Oddviti Framsóknar er kominn í þá sérkennilegu stöðu að verja skortstefnu Samfylkingar í leikskólamálum

Í gær voru kynntar „lausnir“ á leikskólavandanum í Reykjavík, sem meirihluti Samfylkingarinnar mátti ekki heyra minnst á fyrir kosningar og vildi ekki játa að væri til eftir kosningar fyrr en margsviknir foreldrar mótmæltu í Ráðhúsinu. „Lausnirnar“ felast mikið til í Ævintýraborgum, sem er nýja nafn keisarans á því sem við hin köllum gámaskúra.

Gangi allt eins og í lygasögu, sem þrátt fyrir allt er alls ekki víst, er þó engra nýrra leikskólaplássa að vænta fyrr en seint í haust og afgangsins vonandi á næsta ári. Þau munu samt ekki hrökkva til þess að leysa aðsteðjandi vanda og raunar mun ástandið að óbreyttu versna allt þetta kjörtímabil, því börnunum heldur áfram að fjölga.

Leikskólamál í Reykjavík hafa verið í ólestri árum saman, þó öll þau ár hafi öðru verið lofað og alltaf víst rétt handan við hornið að öll börn komist að. Alveg þannig að börnum var jafnvel úthlutað plássum korter í kosningar í vor, plássum sem ekki voru til og borgaryfirvöldum var fullkunnugt um að yrðu ekki til.

Það er með ólíkindum að þessi mál leysist aldrei. Enn frekar þó þegar horft er til þess að félagshyggjuflokkarnir, sem myndað hafa borgarstjórnarmeirihluta undir forystu Dags í rúm tólf ár, hafa alla tíð haft dagvistarmál í fyrirrúmi í sínum málflutningi. Í orði, en ekki á borði.

Á það var bent fyrir kosningar að áætlanir Dags um leikskólapláss stæðust enga skoðun eða mannfjöldaspár, en því var vísað á bug eins og staðreyndir skiptu engu. Kannski þær skipti Dag engu máli, en þær skipta máli fyrir börnin og foreldra þeirra. Börnin verða af þeirri umönnun og menntun, sem þeim hefur verið heitið, en fyrir foreldra bætist vinnu- og tekjutap í boði borgarstjóra ofan á aðrar kjaraskerðingar barnafjölskyldna á dögum verðbólgu og vaxtahækkana.

Ekki stafa vanefndirnar þó af fjárskorti, því borgarstjóri hefur hvað eftir annað fullvissað kjósendur um tryggan fjárhag borgarinnar. Eins og ætti raunar að blasa við af því að aldrei skortir fé til kaupa á heimsins dýrustu puntstráum eða pálmatrjám, milljarðana tíu til að borgin eignist eigið hugbúnaðarhús, að ekki sé minnst á tugmilljarðana, hið minnsta, sem nota á til þess að leysa umferðarvanda Reykjavíkur með því að þrengja að umferð.

En þegar aldrei gengur að leysa vandann, ár eftir ár og kjörtímabil eftir kjörtímabil, þá verður því ekki trúað að því valdi linnulaus mistök, óheppni og ytri aðstæður; enginn er slíkur hrakfallabálkur. Stefna Dags öll þessi ár er greinilega sú að bjóða ekki næg leikskólapláss, að viðhalda skorti.

Þetta er einstakt pólitískt ábyrgðarleysi, sem best sést af því að þegar vandræðin kraumuðu upp á yfirborðið brá borgarstjóri sér skyndilega í frí og einhver aumingja embættismaður endalaust látinn svara fyrir þetta pólitíska hneyksli.

Framan af var borgarstjóralærlingurinn Einar Þorsteinsson jafnósýnilegur og borgarstjórinn í þessum vandræðum öllum en á þriðjudag birtist hann sem „staðgengill borgarstjóra“ og sagði allra leiða leitað til að „vinna úr leikskólavandanum“. Í gær kom hinn ákaflega rýri og fánýti afrakstur, sem felst aðallega í því að gera viðlagagáma varanlega og kynna gömul áform sem ný.

En það sem kannski var merkilegast í orðum Einars var hvernig hann var kominn í þá skrýtnu aðstöðu að verja skortstefnu Samfylkingarinnar í leikskólamálum, gera hana að sinni, og bera í bætifláka fyrir stöðuna, sem hann og Framsóknarflokkurinn báru þó ljóslega ekki ábyrgð á. Það gera þeir nú.

Það eru ekki nema þrír mánuðir frá borgarstjórnarkosningum, þar sem Einar Þorsteinsson bauð sig fram beinlínis til þess að koma á breytingum í borgarstjórn. Þrátt fyrir að meirihluti Samfylkingarinnar væri felldur, aðrar kosningarnar í röð, tókst Degi að halda borgarstjórastólnum með því að næla sér í varadekk Framsóknar, rétt eins og hann fann varadekk Viðreisnar fjórum árum áður.

Þá meirihlutamyndun gagnstætt augljósum vilja kjósenda, ekki síst kjósenda Framsóknar, gagnrýndu margir, sérstaklega þó í ljósi þess að engar kosningaáherslur Framsóknar náðu fram að ganga í málefnasamningi meirihlutans aðrar en hálfur metnaður oddvitans. En það er átakanlegt að ekki líði nema tíu vikur frá myndun meirihlutans, þar til Einar er opinberlega kominn í nákvæmlega sömu meðvirkni og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir á liðnu kjörtímabili, önnum kafinn við að verja fyrri meirihluta sem þau áttu ekki hlut að, afsaka fyrra klúður og kosningasvik borgarstjórans, sem lætur ekki svo lítið að sýna sig, enda á hann sjálfsagt erfitt með að horfa í augu foreldra.

„Það viðrar vel til breytinga í Reykjavík,“ sagði Einar Þorsteinsson á kjördag í vor og bætti við að besta leið kjósenda til að ná fram breytingum í borgarstjórn væri að kjósa Framsókn. Eina breytingin er sú að nú eru ævintýraborgarstjórarnir tveir.