Jón Hermann Arngrímsson fæddist 11. júlí 1939 í Flatey á Breiðafirði. Hann lést á heimili sínu 5. ágúst 2022.
Foreldrar hans voru Arngrímur Björnsson og Þorbjörg Jensdóttir Guðmundsdóttir. Bróðir hans var Bjarni, f. 1936, giftur Halldóru Gunnarsdóttur, f. 1936. Þau eru bæði látin.
Jón kvæntist hinn 2. nóvember 1962 Pálínu Georgsdóttur, f. 30.11. 1932, d. 13.8. 2010. Þau áttu börnin Hermann S.; stúlku (látin) og Jónu Kristínu. Þau áttu fjögur barnabörn (eitt látið) og tvö barnabarnabörn.
Jón fæddist í Flatey á Breiðafirði og ólst þar upp til þriggja ára aldurs. Fjölskyldan fór að Ögri í Ísafjarðardjúpi og var þar í tvö ár en fluttist síðan til Ólafsvíkur árið 1945 og þar bjó Jón allar götur síðan. Hann dvaldi þó mörg sumur í Flatey hjá ömmu sinni.
Jón gekk í Grunnskólann í Ólafsvík og síðan í Iðnskólann í Reykjavík þar sem hann útskrifaðist sem meistari í rafvirkjun. Hann vann hjá rafvirkjanum Tómasi Þ. Gunnarssyni í Ólafsvík til 1971, þegar hann stofnaði sitt eigið fyrirtæki með félaga sínum, Trausta Magnússyni, og starfaði þar þar til hann lést.
Útför Jóns fer fram frá Ólafsvíkurkirkju í dag, 19. ágúst 2022, kl. 13.
Elsku pabbi minn. Þín mun ég sakna mjög mikið, enginn var eins ástúðlegur og þú, þú skildir ætíð allt. Alltaf var gott að tala við þig og þú varst svo glaður að heyra í mér og Birtu, yngsta barnabarni þínu.
Liðin er sú tíð þegar ég var lítið barn, þú brosandi blítt breyttir sorg í gleði. Þú labbaðir um bæinn okkar og sýndir öllum litlu stelpuna þína.
Já svona varst þú. Þú varst alla tíð mjög hjálpsamur þinni fjölskyldu og varst kominn um leið og eitthvað bjátaði á hjá okkur systkinunum.
Þú varst ætíð mjög gjafmildur og hjálpsamur, en þú vildir enga hjálp þiggja frá okkur börnunum þínum. Það þótti mér erfitt því ég var boðin og búin að aðstoða þig. En ég vissi líka að vinir þínir í bænum okkar hugsuðu vel um þig. Vil ég þakka sérstaklega Þórði fyrir vinskapinn og hjálpsemina við þig. Það gerði okkur systkinunum kleift að þú gast verið heima hjá þér til andláts.
En núna verður tómlegt að koma í víkina þína þegar þú ert ekki lengur þar.
Ég dáði alltaf þína léttu lund og húmorinn þinn. Það var gaman að tala við þig því þú sást oft svo skondið við lífið og tilveruna. Einnig varstu listrænn, bæði málaðir, ortir vísur og fleira, og munu þessir hlutir hjálpa okkur að muna eftir þér um ókomna tíð.
Ég mun halda áfram að koma í sumarbústaðinn sem er í sveitinni hennar mömmu. Þar leið þér alltaf vel og mér líka. Finnst mér best að vera þar þegar sorgin bankar á dyrnar.
Seint mun ég gleyma mjúka og hlýja handtakinu þínu þegar þú leiddir mig upp að altarinu og væntumþykjunni sem þú sýndir mér. Þennan dag ætlaðir þú að tjá þig um mig en gast það ekki því þú varst svo meyr og megnið af salnum fór að gráta með þér, já svona varstu pabbi minn. Núna munu æskunnar ómar ylja mér þegar þú verður lagður til hinstu hvíldar.
Nú kveð ég þig í dag, pabbi minn. Minning um góðan pabba mun ávallt lifa, ég mun alltaf elska þig. Takk fyrir allt, hvíl í friði í örmum mömmu sem þú elskaðir og saknaðir alltaf svo mikið.
Þín dóttir,
Jóna Kristín og
dótturdóttir, Birta Mjöll.
Jón ól nær allan sinn aldur í Ólafsvík, sonur Arngríms Björnssonar, hins góða læknis, sem hér starfaði lengi.
Jón var mikill persónuleiki og gáfumaður sem við fjölskyldan vorum svo heppin að eiga samleið með.
Ég kynntist Jóni fljótlega þegar ég flutti til Ólafsvíkur upp úr 1960. Þar sem ég var stýrimaður á báti þar þurfti ég oft að kalla á rafvirkja og þá mætti Jón rafvirki. Mér leist ekkert á hann í fyrstu enda maðurinn þungur á brún og óð strax í verkið og kláraði á mettíma!
Það fór ekki fram hjá mér að þarna fór merkilegur maður. Fljótlega kynntist ég honum betur og komst að því að hann æfði fótbolta og við fórum að æfa saman og ekki var verra að hann hélt með mínu liði, Arsenal. Við urðum góðir vinir og náðum vel saman.
Hann hafði alltaf mjög mikið að gera enda einstaklega hæfileikaríkur í sínu fagi sem öðru. Hann var líka vel skáldmæltur, við hjónin nutum þess heiðurs að fá að gjöf frá honum skemmtilegan brag um hvort okkar, sem við geymum vel.
Hvert sinn sem við hittum hann skildi hann eftir hjá okkur gleði, góða sögu og fróðleik um menn og málefni.
Nú seinni ár höfum við ásamt nokkrum öðrum vinum hist hvern virkan morgun til að spjalla um „leikinn“, bæði í lífinu sem á vellinum. Staðinn sem við hittumst á kallaði hann Bölmóðsstað, sem sýnir vel húmorinn hans.
Við hjónin minnumst hans með þakklæti og söknuði og sendum börnum hans og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.
Gunnar og Ester.