Skuldir og skuldbindingar borgarsjóðs, svokallaðs A-hluta Reykjavíkurborgar, jukust á fyrstu þremur mánuðum ársins um níu milljarða króna, eða um eitt hundrað milljónir á dag. Þetta er enn verri þróun en að meðaltali á síðasta kjörtímabili en þá hækkuðu skuldirnar um það bil um fimmtíu milljarða króna.
Viðskiptablaðið sagði í gær frá því að borginni hefði gengið treglega að afla nýs lánsfjár með skuldabréfaútboðum að undanförnu. Rætt var við Valdimar Ármann, forstöðumann eignastýringar hjá Arctica Finance, sem segir að mikil umræða hafi verið um fjármál borgarinnar og aukna skuldsetningu: „Ætla má að fjárfestar hafi horft til þess að borgin þyrfti sennilega að auka í útgáfuna til að fjármagna hallareksturinn,“ segir hann.
Þá bendir Valdimar á að ríkissjóður, sem sé stór á markaðnum, hafi dregið úr fjármögnunarþörf sinni og gömlu verðtryggðu íbúðabréfin séu farin að greiðast frekar hratt upp, þannig að þetta ætti ekki að vera slæmur tími fyrir borgina að gefa út skuldabréf.
Þá segir hann áhugavert að Reykjavík þurfi nú, ólíkt því sem áður var, að fjármagna sig á verri kjörum en Lánasjóður sveitarfélaga. Valdimar segir að þetta bendi til að markaðurinn sé búinn að verðleggja hallarekstur borgarinnar inn í ávöxtunarkröfu skuldabréfanna, sem þýðir að hallareksturinn er að verða borgarbúum æ dýrari, ekki aðeins vegna aukinna skulda heldur einnig vegna óhagstæðari vaxtakjara.