Baksvið
Baldur Arnarson
Þóroddur Bjarnason
Rúmt ár er liðið síðan veitingastaðurinn Flatey pizza opnaði útibú í mathöllinni Mjólkurbúinu á Selfossi. Sigurvin Ellert Jensson, rekstrarstjóri fyrirtækisins, segir viðskiptin í Mjólkurbúinu hafa glæðst í sumar.
„Ferðamönnum fer fjölgandi og svo hafa heimamenn og sumarbústaðafólk tekið við sér. Helgarnar eru mjög góðar en virku dagarnir eru misjafnir eins og í bænum,“ segir Sigurvin Ellert. Flatey er jafnframt með pítsustaði á Grandagarði og Hlemmi í Reykjavík og á Garðatorgi í Garðabæ.
Biðröð eftir pítsum
Þegar Morgunblaðið kom við í Mjólkurbúinu á Selfossi var biðröð við pítsustað Flateyjar. Þar var jafnframt auglýst eftir pítsubakara og starfsfólki í afgreiðslu.
Sigurvin Ellert segir aðspurður það hafa verið rétta ákvörðun að opna veitingastað í Mjólkurbúinu.
Það sé enda meðal helstu áfangastaða ferðamanna og heimamanna.
Flatey sækir í hefðir frá Napólí í pítsugerðinni eins og fjallað hefur verið um í Morgunblaðinu. Áhersla er lögð á að sósan, deigið og osturinn séu upp á tíu, en notað er súrdeig í botninn.
Einfaldleikinn ræður ríkjum
Eins og Haukur Már Gestsson, einn stofnenda fyrirtækisins, lýsti í samtali við Morgunblaðið á sínum tíma þá ræður einfaldleikinn ríkjum þannig að annað álegg en tómatsósan er sparlega notað. Sagði hann að margarítan gæfi pítsum með áleggi þannig ekkert eftir.
Opnuðu Neó á Hafnartorgi
Flatey hefur einnig opnað pítsustaðinn Neó í Hafnartorgi Gallery, nýrri mathöll á Hafnartorgi við Geirsgötu í Reykjavík. Þar eru alls ellefu veitingastaðir og verslanir til húsa.
Sigurvin Ellert segir að á Neó verði seldar öðruvísi pítsur en Flatey bjóði upp á, eða svokallaðar New York-pítsur. „Þær eru með lengri bökunartíma. Deigið er öðruvísi sem gefur „sveittari“ og stökkari pítsu.“
Spurður um af hverju ákveðið var að fara af stað með nýja hugmyndafræði í Hafnartorgi Gallery segir hann það hafa verið hugmynd eigenda Flateyjar, að prófa nýja leið.
Opna í Kringlunni í október
Spurður um frekari vöxt félagsins segir Sigurvin Ellert að Flatey opni pítsustað í nýrri mathöll sem verið er að undirbúa í Kringlunni. „Það er stefnt að opnun í október.“
Tapaði á síðasta ári
Reykjavík Napolí, félagið sem rekur Flatey, tapaði tæpri einni milljón króna á síðasta ári samanborið við 23 mkr. hagnað 2020. Tekjur félagsins árið 2021 voru 483 m.kr. en höfðu verið 398 m.kr. árið á undan.
Flatbökur
» Flatey sækir í pítsuhefðina sem kennd er við Napólí.» Súrdeig gert á staðnum og látið þroskast í sólarhring.
» Pítsa bökuð við 500°C hita.
» Eigendur eru Brynjar Guðjónsson (23%), Haukur Már Gestsson (23%), JDD% ehf. (23%), SSJ13 ehf. (23%) og Herðubreið eignarhaldsfélag ehf. (8%)