Logi Sigurðarson
logis@mbl.is
Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, segir í samtali við Morgunblaðið að sjúkrahúsið geti tekið á móti fleiri læknanemum í grunnnámi ef stofnunin og Háskóli Íslands ráðist í skipulagsbreytingar og samræmi betur tímabil starfsnáms læknanema.
„Þetta er eins með hjúkrunarnema, ef það væru einhverjar skipulagsbreytingar mögulegar þá værum við alveg tilbúin að horfa á það líka. Við reynum að nýta öll tækifæri sem við getum en þetta hangir á því hvaða sérfræðinga við höfum í boði til þess að taka á móti læknanemum. Við viljum geta veitt þeim góð tækifæri,“ segir Hildigunnur.
„Sumrin eru erfið til þess að taka á móti mörgu nýju fólki en eflaust væri það hægt. Það þyrfti bara að skoða allar hliðar, bæði út frá skipulagi háskólans og okkar skipulagi. Ég er alveg viss um að við getum átt þær samræður ef það er stóra vandamálið. Mín tilfinning er sú að með skipulagssamræðum væri hægt að koma fleirum fyrir.“
Getur ekki samþykkt fjölgun
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sagði á dögunum að ráðuneytið gæti ekki samþykkt fjölgun læknanema fyrr en Landspítalinn hefði tök á að taka á móti þeim og því gæti fjölgun nema á sjúkrahúsi Akureyrar gert ráðuneytinu kleift að samþykkja fjölgun læknanema, en nú eru um 60 nemar teknir inn árlega.
Mannekla hefur verið viðvarandi á Landspítalanum um hríð og forstjóri spítalans hefur sagst óttast að hann fari í þrot.
Fjármagn þurfi að fylgja
Steinunn Þórðardóttir formaður Læknafélagsins sagði fyrir helgi að fjölga þyrfti læknanemum og að hún vildi sjá að minnsta kosti 90 nema á ári. Einnig sagði hún að meira þyrfti að gera til þess að fá lækna í sérnámi erlendis til að snúa aftur heim. Það þyrfti að fjármagna heilbrigðiskerfið betur til þess að bæta starfsumhverfið og bjóða sérfræðilæknum upp á ásættanleg kjör.
Hildigunnur segir að læknum sem stundi sérnám á Íslandi hafi fjölgað ört en fjármagn til þess að styðja við þá hafi ekki fylgt.
„Til að við getum tekið við fleiri slíkum nemum þarf að fylgja fjármagn, því við þurfum að borga þessu fólki laun. Þetta er það sem ég er alltaf að tala um í ráðuneytinu. Það er líka grunnurinn sem Landspítalinn er að tala um. Við verðum að taka þátt í þessu verkefni á landsvísu, en þetta hefur verið þungur baggi á okkur fjárhagslega.“
Hildigunnur tekur fram að sjúkrahúsið á Akureyri gleymist oft í umræðunni en stofnunin tekur á móti fjölda læknanema allan ársins hring sem og hjúkrunarfræðinemum.
„Við erum hluti af þessu kerfi, það er bara svo oft sem það er bara talað um Landspítalann. Við tökum mikinn þátt í þessari starfsþjálfun á landsvísu og það skiptir okkur gríðarlega miklu máli að við séum með í þessu verkefni,“ segir hún og bendir á að sjúkrahúsið sé með að lágmarki tíu lækna á kandídatsárinu sínu á ári. „Við gegnum gríðarlega miklu hlutverki sem kennslusjúkrahús og það skiptir miklu máli að við séum þátttakendur í þessu, annars fáum við ekki þetta fólk til okkar í framtíðinni heldur.“