Fagn Birnir Snær Ingason fagnar marki.
Fagn Birnir Snær Ingason fagnar marki. — Morgunblaðið/Eggert
Íslands- og bikarmeistarar Víkings úr Reykjavík tryggðu sér sæti í undanúrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu, Mjólkurbikarnum, með afar dramatískum sigri gegn KR á Víkingsvelli í Fossvogi í 8-liða úrslitum keppninnar í gær.

Íslands- og bikarmeistarar Víkings úr Reykjavík tryggðu sér sæti í undanúrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu, Mjólkurbikarnum, með afar dramatískum sigri gegn KR á Víkingsvelli í Fossvogi í 8-liða úrslitum keppninnar í gær.

Þeir Erlingur Agnarsson og Birnir Snær Ingason skoruðu sitt markið hvor fyrir Víkinga í fyrri hálfleik áður en Theodór Elmar Bjarnason minnkaði muninn fyrir KR með marki undir lok hálfleiksins.

Ari Sigurpálsson kom Víkingum í 3:1 á 55. mínútu áður en Atli Sigurjónsson minnkaði muninn í eitt mark ellefu mínútum síðar.

Sigurður Bjartur Hallsson jafnaði svo metin fyrir KR með marki úr vítaspyrnu á 85. mínútu og stefndi þá allt í framlengingu. Helgi Guðjónsson kom hins vegar Víkingum yfir á nýjan leik á 87. mínútu. Það mark kom einnig úr vítaspyrnu eftir að brotið hafði verið á Danijel Dejan Djuric. Sigurðar Steinar Björnsson innsiglaði sigur Víkinga tveimur mínútum síðar.

Víkingar verða því í pottinum þegar dregið verður í undanúrslitin ásamt FH og KA en FH vann 4:2-sigur gegn Kórdrengum á Framvelli í Safamýri hinn 11. ágúst og KA vann 3:0-sigur gegn Ægi frá Þorlákshöfn á KA-vellinum á Akureyri hinn 10. ágúst.

Í kvöld mætast svo HK og Breiðablik í Kórnum í lokaleik 8-liða úrslitanna.

Undanúrslitin fara fram 31. ágúst og 1. september og úrslitaleikur verður leikinn á Laugardalsvelli hinn 1. október.