Sigur Valskonurnar Arna Sif Ásgrímsdóttir og Anna Rakel Pétursdóttir fagna í sumar en þær voru báðar í stóru hlutverki hjá Valsliðinu í Radenci.
Sigur Valskonurnar Arna Sif Ásgrímsdóttir og Anna Rakel Pétursdóttir fagna í sumar en þær voru báðar í stóru hlutverki hjá Valsliðinu í Radenci. — Morgunblaðið/Eggert
Meistaradeild Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Valur er kominn áfram í 2. umferð Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu eftir öruggan sigur gegn Shelbourne frá Írlandi í úrslitaleik 1. umferðarinnar í Radenci í Slóveníu í gær.

Meistaradeild

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Valur er kominn áfram í 2. umferð Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu eftir öruggan sigur gegn Shelbourne frá Írlandi í úrslitaleik 1. umferðarinnar í Radenci í Slóveníu í gær.

Leiknum lauk með 3:0-sigri Vals en Cyera Hintzen, Sólveig Jóhannesdóttir Larsen og Elísa Viðarsdóttir skoruðu mörk Valskvenna í leiknum.

„Ég er ótrúlega sátt með frammistöðuna og úrslitin,“ sagði Arna Sif Ásgrímsdóttir varnarmaður Vals í samtali við Morgunblaðið.

„Við vorum búnar að fara mjög vel yfir írska liðið og vissum upp á hár hvar þeirra veikleikar lágu. Þær byrjuðu leikinn af krafti og við vorum aðeins tæpar þessar fyrstu mínútur. Við unnum okkur svo vel inn í leikinn og þegar við náðum stjórn á honum var þetta í raun aldrei spurning hvorum megin úrslitin myndu detta.

Við vissum það fyrir fram að þetta yrði alvöruslagur sem það reyndist svo vera. Ég held að þær hafi fengið fimm eða sex gul spjöld í leiknum sem segir manni bara að þetta var alvörubarátta strax frá fyrstu mínútu. Markmiðið í þessu verkefni var alltaf að komast áfram í næstu umferð þannig að við erum mjög kátar með úrslitin,“ sagði Arna Sif.

Valur, sem er ríkjandi Íslandsmeistari, er með fjögurra stiga forskot á Breiðablik á toppi Bestu deildarinnar og þá mætast liðin í úrslitaleik bikarkeppninnar um næstu helgi.

„Við ætlum okkur lengra í Meistaradeildinni og svo er auðvitað bikarúrslitaleikur fram undan, sem og deildin heima þar sem við ætlum okkur stóra hluti. Það eru því stórir leikir fram undan sem er akkúrat ástæðan fyrir því að maður er í þessu,“ bætti Arna Sif við í samtali við Morgunblaðið.

Dregið verður í 2. umferð Meistaradeildarinnar hinn 1. september í höfuðstöðvum UEFA í Sviss en leiknir verða tveir leikir í annarri umferðinni, heima og að heiman, 20. eða 21. september og svo 28. eða 29. september.

Það lið sem vinnur einvígið tryggir sér svo sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar þar sem leikið verður í október, nóvember og desember en dregið verður í riðlakeppnina 3. október.

Íslendingaliðin unnu öll

Sara Björk Gunnarsdóttir var allt í öllu hjá Juventus þegar liðið vann 3:1-sigur gegn Kiryat Gat frá Ísrael í Tórínó á Ítalíu í úrslitaleik og tryggði sér þar með sæti í 2. umferðinni. Sara Björk lék allan leikinn með Juventus og lagði upp tvö fyrstu mörk ítalska liðsins.

Norsku Íslendingaliðin Brann og Rosenborg eru einnig komin áfram í 2. umferð keppninnar en Selma Sól Magnúsdóttir lék allan leikinn með Rosenborg þegar liðið vann 1:0-sigur gegn Minsk í Þrándheimi í Noregi.

Svava Rós Guðmundsdóttir svo kom inn á sem varamaður á 66. mínútu hjá Brann þegar liðið vann öruggan 3:1-sigur gegn Subotica í úrslitaleik í Subotica í Serbíu.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir sat allan tímann á varamannabekk Brann en hún er að jafna sig á meiðslum.

Þá hafnaði Breiðablik í 3. sæti síns riðils eftir öruggan 3:0-sigur gegn Slovácko frá Tékklandi í Þrándheimi í Noregi þar sem Helena Ósk Hálfdánardóttir skoraði þrennu fyrir Blika.

Amanda Andradóttir var svo á skotskónum fyrir Kristianstad frá Svíþjóð þegar liðið vann 3:2-sigur gegn Fortuna Hjörring frá Danmörku í framlengdum leik um 3. sætið í Hjörring í Danmörku.

Emilía Óskarsdóttir kom inn á sem varamaður hjá Kristianstad á 68. mínútu en Elísabet Gunnarsdóttir þjálfar liðið.