Í tilefni af því að lögreglan gerði 100 kg af kókaíni upptæk nú á dögunum sagði íslenskur kókaínsali: „Það er alltaf nóg til af dópi.“
Áfengisbannið í byrjun 20. aldar (bannárin fyrri) hafði ýmsar afleiðingar og sumir byrjuðu þegar að hasla sér völl í sprúttsölu. Glæpaforingjar, t.d. í Bandaríkjunum, urðu stórauðugir, glæpum fjölgaði og þeir urðu heiftarlegri en fyrr. Áfengisbanninu var að lokum aflétt, en ýmsar glæpaklíkur sem höfðu orðið til í skjóli áfengisbannsins og komið sér vel fyrir í þjóðfélaginu voru komnar til að vera. Eina varanlega afleiðingin af bannárunum fyrri var því uppgangur glæpasamtaka, eða mafíósa. Um hálfri öld eftir upphaf bannáranna fyrri í Bandaríkjunum skullu bannárin síðari á. Standa þau enn yfir með mun hrikalegri afleiðingum og uppgangi glæpagengja víðs vegar um heiminn. Upphaf bannáranna síðari eru dæmi um það hvernig heiftúðugur og valdamikill einstaklingur getur eyðilagt tilveru stórra hópa fólks með því, í þessu tilfelli, að skilgreina fólk, sem notar tiltekin hugbreytandi efni, sem lögbrjóta og glæpamenn. Í þessu tilfelli voru hugbreytandi efnin maríjúana og heróín, ekki áfengi. Hér fara á eftir brot úr lýsingu bandaríska blaðamannsins Jamila Hodge (júlí, 2021):
„Árið 1971 lýsti Nixon Bandaríkjaforseti yfir stríði gegn fíkniefnum og fimmtíu árum síðar eru Bandaríkin enn að súpa seyðið af þessari illa grunduðu ákvörðun. Á okkar tímum handtekur lögreglan fleiri en 1,5 milljónir einstaklinga vegna fíkniefna á hverju ári og um 550.000 þeirra eru eingöngu vegna kannabisbrota ... Hlutfall fíkniefnaneyslu og -sölu er svipað á milli kynþátta og þjóðernis, en svart fólk og fólk frá rómönsku Ameríku er mun líklegra en hvítt fólk til að vera stöðvað, handtekið, sakfellt, harðlega dæmt og sett á sakaskrá ævilangt. Víðtækar afleiðingar fíkniefnalagabrots takmarkast ekki við tilgangslausa fangelsun: Fólki með lágar tekjur er neitað um matarmiða og opinbera aðstoð vegna fyrri fíkniefnadóma; ríki, þar á meðal Texas og Flórída, svipta fólk ökuskírteinum fyrir fíkniefnabrot sem eru með öllu ótengd akstri. Fjölmargar aðrar reglur neita fólki á sakaskrá um forsjá barna, atkvæðisrétt, atvinnu, lán og fjárhagsaðstoð. En flestir bandarískir kjósendur eru nú reiðubúnir til að hverfa frá þessari stefnu. Ný skoðanakönnun American Civil Liberties Union sýnir að 65 prósent kjósenda styðja það að bundinn sé endi á stríðið gegn fíkniefnum ...“
John Ehrlichman, helsti aðstoðarmaður Nixons, sagði í viðtali árið 1994, sem birt var árið 2016, að stríðið gegn eiturlyfjum hefði verið hannað til að miða á svart fólk og „hippa“:
„Frá 1968 átti Nixon tvo höfuðandstæðinga: vinstrisinnaða stríðsandstæðinga og blökkumenn. Skilurðu hvað ég er að segja? Við vissum að við gætum ekki gert það ólöglegt að vera annað hvort á móti stríðinu eða vera svartur, en með því að fá almenning til að tengja hippana við marijúana og svarta við heróín, og setja við hvoru tveggja þung viðurlög, gætum við laskað þessi samfélög verulega. Við gætum handtekið leiðtoga þeirra, ráðist inn á heimili þeirra, rofið fundi þeirra og rægt þá án afláts í kvöldfréttum. Vissum við að við værum að ljúga um lyfin? Auðvitað gerðum við það.“
Refsigleðin er líka umtalsverð hér á landi: Meira en fjórðungur fanga hér á landi situr inni fyrir fíkniefnabrot sem er nálægt því að vera Evrópumet. Ekki eru reyndar allir jafn hrifnir af þessari herferð bannáranna síðari hér á landi:
„Þörfin fyrir vímu hefur fylgt mannfólkinu eiginlega frá örófi alda ... Við höfum þann hátt á núna, að einn vímugjafi, áfengi, er hinn löglegi vímugjafi. Aðrir vímugjafar eru gerðir glæpsamlegir og þeir sem leiðast út í neyslu þeirra stíga skref inn í einhverja veröld neðanjarðar sem lög og réttur ná ekki til ... Við eigum að bjóða þeim sem ánetjast þessu læknismeðferð og hjálpa þeim, í stað þess að dæma þau í fangelsi,“ segir Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari.
Áætlun Nixons setti Bandaríkin inn á refsibraut sem hefur valdið mikilli eymd. Gríðarmiklir skattpeningar hafa farið í súginn. En hlutirnir eru að byrja að breytast til batnaðar. Sum ríki í Bandaríkjunum hafa til að mynda afglæpavætt kannabis. Og á síðari árum hefur þungavigtarfólk hafið herferð gegn bannárunum síðari, til að mynda Javier Solana, Kofi Annan og George Schultz en þeir sömdu ásamt öðrum skýrslu árið 2011 þar sem segir meðal annars: „Hið alþjóðlega stríð gegn eiturlyfjum hefur misheppnast með hrikalegum afleiðingum fyrir fólk og samfélög um gjörvalla veröld.“
En kannski er of seint að vinda ofan af þessu bákni, bannárunum síðari, því sennilega hafa fjölmargir hagsmuni af óbreyttu ástandi; lögfræðingar, eigendur og starfsfólk fangelsa o.fl. Eða, eins og haft er eftir Árna Magnússyni prófessor og handritasafnara: „Svona gengur það til í heiminum að sumir hjálpa erroribus í gang og aðrir leitast síðan við að útryðja aftur þeim sömu erroribus. Hafa svo hvorir tveggja nokkuð að iðja.“
Höfundur er BS í líffræði.