfsmaður heimilishjálpar í Reykjavík.