Dropi Robert Habeck segir það hafa sáralítil áhrif á jarðgasnotkun Þýskalands að loka síðustu kjarnorkuverunum samkvæmt áætlun.
Dropi Robert Habeck segir það hafa sáralítil áhrif á jarðgasnotkun Þýskalands að loka síðustu kjarnorkuverunum samkvæmt áætlun. — AFP
Robert Habeck efnahagsmálaráðherra Þýskalands telur enga ástæðu til að hverfa frá fyrirhugaðri lokun síðustu þriggja kjarnorkuvera landsins.

Robert Habeck efnahagsmálaráðherra Þýskalands telur enga ástæðu til að hverfa frá fyrirhugaðri lokun síðustu þriggja kjarnorkuvera landsins. Stjórnvöld í Þýskalandi hafa um árabil unnið að því að draga úr notkun kjarnorku í landinu en í kjölfar slyssins í Fúkúsíma árið 2011 ákvað ríkisstjórn Angelu Merkel að loka átta kjarnorkuverum án tafar og að öll kjarnorkuver landsins myndu hætta starfsemi eigi síðar en í árslok 2022.

Á fundi með almenningi sem haldinn var á sunnudag var Habeck spurður hvort ekki mæti fresta lokun síðustu orkuveranna í ljósi yfirvofandi orkukreppu í Þýskalandi, en landið sér fram á skort á jarðgasi og verðhækkanir á orkumarkaði vegna raskana á innflutningi jarðefnaeldsneytis frá Rússlandi.

Á fundinum sagði Habeck að lítill ávinningur væri af að halda kjarnorkuverunum þremur opnum og það myndi aðeins spara sem nemur 2% af jarðgasnotkun Þýskalands. Að sögn Reuters telur Habeck þó koma til greina að fresta lokun Isarkjarnorkuversins í Bæjaralandi ef álagsprófun leiðir í ljós að raforkuframleiðsla þess sé nauðsynleg fyrir stöðugleika raforkukerfisins á svæðinu og fyrir orkuframboð yfir vetrarmánuðina. Standa mælingar yfir og ættu útreikningar að liggja fyrir á komandi vikum. ai@mbl.is