Hæstiréttur Íslands hefur fallist á áfrýjunarbeiðni landsréttardóms til réttarins um málverk er í arf gengu, að yfirsýn og úrskurði dómaranna Ólafs Barkar Þorvaldssonar, Bjargar Thorarensen og Karls Axelssonar.
Frá þessu er greint á heimasíðu Hæstaréttar. Segir þar enn fremur: „Leyfisbeiðandi [áfrýjunarleyfisins] og E gengu í hjónaband árið 1980 og gerðu þau sameiginlega erfðaskrá 1. september 2016. Hinn 3. desember 2018 undirritaði E skjal þar sem hann ráðstafaði átta tilgreindum málverkum til gagnaðila en hann lést [...] 2019.“
Er því næst greint frá því í rökstuðningi hæstaréttardómaranna að það skilyrði hafi verið sett fyrir gerningi þessum að málverkin fengju að vera á heimili leyfisbeiðanda og yrðu þau ekki afhent gagnaðilum téðs máls fyrr en að E látnum fengi leyfisbeiðandi ekki heimild til setu í óskiptu búi eða eftir andlát þess þeirra er lengur lifði fengist slíkt leyfi.
Leyfisbeiðandi fékk þó ekki vitneskju um skjalið fyrr en eftir andlát E og höfðaði mál á hendur gagnaðilum í málinu, krafðist þar riftunar á skjalinu frá 3. desember 2018 auk viðurkenningar þess að málverkin teljist hluti hins óskipta bús leyfisbeiðanda og E. Til vara krafðist leyfisbeiðandi viðurkenningar á því að málverkin teldust til fyrirframgreidds arfs gagnaðila við arfskipti þeirra E.
Segir svo í rökstuðningi Hæstaréttar um áfrýjunina: „Leyfisbeiðandi vísar til þess að málið varði það grundvallaratriði hvort aðili geti eftir gerð sameiginlegrar erfðaskrár, sem nái til allra eigna, ráðstafað stórum hluta eigna búsins til ákveðinna aðila með leynd og skert þannig skömmu fyrir andlát sitt eignir búsins og þar með eignir annarra erfingja. Hún byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi en ekki hafi mikið reynt á sambærilegt álitaefni á síðastliðnum árum.“
Féllust dómendur Hæstaréttar þar með á áfrýjunarbeiðni leyfisbeiðanda. atlisteinn@mbl.is