Védís Elsa Kristjánsdóttir fæddist 23. ágúst 1942 á Búðum á Snæfellsnesi, þar sem foreldrar hennar byggðu hús og bjuggu til 1948. Þau fluttu þá að Hólkoti í sömu sveit. „Þar var stundaður hefðbundinn búskapur. Ég ólst þar upp þar til ég fór 18 ára sjálf að búa. Ég elskaði sveitina og var alltaf með pabba í öllum útiverkum og forðaðist öll kvenleg störf innanhúss eins og heitan eldinn. Ég ætlaði að verða sauðfjárræktarráðunautur þegar ég yrði stór.“
Barnaskóli Elsu var á Ölkeldu, byrjaði í nóvember og lauk í endaðan apríl. Krakkarnir voru í heimavist hálfan mánuð í senn, 10 og 11 ára saman og 12 og 13 ára saman. Síðan tók við gaggó, einn vetur á Reykjum í Hrútafirði, einn vetur á Búðum hjá sr. Þorgrími V. Sigurðssyni, og hún tók landspróf í Reykholti.
Elsa vann einn vetur í Iðnó á milli skóla. „Þá var m.a. verið að sýna Deleríum búbónis við miklar vinsældir og lærði maður alla söngvana úr því utan að og kann þá reyndar enn. Á laugardagskvöldum voru svo dansleikir þar sem KK-sextettinn lék ásamt Ellý og Ragga Bjarna.“
Svo lá leiðin í Samvinnuskólann á Bifröst í tvo vetur á heimavist og bara farið heim um jól og páska. „Þar var blómlegt félagslíf og bundust þar mörg vináttu- og ástarbönd. Útskriftarbekkurinn minn '61 hittist ennþá árlega með knúsum og kossum, söng og gleðskap.
Að skólanum loknum tók svo alvara lífsins við. Ég giftist fyrri eiginmanni mínum Gísla R. Péturssyni, f. 8.12. 1937, d. 2.2. 2010, í maí og við hófum búskap á Þórshöfn, en þar hafði hann fengið kaupfélagsstjórastöðu. Við flugum norður með sjúkraflugvél Björns Pálssonar, því landleiðin yfir Axarfjarðarheiði var ekki fær nema í júní-ágúst á þessum árum. Strax varð mjög gestkvæmt á heimilinu og kostgangarar þrír sem voru að vinna við framkvæmdir á vegum kaupfélagsins. Þá varð mér oft hugsað til þess að kannski hefði nú verið skynsamlegra að kynna sér betur það sem fór fram innanhúss. En það sem bjargaði lífi mínu þarna var að amma mín, Dóróthea Gísladóttir, kom með okkur norður og hjálpaði og kenndi fávísri húsmóðurinni.“
Elsa vann í fimm ár við bókhald á skrifstofu kaupfélagsins. „Sjónvarpið var ekki komið og fólk sá sér því sjálft fyrir skemmtunum. Leikfélög voru starfandi bæði á Þórshöfn og í Þistilfirði, svo voru böll og bíósýningar og mikið um að fólk hittist í heimahúsum, spilað brids og sagðar sögur og farið með kveðskap, margir góðir sögumenn og -konur.
Árið 1969 fluttum við til Reykjavíkur. Ég auglýsti í Morgunblaðinu eftir vinnu og gat um menntun og fyrri störf. Fékk boð um að koma í viðtal hjá SPRON, þar sem mér var tjáð að þeir hefðu verið að sækjast eftir skrifstofustjóra, en fyrst ég reyndist vera kona gengi það ekki og buðu mér afgreiðslustörf, sem ég afþakkaði. Ég réð mig síðan á skrifstofuna á Borgarspítalanum og var stundum í móttökunni á slysó. Eftir rúmt ár fékk ég svo vinnu við bókhald hjá Ford-umboðinu Kr. Kristjánsson.
Árið 1973 skildum við hjónin. Ég kynntist seinni manninum mínum, Þóri S. Maronssyni, þá lögreglumanni á Keflavíkurflugvelli, og við giftum okkur í ágúst 1974 í Höje Tåstrup kirke í Kaupmannahöfn, keyptum okkur viðlagasjóðshús í Sandgerði og bjuggum þar næstu 16 árin. Fjölbrautaskólinn í Keflavík var þá nýlega stofnaður og fannst mér upplagt að taka stúdentinn í öldungadeildinni þar.“ Þaðan útskrifaðist hún og dúxaði 1980. „Ef ég hefði haldið áfram námi hefði ég farið í jarðfræði, því allt í tengslum við hana er ótrúlega heillandi.“
Oddviti í Sandgerði
Elsa var kosin í sveitarstjórn 1978, fyrsta konan í þá stöðu í Sandgerði. Hún sat í sveitarstjórninni í 12 ár, þar af oddviti í sex ár. Hún var einnig um tíma í stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og varaþingmaður í eitt kjörtímabil fyrir Geir Gunnarsson þingmann „Eitt skemmtilegasta verkefnið í sveitarstjórninni voru samskiptin við vinabæ okkar Vág á Suðurey í Færeyjum. Heimsóknir til skiptis voru annað hvert ár, fótboltafélögin, bridsklúbbarnir, kirkjukórarnir og fulltrúar frá sveitarstjórnunum. Þá var sungið og dansað af hjartans lyst á kvöldin, bæði færeyskur dansur og aðrir dansar.“Elsa hóf störf hjá útibúi Landsbanka Íslands í Sandgerði 1976 og starfaði hjá ýmsum útibúum og deildum þess banka til starfsloka 2006.
„Eftir 16 ár í Sandgerði bjuggum við í átta ár í Garðabæ en síðan fundum við íbúð á 7. hæð í Dúfnahólum með geggjuðu útsýni og höfum búið þar síðan. Sameiginlegt áhugamál okkar hjóna voru ferðalög um landið, einkum hálendið, og í samfylgd systur minnar og mágs höfum við farið flestar færar hálendisslóðir á Íslandi. 1988 hófum við svo saman byggingu sumarhúss á Hvítársíðu og eftir það varð minna um hálendisferðir. Árið 2002 lenti ég í slæmu bílslysi og eftir það er göngufærnin mjög takmörkuð svo nú er aðaltómstundagamanið bóklestur; sögulegar skáldsögur, ævisögur, þjóðmál og síðast en ekki síst norrænar glæpasögur!“
Fjölskylda
Seinni eiginmaður Elsu var Þórir Sævar Maronsson, f. 15.1. 1937, d. 27.3. 2022, yfirlögregluþjónn í Keflavík. Foreldrar Þóris voru Maron Björnsson verkamaður, f. 5.3. 1911. d. 30.10. 1993 og kona hans, Fjóla Pálsdóttir, f. 7.2. 1916. d. 28.11. 1981, húsfreyja í Sandgerði og áður á Siglufirði.Börn Elsu og Gísla, fyrri eiginmanns hennar, eru: 1) Elsa Dóróthea, f. 24.8. 1961, myndlistarmaður og kennari, búsett í Garðabæ. Maki: Jón Hrafn Hlöðversson byggingafræðingur. Þau eiga eina dóttur; 2) Kristján Einar, f. 1.10. 1962, skipstjóri, búsettur í Reykjavík, Maki: Elísabet Ingileif Auðardóttir, kennari og húsmóðir. Þau eiga fjögur börn. Börn Þóris frá fyrra hjónabandi eru: 3) Pálmar Örn, f. 3.2. 1958, verkefnastjóri í upplýsingatækni, búsettur í Hafnarfirði. Maki: Margrét Þórhallsdóttir bókari. Þau eiga fimm börn; 4) Margrét Sigríður, f. 25.2. 1961, kennari og ökukennari, búsett í Hafnarfirði. Maki: Birgir Ingvarsson útgerðarmaður. Þau eiga fjögur börn; 5) Hrönn Guðjónsdóttir, fósturdóttir Þóris, f. 13.11. 1963, d. 11.2. 2009, vann á dvalarheimili á Fáskrúðsfirði. Maki: Guðmundur Eiríksson, bóndi á Brimnesi í Fáskrúðsfirði. Þau eiga fjögur börn.
Systur Elsu eru Kristlaug Karlsdóttir, uppeldissystir, f. 1.8. 1948, matráður, búsett í Kópavogi, og Heiðbjört Kristjánsdóttir, f. 16.11. 1951, bókari, búsett á Akranesi.
Foreldrar Elsu voru Kristján Guðbjartsson, f. 18.1. 1909, d. 10.12. 2000, lengst af bóndi á Hólkoti, og kona hans, Björg Þorleifsdóttir, f. 6.6. 1919, d. 31.7. 2015, húsmóðir og organisti á Hólkoti, síðar í Reykjavík.