Vettvangur Lögregla girti af húsið og lóðina á Blönduósi þar sem voðaverkin í gærmorgun voru framin, en aðkoman var skelfileg og rannsóknin erfið.
Vettvangur Lögregla girti af húsið og lóðina á Blönduósi þar sem voðaverkin í gærmorgun voru framin, en aðkoman var skelfileg og rannsóknin erfið. — Morgunblaðið/Hákon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Andrés Magnússon andres@mbl.is Líkt og oft eftir voðaverk varð umræða um löggæslu og hvernig tryggja mætti öryggi borgaranna betur áberandi á félagsmiðlum. Þar var m.a.

Baksvið

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Líkt og oft eftir voðaverk varð umræða um löggæslu og hvernig tryggja mætti öryggi borgaranna betur áberandi á félagsmiðlum. Þar var m.a. spurt hvernig á því stæði að maður sem hefði verið staðinn að því að hóta fólki með skotvopni og verið lagður inn á geðdeild hefði gengið þaðan út, orðið sér úti um annað skotvopn og látið til skarar skríða.

Það á vafalaust eftir að koma betur í ljós á næstu dögum, en það er ekki svo að stjórnvöld hafi engin tæki til þess að hneppa í gæslu fólk, sem óttast er að geti valdið sjálfu sér eða öðrum tjóni.

Meðalhófið er nauðsynlegt

Þar þarf hins vegar að stíga varlega til jarðar, það má ekki vera of auðvelt að svipta fólk frelsi sínu vegna einhvers sem það hefur ekki gert. Hafi það í hótunum og veifi vopnum er hins vegar komin góð ástæða til þess að grípa inn í. „Ef við ætlum að játa læknum eða lögregluþjónum vald til þess að loka fólk inni bak við rimla vegna þess að þeim líst ekki á það, þá er ekki víst að okkur þyki þær ákvarðanir jafnásættanlegar,“ sagði lögmaður með mikla reynslu á þessu sviði í samtali við Morgunblaðið.

Þar þyrftu bæði að vera mörk og mótvægi, en í lögræðislögum væru ýmsar heimildir til þess að „taka úr umferð“ fólk, en ávallt háð ákvörðun dómara. Þar dygði ekki til að fólk væri skrýtið eða kenjótt, það þyrfti beinlínis að vera viti sínu fjær til þess að það væri vistað gegn vilja sínum, sjálfu sér og öðrum til verndar.

Hér ræðir þó ekki aðeins um lögfræðilegt álitaefni, því innan heilbrigðiskerfisins eru einnig skiptar skoðanir um nauðungarvistanir. Þar getur aðsteðjandi hætta verið mismikil eftir sjúkdómum, en svo geta einnig verið praktískari vandamál eins og rými á geðdeildum. Þar geta læknar verið ófúsir til þess að taka við nauðungarvistuðu fólki, sem engan áhuga hefur á því að þiggja læknishjálp, er ósamstarfsfúst, neitar lyfjagjöf og þar fram eftir götum, meðan það getur verið biðlisti af fólki, sem vill komast á geðdeild og leita sér hjálpar. Læknarnir segi með nokkrum rétti að á sjúkrahúsum eigi lækningar að ganga fyrir vistun, sem snúi fremur að öryggi en heilbrigðisþjónustu.

Önnur úrræði

Þá vaknar spurningin hvort menn vilji athuga sérstök úrræði fyrir fólk í þeirri stöðu. Á réttargeðdeildum er vistað veikt fólk sem hefur brotið af sér með einhverjum hætti en þykir ekki sakhæft. Ekki er víst að mönnum þætti það í góðu samræmi við almenn mannréttindi, að þar væri um óákveðinn tíma vistað fólk sem ekki hefði gert nokkrum manni mein, en óttast væri að gæti gert það vegna þess að það á við geðræna kvilla að etja. Slíkt yrði aldrei tekið í mál um annað fólk.

Auðvitað er það svo í félagslega kerfinu, heilbrigðiskerfinu og réttarkerfinu, að þar vilja menn gera hlutina rétt og vel, og ekki ganga fram af meiri hörku en bráðnauðsynlegt telst. Um það ríkir sá almenni skilningur að ekki megi loka fólk inni að nauðsynjalausu og ekki án réttrar málsmeðferðar og mögulegs málskots.

Hins vegar má vel spyrja um þolinmæði almennings ef sú skoðun verður almenn að öryggi borgaranna sé ekki nógsamlega tryggt. Fyrir því eru ýmis dæmi í öðrum löndum, þar sem borgararnir freistast til þess að taka til eigin ráða.

Á því er ævinlega hætta ef ríkisvaldið gefur frá sér valdið til þess að gæta öryggis borgaranna eða vanrækir það. Og einmitt þess vegna er nauðsynlegt að þessi mál verði tekin til kostanna í góðu jafnvægi, þrátt fyrir að tilefnið sé hörmungarmál sem ríkar tilfinningar vekur.

Þjóðin beðin um stuðning

• Yfirlýsing frá sveitarstjórninni Guðmundur Haukur Jakobsson, forseti sveitarstjórnar Húnabyggðar, ávarpaði fjölmiðla á Blönduósi í gær, óskaði eftir tillitssemi þeirra og bað þjóðina að standa með íbúum þar á erfiðum tímum. Yfirlýsing sveitarstjórnarinnar fer hér á eftir:

„Íbúar svæðisins eru harmi slegnir og við erum ennþá að vinna úr því að þetta hafi raunverulega gerst.

Hugur allra íbúa Húnabyggðar er hjá þeim látnu, hlutaðeigandi og aðstandendum þeirra sem tengjast þessum hræðilega atburði. Samfélagið er í einhvers konar áfalli og allir eru að reyna að ná utan um þessa atburði og þær tilfinningar sem þeim fylgja. Í litlu samfélagi eins og okkar eru allir kunningjar, vinir og/eða ættingjar og atburður sem þessi ristir samfélagið djúpt.

Lokaður upplýsingafundur lögreglunnar og annarra viðbragðsaðila fyrir íbúa svæðisins verður haldinn í Félagsheimilinu á Blönduósi klukkan 20.00. Að þeim fundi loknum verður boðið upp á sálrænan stuðning og samveru í Blönduóskirkju.

Sveitarstjórn beinir þeirri ósk til fjölmiðla að sýna því skilning að samfélagið er í sárum og þarf svigrúm til að vinna með þær sterku tilfinningar sem fylgja svona áfalli. Rétt er að árétta að allar tæknilegar upplýsingar um málsatvik eru á borði lögreglunnar sem sér um upplýsingagjöf vegna málsins.

Við biðlum til landsmanna allra að standa með okkur á þessum erfiðu tímum, við erum brotin og þiggjum alla þá góðu strauma sem þið getið veitt okkur. Eins óskum við þess að þið hugsið vel til þeirra sem þessum atburði tengjast. Það eru dökk ský yfir okkur núna en með ykkar hjálp komumst við í gegnum þetta saman.

Við leggjum áherslu á við alla sem eiga um sárt að binda að Rauði krossinn á Íslandi sinnir fjöldahjálp og félagslegu hjálparstarfi og sími þeirra, 1717, er opinn allan sólarhringinn.“

Sorg yfir bænum

• Hljóðlátur sunnudagur að baki á Blönduósi • Víða mátti sjá fána dreginn í hálfa stöng Inga Þóra Pálsdóttir

skrifar frá Blönduósi

Sorg hvílir yfir Blönduósi eftir þá voveiflegu atburði sem áttu sér stað á sunnudagsmorgun. Málið hefur fengið mjög á íbúana og ljóst að þeir eru harmi slegnir.

Afar hljóðlátt hefur verið í bænum og margir bæjarbúar hafa sjáanlega verið í áfalli.

Lögregla og sveitarstjórnin í Húnabyggð stóðu fyrir upplýsingafundi fyrir íbúa Blönduóss í félagsheimili bæjarins í gærkvöldi, en íbúarnir telja um eitt þúsund manns. Fjöldi þeirra mætti á fundinn.

Að honum loknum var bæjarbúum boðinn sálrænn stuðningur í Blönduóskirkju. Streymdi fólk í kirkjuna í veðurblíðunni sem annars einkenndi daginn, og voru margir hverjir með tárin í augunum.

Til vitnis um harminn sem slegið hefur íbúa bæjarins klökknaði Guðmundur Haukur Jakobsson forseti sveitarstjórnar er hann flutti yfirlýsingu stjórnarinnar fyrir þá fjölmiðlamenn sem viðstaddir voru. Atburður á borð við þennan ristir djúpt í samfélaginu.

Annað einkenndi þennan óvenjulega sunnudag á Blönduósi og það var sá fjöldi fána sem dreginn hafði verið í hálfa stöng. Nær hvert sem litið var mátti sjá þetta sígilda tákn um samhygð náungans.