Ingunn Finnbogadóttir fæddist í Mosfellssveit 14. apríl 1929. Hún lést á Hrafnistu við Laugarás í Reykjavík 1. ágúst 2022.
Foreldrar Ingunnar voru Finnbogi Helgason, f. 7. maí 1901, d. 11. júlí 2010, og Ingibjörg Bjarnadóttir, f. 23. ágúst 1901, d. 1. júní 1979. Systkini Ingunnar eru Soffía, f. 20. desember 1930, d. 25. júní 2019, og Aðalheiður, f. 24. mars 1936, sem lifir systur sínar. Fyrir áttu systurnar hálfbróður, Braga Friðriksson, f. 15. mars 1927, d. 27. maí 2010.
Ingunn giftist Ásbirni Sigurjónssyni, f. 26. mars 1926, d. 7. júlí 1985, en þau eignuðust einn son, Sigurjón, f. 21. júní 1954. Eiginkona Sigurjóns er Ingibjörg Sigurðardóttir, f. 15. desember 1955. Þau eiga tvo syni, Ásbjörn, f. 24. október 1990, og Egil Örn, f. 20. desember 1994.
Ingunn naut uppvaxtarára sinna á Sólvöllum í Mosfellssveit þar sem hún ásamt systrum sínum ólst upp við gott atlæti og vinnusemi.
Að lokinni skólaskyldu í Brúarlandsskóla hóf Ingunn nám við Verslunarskóla Íslands og síðar Húsmæðraskóla Reykjavíkur.
Ingunn var á sínum yngri árum virk í íþróttum og spilaði meðal annars handbolta með kvennaliði Ungmennafélagsins Aftureldingar í Mosfellssveit.
Eftir að hafa gengið í hjónaband fluttist Ingunn að Álafossi í Mosfellssveit þar sem hún bjó ásamt eiginmanni sínum, þá forstjóra Álafoss hf., allt til æviloka. Þau hjón reistu sér fallegt einbýlishús með fögru útsýni yfir sveitina, sem þau prýddu með umfangsmikilli skógrækt sem setti mark sitt á umhverfi staðarins.
Auk virkrar þátttöku í félagsmálum lét Ingunn ýmis framfaramál í sveitarfélaginu sig varða, þar á meðal umhverfisvernd þar sem hún starfaði sem fulltrúi í umhverfis- og náttúruverndarnefnd Mosfellssveitar um árabil.
Er aðkomu Ásbjörns eiginmanns Ingunnar og fjölskyldu að rekstri Álafossverksmiðjunnar lauk réð Ingunn sig við Sundlaugina á Varmá þar sem hún starfaði sem sundlaugarvörður allt til þess að hún lét af störfum sökum aldurs.
Síðustu tvö árin bjó Ingunn á Hrafnistu við Laugarás í Reykjavík.
Útför Ingunnar fer fram frá Lágafellskirkju í dag, 23. ágúst 2022, kl. 14.
Ljúfar voru stundir,
er áttum við saman.
Þakka ber drottni,
allt það var gaman.
Skiljast nú leiðir,
og farinn ert þú.
Við hittast munum aftur,
það er mín trú.
Hvíl þú í friði,
í ljósinu bjarta.
Ég kveð þig að sinni,
af öllu mínu hjarta.
Þið eruð einstök, og Ingunni til mikils sóma.
Með kærri kveðju,
Júlíana
Grímsdóttir.