Jóhann Björnsson hefur kennt heimspeki í mörg ár, aðallega á grunn- og framhaldsskólastigi en einnig hefur hann verið með fyrirlestra á háskólastigi og námskeið fyrir leikskólakennara sem efla vilja heimspekilega hugsun nemenda sinna.
„Það sem á hug minn allan um þessar mundir er doktorsverkefnið mitt sem fjallar um heimspeki í skólastarfi og hvernig kennarar geti eflt virka gagnrýna og skapandi hugsun á meðal nemenda sinna. Undirbúningur fyrir kennslu vetrarins er líka kominn í gang en í vetur mun ég eins og undanfarin tvö ár vera með heimspekitíma í Háskólagrunni Háskólans í Reykjavík,“ segir Jóhann.
Hvað getur þú sagt mér um að þjálfa upp gagnrýna hugsun og hversvegna er það mikilvægt?
„Gagnrýnin hugsun hefur ávallt verið mikilvæg þegar fólk þarf að taka afstöðu til ýmissa mála og mynda sé skoðanir á skynsamlegan hátt. Í nútímasamfélagi er hún enn mikilvægari en nokkru sinni í ljósi þess að upplýsingaflæðið er gríðarlega mikið og misjafnt að gæðum og má búast við að það verði enn meira á komandi tímum. Upplýsingar, fréttir, tilboð og allskonar skoðanir sem birtast okkur á degi hverjum kalla á að við vegum og metum hverju sé treystandi og hvað sé gott og gilt. Falsfréttir og upplýsingaóreiða er nokkuð sem kallar á að við leggjum rækt við gagnrýna hugsun, bæði okkar eigin og ekki síður að kennarar þjálfi nemendur í að hugsa gagnrýnið. Það þykir sjálfsagt og eðlilegt að nemendur verði vel læsir og talnaglöggir en þegar skólastarf er skoðað er minna lagt upp úr mikilvægi þess að þeir verði gagnrýnir í hugsun, sem er að mínu mati áhyggjuefni,“ segir hann.
Skoðar fegurð og fegurðarstaðla
Á námskeiðum hans um heimspeki og gagnrýna hugsun leggur hann áherslu á að skoða mál sem almenningur tengir við.„Ég er að fást við það sem í heimspekinni er kallað hversdagsheimspeki og tökum við fyrir ýmis dæmi sem hafa með réttlæti að gera, fegurð og fegurðarstaðla, hvað er krúttlegt og hvers vegna og hvað er vandræðalegt. Við skoðum líka ýmis siðferðileg álitamál og rökvillur sem birst hafa í fjölmiðlum og tökum aftstöðu til ýmissa skoðana sem ég hef sem dæmi séð birtast þar.“
Hvað geta kennarar tileinkað sér frá nemendum sínum?
„Heimspekitímar fara yfirleitt fram með heimspekilegum samræðum og þannig fá nemendur eða þátttakendur í samræðunni hverju sinni tækifæri til að leggja sitt af mörgum og koma með sjónarmið sem oft verða meginviðfangsefni samræðunnar. Það er því mikilvægt að kennarar líti á nemendur sína sem samstarfsaðila þar sem við öll sem komum að samræðunni hverju sinni erum að hjálpast að við að komast að því hvað er rétt og satt, gott og fagurt.“
Áhugavert að læra á endurmenntunarferðalagi
Jóhann hefur í nokkur ár kennt námskeið á vegum Endurmenntunarferða, bæði hér á landi sem og erlendis.„Námskeiðin hafa verið fyrir leik-, grunn- og framhaldsskólakennara og er útfærslan mismunandi eftir hópum hverju sinni. Áhersla á námskeiðum með leikskólakennurum er sem dæmi ekki sú sama og með framhaldsskólakennurum þar sem ég legg á það áherslu að kennarar geti tekið það sem ég kenni inn í kennslustundirnar sínar.
Það eru einnig fjölmargir möguleikar á mismunandi námskeiðum í boði. Það er til dæmis heimspeki og gagnrýnin hugsun, námskeið um það hvernig takast megi á við siðferðileg álitamál, að kenna með aðferðum samræðunnar og svo hef ég mikla reynslu af að vinna að fjölmenningarfærni þar sem nemendur fá að vinna með fordóma og fjölmenningarfærni í æfinga- og leikjaformi.“
Jóhann lítur á sumarið sem tíma útiveru og hreyfingar. „Ég hjóla mikið á sumrin með Hjólreiðadeild Víkings og tek þátt í ýmsum hjólaviðburðum eins og Bláalónsþrautinni sem var mjög skemmtilegur viðburður. Ég gekk líka aðeins á fjöll í sumar og svo ferðaðist ég um Noreg í nokkra daga,“ segir hann.