Náttúran er einstaklega falleg á Íslandi og svo má finna í henni alls konar góðgæti sem getur virkað vel á ónæmiskerfið. Anna Rósa tínir á þessum árstíma ber sem hún borðar svo yfir veturinn.
Náttúran er einstaklega falleg á Íslandi og svo má finna í henni alls konar góðgæti sem getur virkað vel á ónæmiskerfið. Anna Rósa tínir á þessum árstíma ber sem hún borðar svo yfir veturinn. — Ljósmynd/Colourbox
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Anna Rósa grasalæknir er með ástríðu fyrir öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur. Hún segir viðhorf til grasalækninga hafa breyst mjög mikið með árunum og nú sé í tísku að nota náttúrulegar leiðir til lækninga og heilsueflingar. Elínrós Líndal | elinros@mbl.is

Það voraði einstaklega snemma og sumarið er búið að vera gott þannig að ég er að mestu búin að tína allar jurtir fyrir veturinn. Núna bíð ég eftir að komast í ber því ég veit fátt betra en að borða ber daglega og þarf því að tína heilmikið til að eiga nóg allan ársins hring. Svo er ég líka að framleiða krem og leggja lokahönd á nýjasta námskeiðið mitt um íslenskar lækningajurtir,“ segir Anna Rósa aðspurð hvernig sumarið sé búið að vera hjá henni.

Hvað getur þú sagt okkur um menntun þína og starfsreynslu?

„Ég hef starfað sem grasalæknir síðustu þrjá áratugi og rekið mína eigin ráðgjöf megnið af þeim tíma. Síðustu 13 árin hef ég einnig framleitt snyrtivörur úr jurtum ásamt tinktúrum og tei sem fást í vefverslun og búðum. Ég stundaði nám í grasalækningum í fjögur ár í Bretlandi en ég er einnig með diplómu í nuddi og gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Rekjavík.

Ég er meðlimur í félagi breskra grasalækninga, sem er elsta félag grasalækna í heiminum, stofnað 1894,“ segir hún.

Finnur fyrir breyttu viðhorfi

Spurð hvernig sé að búa á Íslandi fyrir fagfólk eins og hana segir hún það gott núorðið.

„Það hefur orðið gjörbreyting á viðhorfi fólks frá því ég lauk námi en þá þótti ég meiriháttar skrýtin. Núna er það sem ég geri hins vegar frekar í tísku en öfugt og ég fæ mun jákvæðara viðhorf hjá flestum.“

Ísland þykir einstaklega góður staður að búa hvað viðkemur jurtum sen vaxa villt.

„Það er enginn skortur á spennandi jurtum hér. Ég vinn mest með íslenskar jurtir sem ég tíni sjálf en svo er ég alltaf eitthvað með erlendar jurtir sem ég flyt inn sjálf. Ég er svo heppin að megnið af erlendu jurtunum sem ég þarf að kaupa er ræktað af vinafólki mínu sem er með pínulítinn lífrænan búgarð í Bandaríkjunum og því get ég algjörlega treyst því að gæðin séu 100%,“ segir Anna Rósa.

Með námskeið um íslenskar lækningajurtir

Hvernig námskeið hefurðu verið að halda?

„Ég hef í áratugi kennt námskeið um íslenskar lækningajurtir, bæði hérlendis og eins í Bandaríkjunum, Bretlandi og Kanada. Ég hef líka oft kennt námskeið um hvernig á að búa til smyrsl og svo hef ég stundum haldið kryddnámskeið og hvernig á að búa til hóstasíróp. Að auki hélt ég í mörg ár mjög vinsælt námskeið um mataræði þar sem ég kenndi þær aðferðir sem ég nota fyrir skjólstæðinga í ráðgjöfinni hjá mér. Að lokum hef ég margoft haldið vinsælar grasagöngur þar sem ég fer með hópa í göngutúra og sýni þeim jurtir og hvernig á að meðhöndla þær.“

Hvernig hafa námskeiðin þróast með árunum og hvernig verða þau í vetur?

„Í 25 ár hélt ég kvöldnámskeið um íslenskar lækningajurtir nokkrum sinnum á ári. Svo kom að því fyrir nokkrum árum að ég hætti að halda námskeið því ég hafði í svo mörg horn að líta. Síðan þá hef ég fengið endalausar fyrirspurnir um hvenær ég haldi næsta námskeið. Ég ákvað því að koma til móts við þennan mikla áhuga og búa til netnámskeið um íslenskar lækningajurtir. Það verður miklu ítarlegra en gömlu kvöldnámskeiðin en ég verð með myndbönd og glærur um 14 helstu lækningajurtirnar sem ég tíni og nota ásamt fullt af uppskriftum. Það verða líka sérstakir bónusar og ítarefni þannig að ég held að það sé óhætt að segja að þú munir læra allt sem þú þarft að vita til að tína jurtirnar og búa til úr þeim te og tinktúrur fyrir algenga kvilla eins og til dæmis bólgur, flensu, meltingarkvilla og bjúg,“ segir hún.

Gerir vinsælan bóluhreinsi úr jurtum

Geturðu gefið okkur uppskrift að einhverju góðu til að efla ónæmiskerfið fyrir veturinn?

„Það get ég svo sannarlega en íslensku jurtirnar eru einmitt sérstaklega góðar til að efla ónæmiskerfið. Hérna kemur uppskrift að tei úr íslenskum jurtum til að styrkja ónæmiskerfið.

Jurtate til að styrkja ónæmiskerfið

2 msk vallhumall

1 msk mjaðjurt

1 msk hvannarfræ

Jurtirnar eru settar í 750 ml eða 1 l hitabrúsa og sjóðandi vatni hellt yfir. Síið jurtirnar frá þegar hellt er í bolla en setjið þær svo aftur í hitabrúsann og látið liggja í allan daginn. Drekkið hitabrúsa á dag.“

Hvað um snyrtivörur unnar úr því sem finnst í náttúrunni?

„Ég hef síðustu 13 ár framleitt snyrtivörur og bóluhreinsi úr jurtum þar sem ég bæði tíni jurtirnar sjálf og hræri öll krem í höndunum. Ég legg áherslu á að nota lífræn hágæðahráefni og nota engin óholl efni í mínar húðvörur en eiturefni í húðvörum eru svo algeng að það er nauðsynlegt að vera meðvitaður um þau. Það er hins vegar engin þörf á að nota þessi eiturefni í húðvörur ef þú veist hvað þú ert að gera þegar þú býrð þær til og ef þú ert tilbúin til að borga fyrir meiri gæði sem ég geri hiklaust. Bóluhreinsirinn minn, sem er eingöngu úr jurtum og án allra rotvarnarefna, hefur sýnt sig og sannað og ég held það sé óhætt að segja að hann sé vinsælasti bóluhreinsirinn á Íslandi,“ segir hún.

Anna Rósa er á því að mataræði skipti mjög miklu máli í sambandi við bólgur í líkamanum.

„Bólgur eru oft undirrót margs konar krónískra sjúkdóma. Ég hef sem dæmi séð mataræði skipta heilmiklu máli hjá fólki með gigt, sykursýki, öndunafærissjúkdóma, magavandamál og kvíða svo eitthvað sé nefnt.“

Piparmynta í uppáhaldi þessa dagana

Anna Rósa gefur ekki upp þá staði þar sem hún tínir jurtir.

„Enda er það alltaf á einkalóðum þar sem ég er með sérstök leyfi til að tína. En ég get til dæmis bent á nánast allt Suðurlandið ef þú vilt tína mjaðjurt og loðvíði. Þessar jurtir vaxa í stórum breiðum sem dæmi í Árnessýslu og Rangárvallasýslu og því ætti ekki að vera mikið mál að banka upp á hjá bændum og fá leyfi til að tína þær.“

Anna Rósa notar kremin sín á hverjum degi og gæti ekki verið án þeirra.

„Ég er með viðkæma húð og þoli alls ekki kemísk ilmefni þannig að ég þróaði kremin fyrir sjálfa mig á sínum tíma en líka fyrir skjólstæðinga með húðsjúkdóma.

Ég drekk líka töluvert magn af jurtatei daglega. Aðallega vegna þess að mér finnst þau bragðgóð en líka sem forvörn gegn sjúkdómum. Íslenskur vallhumall og piparmynta eru sem dæmi í uppáhaldi þessa dagana. Svo tek ég líka alltaf lífrænt Lion‘s mane-sveppaduft á hverjum degi því það er frábært sem forvörn gegn stressi og kvíða og til að styrkja ónæmiskerfið og meltinguna.“

Mælir með að borða ber daglega

Anna Rósa er ekki í nokkrum vafa um að náttúran getur aðstoðað okkur við að eldast með reisn.

„Rannsóknir hafa sem dæmi sýnt að góð tenging við náttúruna daglega, sem dæmi með göngutúrum, eflir bæði líkama og sál.

Hollt mataræði og þá sér í lagi mikið af grænmeti, berjum, fræjum og hnetum dregur úr bólgum í líkama en bólgur geta valdið alls kyns krónískum sjúkdómum. Margar jurtir og sveppir innihalda mikið af efnum sem geta dregið úr bólgum og öldrunartengdum sjúkdómum og þannig hjálpað okkur að eldast vel.“

Fyrir hverju ættum við að hafa augun opin í görðunum okkar?

„Burnirót er gömul íslensk lækningajurt sem vex gjarnan í görðum en ég kenni einmitt á námskeiðinu hvernig hægt er að búa til tinktúru úr burnirót. Hún er mjög vinsæl til að efla andlega heilsu og mikið notuð gegn orkuleysi og kvíða. Eins mæli ég sérstaklega með því að nýta ber, hvort sem þau eru í görðum eins og rifsber eða úti á víðavangi. Ber eru alveg einstaklega holl og sneisafull af vítamínum og andoxunarefnum og ég mæli með því að borða þau daglega.“

Lærir sjálf á því að kenna

Önnu Rósu hefur alltaf fundist gaman að kenna og lærir oft heilmikið af því sjálf. Þótt hún hafi ómælda trú á því að fara út í náttúruna og læra þannig hefur hún áhuga á alnetinu sem tæki til að læra í gegnum.

„Það er ekki nokkur spurning að netið mun skipta öllu máli hjá mér í framtíðinni. Það er miklu þægilegra að fá myndbönd af mér að kenna um jurtirnar sem þú getur horft á hvenær sem þú vilt en að koma í eina kvöldstund og hlusta á mig. Það er líka meira lifandi að hlusta á myndbönd en að lesa bækur og svo verður þar að auki beinn aðgangur að mér til að spyrja spurninga í sérstakri námskeiðsgrúppu. Ég stefni á að gera netnámskeið úr öllum námskeiðunum sem ég hef kennt frá upphafi.“