Ný nöfn Stöðugt fjölgar nöfnum sem færð eru á mannanafnaskrána.
Ný nöfn Stöðugt fjölgar nöfnum sem færð eru á mannanafnaskrána. — Morgunblaðið/Ófeigur
Mannanafnanefnd hefur samþykkt að setja á annan tug eiginnafna á mannanafnaskrá, þar af átta kvennöfn, sex karlmannsnöfn og eitt kynhlutlaust. Nefndin hafnaði hins vegar umsókn um eitt millinafn.

Mannanafnanefnd hefur samþykkt að setja á annan tug eiginnafna á mannanafnaskrá, þar af átta kvennöfn, sex karlmannsnöfn og eitt kynhlutlaust. Nefndin hafnaði hins vegar umsókn um eitt millinafn.

Samkvæmt úrskurðum nefndarinnar verða kvenmannsnöfnin Myríam, Menja, Lárentína, Emelí, Heró, Gunna, Ílena og Hind færð á mannanafnaskrá og karlmannsnöfnin Marþór, Týri, Salvadór, Iðar, Sigurhörður og Marino. Nafnið Snæfrost verður fært á skrá yfir kynhlutlaus nöfn.

Mannanafnanefndin hafnaði hins vegar millinafninu Irisar á þeirri forsendu að það væri ekki dregið af íslenskum orðstofni og uppfyllti því ekki lagaákvæði. Umsækjandinn óskaði eftir að nafnið yrði allt að einu samþykkt á grundvelli lagagreinar þar sem segir að millinafn sé heimilt þegar svo stendur á að eitthvert alsystkini þess sem bera á nafnið, foreldri, afi eða amma beri eða hafi borið nafnið sem millinafn. Nefndin sagði hins vegar að umsækjandinn óskaði ekki eftir að fá nafn móður sinnar samþykkt sem millinafn, eða kenninafn svo sem hún ætti rétt á, heldur óskaði hún þess að kenna sig við móður sína en stafsetja nafn móður á annan máta. Ekki væru skilyrði fyrir því í mannanafnalögum.