Sómalía Lögreglumaður bendir við hótelið í miðju umsátrinu.
Sómalía Lögreglumaður bendir við hótelið í miðju umsátrinu. — AFP
Heilbrigðisráðuneytið í Sómalíu staðfesti í gær að minnst 21 hefði fallið og 117 særst í árás og umsátri Al-Shabaab-hryðjuverkahópsins á Hayat-hótelið í Mogadishu.

Heilbrigðisráðuneytið í Sómalíu staðfesti í gær að minnst 21 hefði fallið og 117 særst í árás og umsátri Al-Shabaab-hryðjuverkahópsins á Hayat-hótelið í Mogadishu.

Hótelið varð fyrir miklum skemmdum í árásinni, sem hófst á föstudagskvöldið þegar sjálfsvígssprengjumaður réðst á inngang hótelsins. Gerðu þá hryðjuverkamenn úr Al-Shabaab-hópnum áhlaup á hótelið með skotvopnum, en lögreglulið borgarinnar sendi þegar í stað vopnað lið til hótelsins. Tók við umsátur, sem stóð yfir í um 30 klukkutíma, eða allt þar til síðasti hryðjuverkamaðurinn var felldur.

Hluti hótelsins hrundi eftir árásina og var óttast að fólk væri grafið undir rústunum. Öryggissveitir og björgunarlið fóru í gær yfir rústir hótelsins, og leituðu þar bæði að eftirlifendum og mögulegum gildrum sem hryðjuverkamennirnir kynnu að hafa skilið eftir í hótelinu.

Abdi Hassan Mohamed Hijar, lögreglustjóri í Mogadishu, sagði í gær að mestallt mannfallið hefði orðið á fyrstu stigum árásarinnar, og að tekist hefði að bjarga 106 manns meðan á umsátrinu stóð. Sagði Hijar að öryggissveitir hefðu þá farið á milli herbergja til að reyna að bjarga gestum hótelsins.

Hassan Sheikh Mohamud forseti Sómalíu tók við embætti í júní síðastliðnum, og er þetta stærsta árásin sem gerð hefur verið frá valdatöku hans. Mohamud hefur á stefnuskrá sinni að bæla niður uppreisn Al-Shabaab-hópsins, en hún hefur staðið yfir í fimmtán ár.

Hópurinn er sagður tengdur Al Kaída-hryðjuverkasamtökunum, og hafa bandamenn sómalskra stjórnvalda, þar á meðal Bandaríkin, Bretland og Tyrkland, fordæmt árásina. Bandaríkjaher felldi fyrr í mánuðinum 13 vígamenn samtakanna í loftárás.