Þorsteinn Viðar Ragnarsson fæddist í Reykjavík 1. október 1936. Hann lést á Dvalarheimilinu Höfða á Akranesi 27. júlí 2022.

Foreldrar Þorsteins voru Ásgeir Ragnar Þorsteinsson rithöfundur, skipstjóri og bóndi og Guðrún Lilja Gísladóttir húsmóðir og verkakona. Systkini Þorsteins eru Reynir, f. 1934; Valdís, f. 1939; Björk, f. 1944, d. 1963; Salóme, f. 1945; Ína Sóley, f. 1947.

Þorsteinn var giftur Ernu Elíasdóttur húsmóður og verkakonu, f. 8. júlí 1939, d. 16. júní 2016. Þorsteinn og Erna tóku í fóstur bróðurdóttur Þorsteins, Kristínu Þorgerði Reynisdóttur, gift Yves Henri Deferne. Þau eru búsett í Sviss. Börn þeirra eru Sandra, Gísli og Nicolas Þorsteinn. Börn Þorsteins og Ernu eru 1) Björk, gift Gunnlaugi Kristinssyni, sonur þeirra er Kormákur Breki. Synir Bjarkar af fyrra sambandi eru Friðþór Örn og Bjarki Freyr Kristinssynir. Synir Friðþórs eru Elías Ibsen og Fáfnir Freyr. 2) Elín Ragna, gift Ómari Rögnvaldssyni. Þeirra synir eru Máni Steinn og Ernir Valdi. 3) Guðrún Lilja, gift Valdimar K. Sigurðssyni, þeirra börn eru Vigný Lea og Víkingur Þórar. Börn Lilju af fyrra sambandi eru Líf og Snorri Már Lárusbörn. Líf er gift Ragnari Þór Gunnarssyni, dætur þeirra eru Móey og Agla. Dóttir Valdimars af fyrra sambandi er Viktoría Venus og sonur hennar er Birkir Orri. 4) Elías Kristján, giftur Mörtu Valsdóttur. Þeirra dætur eru Erna Björt, Elía Valdís og Nadía Steinunn. Sonur Mörtu af fyrra sambandi er Kristján Valur Jóhannsson.

Þorsteinn fæddist í Reykjavík en fluttist ungur að árum til Höfðabrekku í Mýrdal þar sem hann ólst upp. Hann sótti barna- og gagnfræðaskóla í fimm vetur í Reykjavík og bjó þá við gott atlæti hjá móðursystur sinni Kristínu og manni hennar Þorgeiri. Hann lauk landsprófi frá Skógaskóla 1952, sveinsprófi í blikksmíði 1962 og öðlaðist meistararéttindi í þeirri grein. Þorsteinn stundaði sjómennsku á fiskiskipum og farskipum frá 1952 til 1958.

Þorsteinn og Erna fluttu á Akranes árið 1958 og Þorsteinn og svili hans Kjartan stofnuðu Blikksmiðju Akraness það ár og ráku til ársins 1967, Þorsteinn var verkstjóri við byggingu Búrfellsvirkjunar 1967-1970. Hann ásamt fleirum stofnaði Skagaprjón og var hann þar framkvæmdastjóri frá 1970 til 1978. Þorsteinn vann hjá Íslenska járnblendifélaginu frá 1979 þar til hann hætti störfum sökum aldurs árið 2003. Í nokkur ár gerði hann út trilluna Ragnar AK 26 samhliða öðrum störfum.

Þorsteinn var virkur í félagsstörfum. Hann var í Karlakórnum Svönum og síðar í Grundartangakórnum. Var virkur í Leikfélagi Akraness og Skagaleikflokknum. Ferill Þorsteins í stjórnmálum var bæði fyrir Samtök frjálslyndra og vinstri manna og Framsóknarflokkinn. Þorsteinn sat í hafnarstjórn og var sitjandi formaður í átta ár. Hann var á árum áður meðlimur í Björgunarsveitinni Hjálpinni á Akranesi og sinnti þar mörgum krefjandi verkefnum. Þorsteinn var mikill áhugamaður um bridds.

Útför Þorsteins fer fram frá Akraneskirkju í dag, 19. ágúst 2022, klukkan 14.

„Ert þetta þú Bökka mín?“ hljómuðu gjarnan upphafsorð pabba þegar ég hringdi eða kom óvænt í heimsókn upp á Skaga. Gleðin í þessari hljómmiklu rödd leyndi sér ekki. Hún mun lifa áfram í hjarta mínu.

Pabbi var ótal kostum búinn. Hann var einstaklega næmur á náttúruna. Tók okkur fjölskylduna með í laxveiði þegar við vorum ung og seinna upp á heiðar í silungsveiði. Hann miðlaði til okkar nöfnum á íslenskum jurtum, hvernig mátti nýta þær og innrætti okkur að bera virðingu fyrir náttúrunni. Hann var einstaklega fróður um staðhætti og örnefni landsins og var duglegur að koma þeirri þekkingu til afkomenda. Oft fylgdu með sögur hvernig nöfnin urðu til og stundum slæddist með staka eða jafnvel kvæði um tiltekna atburði í Íslandssögunni sem höfðu átt sér stað á þeim slóðum sem við ferðuðumst á.

Pabbi var „alfræðiorðabók“ fjölskyldunnar. Eftir að við systkinin uxum úr grasi héldum við áfram að fara með pabba upp á heiðar, þá gjarnan Arnarvatnsheiði eða Skagaheiði. Ein af eftirminnilegustu ferðunum var ferð okkar í Reykjavatn. Hann þurfti ekkert kort eða leiðsögutæki til að rata. Það var bara keyrt yfir hraun, ár, sléttur og slóða þar til áfangastað var náð oft eftir drjúgan tíma og hrakninga. Við veiddum á sumarnóttum. Þá var veður stillt, flugan lögst til hvílu, sól að hverfa bak við sjóndeildarhringinn og náttúran skartaði sínu fegursta. Þá tókum við gjarnan lagið svo ómaði í jöklum og fjöllum enda pabbi söngmaður mikill og stjórnaði söngnum af mikill innlifun. Síðasta ferð okkar saman var sumarið 2020.

Pabbi hafði sterkar skoðanir á málefnum landsins og fylgdist vel með líðandi stund. Hann gat skipt skapi snöggt ef honum mislíkaði eitthvað í pólitíkinni og var ekki þekktur fyrir að vera hliðhollur sjálfstæðisöflunum. Þegar dótturdóttir hans fór í framboð sem oddviti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórnarkosningunum á Akranesi í vor greip hann til samlíkingar úr passíusálmum Hallgríms Péturssonar: „Þetta sem helst nú varast vann / varð þó að koma yfir hann.“ Þannig var líf okkar í hnotskurn; hann miðlaði til okkar sögunni og við meðtókum.

Pabbi var mikil félagsvera, fannst gaman að lífinu og orti stökur og kvæði. Tók lagið á góðri stund og reif okkur systur upp í dans ef þannig bar undir. Hann var ekki þekktur fyrir fínhreyfingar, smitaði frá sér gleði og ærslaskap svo hlegið var dátt og haft gaman af.

Eftir að ég flutti norður dvaldi hann stundum hjá okkur eins og þau höfðu bæði gert áður en mamma dó. Þá var farið í kæfugerð og hann kom með sína einstöku rabarbarasultu sem margir nutu góðs af. Hann var lunkinn í matargerð og hafði gaman af því að prófa sig áfram og brydda upp á nýjungum. Þegar við vorum lítil tók hann sig stundum til í eldhúsinu, henti einhverju á pönnu og við fylgdumst spennt með. Svo lagði hann hátíðlega á borð og alltaf hétu réttirnir það sama: „Gjörið þið svo vel; a la járnbrautarslys!“

Elsku pabbi, ég ætla hafa lokaorðin til þín þau sömu og síðustu orð þín voru til mín: „Takk fyrir allt.“

Þín dóttir,

Björk.

Ég hef átt stórkostlegt líf og yfirgef þennan heim sáttur við guð og menn! Á þessa leið endaði eitt samtal okkar pabba af mörgum í sumar. Hann var stoltur af lífi sínu, börnum og afkomendum. Pabbi var af gömlu kynslóðinni, algjör nagli, drifinn áfram af hugrekki og seiglu. Við eigum að fagna þessu dýrmæta lífi sagði hann, njóta þess, ekki síst þegar lífið hefur líka boðið upp á erfiðleika og sorgir bætti hann við. Pabbi elskaði lífið, það var bara þannig.

Oft komst pabbi minn í hann krappan en lukkudísirnar héldu ætíð verndarhendi yfir honum. Hann gat verið fljótfær, líka úrræðagóður og til eru margar einstakar sögur af honum. Hann var sterki góði kletturinn minn sem alltaf var hægt að reiða sig á.

Ég á ótal dásamlegar minningar af pabba. Eftir mikla umhugsun eru það ferðirnar með honum og fjölskyldunni upp á Arnarvatnsheiði sem standa upp úr. Vötnin eins og speglar, logandi jökullinn, lengst uppi á heiði, náttúran í sinni fallegustu mynd, kyrrðin, róin og gleðin. Svo var alltaf sungið landinu til heiðurs. Pabbi hafði fallega rödd, hann söng svo einstaklega vel og með tilfinningu „Réttarvatn“, ljóð eftir Jónas Hallgrímsson, mitt uppáhaldsskáld. Pabbi elskaði náttúruna, landið, vötnin og hafið, veraldleg auðæfi skiptu síður máli. Oft var bras í ófærð uppi á heiði og alls kyns vandamál komu upp, en áskorunin var pabba að skapi og alltaf komu allir heilir heim, undirvagninn á bílnum kannski tjónaður og nýjar beyglur á bílnum en það var aukaatriði.

Pabbi var vel lesinn og fróður maður. Hann var mikill viskubrunnur og það kom mér alltaf á óvart hvað hann var minnugur og sá hlutina frá mörgum sjónarhornum. Mundi ljóðabálkana sem hann lærði í barnæsku, ljóðin og vísurnar sem hann hafði ort eða heyrt, örnefni, þjóðsögur, löngu liðin samtöl eða bækur sem hann hafði lesið og svo mætti lengi telja. Ekki furða þótt hann hafi oft verið kallaður Wikipedia af fjölskyldunni. Það var gaman að ræða hlutina við pabba og oft teygðust málefnin í allar áttir og nýjar víddir komu út úr þessum pælingum. Hann var ekki bara pabbi minn heldur einnig trúnaðarvinur sem gott var að ræða við um allt milli himins og jarðar.

85 ára afmælið var haldið með stæl á Tene í okt. sl. Yndisleg samvera með pabba og systkinahópnum. Auðvitað var spilað bridds og síðasti samningurinn sem ég spilaði gegn honum voru sex spaðar, doblaðir og redoblaðir, sem hann rúllaði upp að sjálfsögðu! Þannig var hans líf, áskorun var honum að skapi.

Ég kvaddi pabba minn í lifanda lífi, grét hjá honum og gladdist, gat sagt hve mikils virði hann var mér, þakkaði honum lífið, leiðsögnina og samfylgdina. Í dag fögnum við lífinu eins og hann óskaði þegar ljóst var í hvað stefndi.

Fyrir stuttu fann ég fallegt ástarljóð til mömmu frá pabba. Finnst það svo táknrænt. Þau eru nú sameinuð eftir sex ára hlé, ég trúi að nú ríki eintóm hamingja hjá þeim.

Góða ferð pabbi minn. Við hittumst svo í sumarlandinu, veiðum, spilum, spjöllum og hlæjum saman. Knús til ykkar mömmu frá lúsalöppinni ykkar.

Elín Ragna Þorsteinsdóttir.

Mig langar að minnast föður míns. Hann ólst upp við þröngan kost og átti að ég tel þann draum að ganga menntaveginn. Örlögin gripu í taumana og leiddu hann til góðra verka. Hann gerðist farkennari ungur að árum í Vík í Mýrdal, hóf sjómennsku ungur að árum og lærði blikksmíði ásamt ýmsu fleiru. Pabbi unni náttúrunni og þekkti flestar íslenskar jurtir með nafni, þegar við ferðuðumst um landið þekkti hann flest kennileiti og gat farið með heilu kvæðabálkana og sögur um Ísland. Hann fór oft með frægar setningar úr fornsögum og við gátum hlegið svo mikið að hans hnyttnu tilsvörum sem voru dregin upp úr gömlum kvæðum eða sögum. Ef mann rak í vörðurnar með eitthvað í skólagöngunni var farið til pabba og hann gat ausið úr skálum viskunnar.

Pabbi var líka mikill framfarasinni, þegar farið er í gegnum gömul skjöl og pappíra í hans fórum kennir ýmissa grasa. Hann var einn af forsprökkum þeirra sem vildu bæta vegasamgöngur á Vesturlandi, skrifaði harðorð bréf til ráðamanna á þeim tíma eða upp úr 1970, vildi almennilegar úrbætur – göng eða brú – það dugði ekkert minna yfir Hvalfjörðinn. Hann var einn þeirra sem höfðu veg og vanda af að Akraborgin hóf siglingar milli Reykjavíkur og Akraness á sínum tíma. Þegar hann var orðinn sem veikastur gat hann enn látið í ljós skoðanir sínar um þessi mál og önnur sem honum fannst vanta úrbætur á, hann missti aldrei móðinn.

Það var töggur í pabba, þegar ég var barn og óveður geisuðu var hann fyrstur út til að hjálpa öðrum, gera við brotnar rúður og hreinsa upp brak. Þá var ég hrædd um hann, sem betur fer átti hann sín níu líf og nýtti þau vel. Lenti í mörgum hrakförum og komst nær óskaddaður frá þeim í mörgum tilfellum, þessar hrakfarasögur leiddu hann til viðtals í Kastljósi fyrir mörgum árum.

Það verður að minnast ferðalaganna okkar saman, veiðiferðanna á Arnarvatnsheiði og Skagaheiði, þessar ferðir eru mér ógleymanlegar. Í seinni tíð bættust barnabörnin við og þá kynntust þau afa sínum í sínu rétta umhverfi. Hann elskaði að syngja, skála og ferðast. Þá er stutt síðan hann var með okkur fjölskyldunni í sólinni á Tenerife, spilaði bridge og naut lífsins eins og honum var einum lagið.

Elsku pabbi – ég var svo sannfærð um að við ættum einhver góð ár í viðbót saman en veikindin drógu úr þér allan mátt í vor. Það var óendanlega sárt en samt svo dýrmætt að þú gast kvatt mig nær daglega í margar vikur með fallegum orðum og hlýju faðmlagi. Þú vissir svo vel hvaða stefna hafði verið tekin, þú kallaðir þetta ferðalag helförina þína og ákvaðst að setja ekki hart í bak heldur rífa seglin upp og taka þínum örlögum. Seiglan var ótrúleg og æðruleysið algjört – þú áttir gott líf og varst sáttur við guð og menn.

Ég kveð þig elsku pabbi í hinsta sinn, það er dýrmætt að eiga góða foreldra og ekki síður að eiga stóran systkinahóp. Það mótar mann og þroskar og fyrir það er ég þér og mömmu ævinlega þakklát.

Góða ferð.

Þín

Lilja.

Í dag kveðjum við ástkæran bróður minn Þorstein, sem lést hinn 27. júlí sl. Ég ætla ekki að rekja æviferil hans hér, þar eru aðrir til þess hæfari, en mig langar að minnast hans með örfáum orðum.

Þar sem 11 ár aðskildu okkur í aldri þá eru minningar mínar nokkuð brotakenndar framan af, þar sem hann var fjarverandi í námi á vetrum og kom þá aðeins heim í fríum og á sumrin! Þorsteinn var góður bróðir, sterkur persónuleiki og skemmtilegur sögumaður og þótti mér fátt skemmtilegra en að hlusta á frásagnir af svaðilförum hans og ævintýrum, sem hann án efa „skreytti“ til áhrifsauka! Þeir Reynir bróðir voru líka samhentir til vinnu og gaman að heyra þá syngja dúett við mjaltirnar! Þeir áttu það líka til að takast á í bændaglímu og Þorsteinn, sem var kappsfullur og áræðinn, var ekki alltaf sáttur við að stóri bróðir ynni hann í fótafiminni! Eftir skólagöngu var Þorsteinn nokkur ár í siglingum og er mér minnisstætt hversu flottar, vandaðar og nýstárlegar jólagjafir við systurnar fengum!

Einnig man ég eftir ófáum spennandi unglingabókum frá honum, sem gengu áfram til minna afkomenda! Ef svo bar við að hann var erlendis einhver jólin sendi hann risapakka með alls kyns góðgæti, sem við höfðum aldrei bragðað!

Einn veturinn tók Þorsteinn að sér barnakennslu í fjarveru föður okkar, sem jafnan hafði hana með höndum heima á Höfðabrekku, fyrir börn „austan heiðar“!

Þennan vetur voru sjö skráðir nemendur. Þorsteinn breytti til og kenndi þá ýmist heima á Höfðabrekku, eða í Fagradal, þar sem einnig voru þrjár systur á skólaaldri, en að auki ein stúlka frá Kerlingardal. Þótti okkur þetta mikil tilbreyting og ekki verra að fá nýtt leiksvæði og jafnvel stundum lengri frímínútur!

Eftir að Þorsteinn hóf búskap með Ernu sinni og þau settust að á Akranesi strjáluðust heimsóknirnar í sveitina.

Þau komu þó stundum um helgar og ef svo bar við að dansleikur væri í sveitinni létu þau stundum tilleiðast og fóru með okkur systrunum á ball! Þorsteinn var flottur dansherra og þótti mér, þá 14-15 ára skottunni, ekki leiðinlegt að fá smá athygli, þar sem við svifum um gólfið!

Eftir að við Gummi hófum búskap í Reykjavík hittumst við oftar og heimsóknir urðu tíðari. Við skemmtum okkur stundum saman í Reykjavík, eða þau buðu okkur á viðburði á Skaganum!

Einnig héldum við sameiginlega fermingarveislu ásamt Vallý systur, en við eigum öll börn fædd sama ár.

Söngurinn skipaði stóran sess í lífi Þorsteins og var hann í nokkrum kórum, en þó lengst af í Grundartangakórnum, þar sem hann vann síðustu áratugina sem yfirmaður rykhreinsivirkis. Einnig tók hann þátt í starfi leikfélagsins á Akranesi.

Þorsteinn og Erna voru höfðingjar heim að sækja, svo að ég tali nú ekki um stórafmælin þeirra sem voru allt í senn; kórtónleikar, matarveislur og dúndrandi dansleikir fram á nótt! Elsku bróðir! Hjartans þakkir fyrir allt! Við Gummi vottum öllum börnum þínum og þeirra fjölskyldum innilega samúð! Guð blessi minningu þína og gefi að þú eigir góða heimkomu.

Þín systir,

Ína Sóley Ragnarsdóttir.

Í dag verður til moldar borinn Þorsteinn Ragnarsson, en hann var eini bróðir minn. Við vissum báðir í hvað stefndi og fengum því tíma til að rifja upp ýmis spaugileg atvik frá æskuárunum. Ég var níu ára og Þorsteinn sex þegar foreldrar okkar fluttu frá Reykjavík og hófu búskap á Höfðabrekku í Mýrdal. Strax þá þurftum við að taka þátt í lífsbaráttunni og almennum bústörfum sem börn í sveit þurftu að vinna. Ég held að faðir okkar hafi haft lúmskt gaman af þegar við spreyttum okkur á ýmsu sem við töldum okkur geta gert. Móðir mín treysti okkur einnig, sagði aðeins við mig „þú gætir bróður þíns“.

Eitt sinn gerðist það að vinnuhestur strauk í áttina að heimahögum og Bergur í Steinum náði honum þegar hann fór þar um hlað. Þorsteinn sótti fast að fá að sækja hestinn, þá einungis sjö eða átta ára. Þorsteinn fór með mjólkurbílnum eldsnemma að morgni með nesti, hnakk og beisli. Bergur í Steinum sagði mér síðar að sér hefði fundist knapinn nokkuð ungur og kotroskinn og var í vafa um hvort hann réði við hestinn. Heim komst Þorsteinn með hestinn, yfir 50 km leið, þótt hann yrði að stoppa við brúsapallinn við Pétursey til þess að komast á bak aftur eftir að hafa borðað nestið.

Við bræður sóttum það fast fyrir slátt árið 1947, ég 13 ára og Þorsteinn 11 ára, að fá að fara einir í útilegu inn í Höfðabrekkuafrétt í þrjá daga. Við fengum leyfið ef við sýndum föður okkar að við gætum synt yfir tjörn nokkra sem var í svokölluðum Höfðabrekkujökli og létum við ekki segja okkur það tvisvar. Við höfðum ákveðið að sofa í gangnamannahellinum í Þakgili og einungis lifa af landsins gæðum. Faðir okkar ákvað að koma með hesta að þremur dögum liðnum og sækja okkur. Matseldin varð heldur lítil. Við sáum aðeins smásíli í ánni og gæsaungarnir sem við hugðumst veiða til matar voru svo litlir að við nutum þess eins að horfa á þá. Við tíndum fjallagrös og ákváðum að gera okkur fjallagrasagraut. Við fylltum pottinn af fjallagrösum og vatni og settum yfir prímusinn. Þetta reyndist kolrammt og límkennt. Matseldin endaði með því að potturinn varð ónýtur með svartri leðju sem ómögulegt var að ná úr. Við gerðum okkur hins vegar te úr blóðbergi og ljónslöpp og borðuðum brauð sem móðir okkar hafði þó laumað í farangurinn. Dagarnir fóru í leit að nýjum hellum í Þakgili. Einn hellinn sem við fundum nefndum við Sönghelli eftir að hafa þanið þar raddböndin, en báðir höfðum við gaman af söng og hefur það loðað við okkur alla tíð. Við skárum út fangamörk okkar í hellinn sem við sváfum í og eru þau vitnisburður um dvöl okkar þar. Hellirinn er nú útskorinn af fangamörkum og ártölum. Faðir okkar sótti okkur á tilsettum tíma og þóttumst við hafa gert frægðarför mikla.

Ég votta börnum og barnabörnum Þorsteins samúð mína. Það er gott að eiga góðar minningar um góðan dreng að loknu ævistarfi. Gjarnan vil ég fá tækifæri til þess að segja börnum og barnabörnum bróður míns frá mörgum skemmtilegum atvikum sem við bræður áttum saman í æsku og ekki er pláss fyrir í lítilli minningargrein.

Reynir Ragnarsson.

Minn kæri bróðir, Þorsteinn Ragnarsson, er látinn. Hann kvaddi 27. júlí sl. á Hjúkrunarheimilinu Höfða á Akranesi. Þangað flutti hann í maí, eftir stutta dvöl á Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Hann bjó og starfaði mestan hluta ævi sinnar á Akranesi. Hann lærði ungur blikksmíði og vann meðal annars við það. Síðar vann hann við Skagaprjón og tók þátt í rekstri þess og hannaði vinsæl mynstur sem eru enn við lýði. Síðast var hann yfirmaður við Reykvirki á Grundartanga til margra ára. Þorsteinn var vinmargur og félagslyndur og tók þátt í fjölmörgum félagsstörfum á Skaganum. Var í Karlakórnum Svönum auk Grundartangakórsins, starfaði í Leikfélagi Akraness og var í stjórn Búmanna, formaður björgunarsveitarinnar og auk þess var hann í bæjarstjórn Akraness um tíma. Þorsteinn bróðir var góður bróðir, faðir, afi og eiginmaður en Erna kona hans lést fyrir sex árum.

Þorsteinn var að mestu leyti farinn að heiman þegar ég man eftir mér en kom heim í fríum og tók þátt í bústörfunum. Það var alltaf tilhlökkunarefni þegar von var á Þorsteini bróður heim. Hann var gamansamur og ljúfur og oft færði hann okkur systrum ávexti, leikföng eða ævintýrabækur sem við lásum upp til agna. Hann fór ungur til sjós, bæði á fiski- og millilandaskip, oft ráðinn í ábyrgðarstöður enda bæði duglegur og samviskusamur. Margar góðar minningar á ég um Þorstein. Man ég þegar hann og Reynir bróðir sungu oft dúett við mjaltirnar. Reynir söng tenórinn en Þorsteinn bassann. Heyrðist söngurinn vel inn í bæ og fannst mér hann hljóma vel. Seinna þegar ég fór í framhaldsskóla til Reykjavíkur sendi hann mér fyrstu gallabuxurnar sem ég eignaðist og nýmóðins peysu, mér til mikillar gleði, því ég þótti víst heldur sveitó í heimasaumuðu fötunum mínum.

Einn vetur, þegar pabbi lenti í bílveltu og slasaðist, kom Þorsteinn heim og tók við barnakennslu fyrir austan heiði eins og kallað var. Kenndi hann okkur systrum og systrunum frá Fagradal og Kerlingardal. Okkur þótti hann hinn ágætasti kennari og sérstaklega fannst mér hann gefa okkur lengri frímínútur, sem voru nýttar til útileikja. En á þessu tímabili sem hann var við kennslu fórst báturinn Illugi sem hann hafði verið á. Seinna kom hann oft í heimsókn með Ernu sína og fjölskyldu hennar áður en þau eignuðust börnin, var þá oft glatt á hjalla því Þorsteinn var góður sögumaður. Fengum við systur þá stundum að fara með þeim á böll í sveitinni þegar við höfðum aldur til. Reyndi hann þá að kenna okkur að dansa og þótti okkur ekki leiðinlegt að dansa við myndarlegasta herrann á ballinu.

Í síðustu heimsókn minni til Þorsteins bróður á hjúkrunarheimilið Höfða sagði hann mér að sér fyndist hann hafa átt góða ævi og kveddi lífið sáttur. Stoltastur sagðist hann vera af afkomendum sínum, sem væri orðinn stór hópur af mannvænlegu og duglegu fólki. Ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur til hinna yndislegu barna, tengdabarna og barnabarna hans og bið Guð að blessa minningu hans.

Salome (Sallý) systir.

Hann bróðir minn sýslaði margt á langri ævi. Fjölskyldan flutti að Höfðabrekku í Mýrdal, ég var fjórða ári en Þorsteinn því sjöunda. Býlið var afskekkt og því engir leikfélagar í næsta nágrenni. Eldri bróðir okkar, Reynir, þá níu ára, var því leikfélagi í forgangi en litla systir var samt gjaldgeng. Þorsteinn átti forláta skútu, hún var líklega um 50 cm á lengd, úr gulum málmi og seglum prýdd. Nú var engin Reykjavíkurtjörn til að sigla á. Við sátum og ræddum um áhöfnina sem bjó neðan þilja, hún sat þar við borð og spilaði, borðaði dýrindis mat eða ræddi saman. Hugsanlega talaði hún framandi tungumál. Þá lá beinast við að taka skútuna í sundur og komast í kynni við áhöfnina!

Það vantaði aldrei hugmyndaflugið hjá okkur. Við fundum patrónur, ca 5 cm, tóm skothylki, þær fengu nýtt hlutverk, voru fluttar á heimasmíðuðum bílum sem mjólkurbrúsar sem settir voru á þar til gerða brúsapalla. Vegakerfið var listilega lagt um hæðir og hóla í moldarbarði. Bæjarlækurinn var stíflaður að hluta og þar gerðar hafnir. Bátar sigldu á milli, hlaðnir varningi. Stundum brustu stíflur og hafnir eyðilögðust. Var þá grunur uppi um skemmdarverk.

Verst þótti mér þegar Þorsteinn byrjaði í skóla, þá fór hann til Reykjavíkur. Haustin voru því sorgartími, bræðurnir hurfu líkt og haustlömbin. Í jólafríum komu bræðurnir heim. Þá var gaman! Húsið angaði af eplum, sem aðeins voru til á jólum. Við Þorsteinn vorum b-fólk. Drolluðum á kvöldin og lásum fram á nótt. Skiptumst á að lesa jólabækurnar, hittumst í búrinu þar sem við nældum okkur í smákökur og mjólkurglas. Bæjarlækurinn, sem átti að sjá heimilinu fyrir rafmagni, átti til að stíflast, þá fór ljósið, jafnvel þó að bókin væri ekki fulllesin! Gott var að hafa vasaljós við höndina, stundum var hægt að notast við ljósið frá tunglinu. Það var mikið haft fyrir því að halda rafmagninu gangandi, margar ferðir niður fyrir hamrana til að stilla vatnsinntakið á túrbínunni eftir rennslinu í læknum. Þessar tilfæringar þurfti að gera í hvaða veðri sem var, óháð árstíðum.

Sumrin liðu fljótt, mikið unnið. Alltaf voru krakkar í sveit á Höfðabrekku, flest tengd eða skyld fjölskyldunni. En mikið gaman, ekki síst ef huggulegar ungar stúlkur voru í kaupavinnu, mátti þá sjá „glampa“ í augum bræðranna!

Þorsteinn fór til sjós, var á veiðiskipum og síðar á kaupskipum. Kom hann þá oft færandi hendi. Eitt sinn kom hann með bleikan prjónakjól frá Ameríku. Það var mikil uppáhaldsflík. Um tíma voru fjölskyldur okkar Þorsteins að svamla í laxveiðiám á Vesturlandi. Var oft glatt á hjalla í veiðihúsum, krakkaskari mikill og fjörugur. Karlarnir veiddu laxinn og konurnar reyndu að sjá til þess að krakkarnir sulluðu ekki í ánni. Að kvöldi var glösum lyft og drukkinn „hreppstjórakokteill“. Það var alltaf gaman að heimsækja Þorstein og Ernu á Skagann og ófáar veislur setnar. Fermingar, brúðkaup og afmæli gáfu tilefni til samveru.

Elsku bróðir minn, nú ertu farinn í þessa ferð, ég er þess viss að við sjáumst þegar þar að kemur.

Ást og friður.

Valdís Ragnarsdóttir.