Tryggvi Sveinsson fæddist 20. júní 1934 í Vestmannaeyjum. Hann lést 6. ágúst 2022 í Brákarhlíð í Borgarnesi.

Foreldrar hans voru Sveinn Sigurhansson, f. 1892, d. 1963, múrarameistari og vélstjóri, og Sólrún Ingvarsdóttir, f. 1891, d. 1974, húsfreyja. Þau hjónin voru bæði úr Vestur-Eyjafjallahreppi, hún frá Hellnahóli, hann frá Stóru-Mörk, en fluttu um tvítugt til Vestmannaeyja upp úr aldamótunum 1900.

Tryggvi var giftur Þóru Eiríksdóttur, f. 1933, d. 2016. Foreldrar hennar voru Eiríkur Þorvaldsson skipstjóri, f. 1904, d. 1941, frá Karlsstöðum, Berufjarðarströnd, og Guðfinna Gísladóttir húsmóðir, f. 1903, d. 1998, frá Krossgerði, Berufjarðarströnd.

Systkini Tryggva sem upp komust voru: Ágústa, f. 1920, d. 2012, Berent Theodór, f. 1926, d. 2018, og Garðar Aðalsteinn, f. 1933, d. 2012. Þau voru öll fædd í Vestmannaeyjum og ólust þar upp.

Börn Tryggva og Þóru eru: 1) Skúli verkfræðingur, f. 1958, d. 1998. Kona hans var Jónína Magnúsdóttir (Ninný) og eru synir þeirra Magnús Ágúst og Árni Þór. 2) Sólrún, kennari og sjúkraliði, Borgarnesi, f. 1959. Sólrún á þrjú börn með Úlfi Guðmundssyni, þau eru Tryggvi Örn, Þóra Ágústa og Sólveig Heiða. 3) Eiríkur Sveinn rekstrarfræðingur, Reykjavík, f. 1963, kona hans er Steinunn Jónsdóttir, börn þeirra eru Davíð Örn og Guðfinna. 4) Tryggvi Þór verkamaður, Reykjavík, f. 1965. Dóttir Tryggva Þórs og Aldísar Þorbjarnardóttur er Alexandra Rós. Dóttir Aldísar er Ylva Dís Knútsdóttir. 5) Gísli verkfræðingur, Kópavogi, f. 1967. Sonur Gísla og Kristínar Lilju Þorsteinsdóttur er Róbert.

Langafabörn Tryggva og Þóru eru tólf.

Tryggvi lauk hefðbundnu barnaskólanámi í Vestmanneyjum og tók að því loknu gagnfræðapróf. Tryggvi settist síðan á skólabekk í Stýrimannaskólanum í Reykjavík. Hann starfaði lengst af sem stýrimaður og skipstjóri hjá Ríkisskipum og öðrum skipafélögum. Tryggvi vann einnig sem verkstjóri hjá Rarik og síðustu árin hjá Póstinum.

Þau Tryggvi og Þóra kynntust í Vestmannaeyjum árið 1954, en þangað fór Þóra í starfsnám á sjúkrahúsinu. Þá var Tryggvi kominn í Stýrimannaskólann en kom heim til Eyja í jólaleyfi.

Tryggvi og Þóra bjuggu lengst af í Hrauntungu í Kópavogi eða frá árinu 1966. Eftir að Þóra dó bjó Tryggvi síðustu árin á heimili þeirra í Hrauntungu, nema síðustu mánuðina, en þá var hann fluttur að Brákarhlíð í Borgarnesi þar sem hann lést.

Tryggvi verður jarðsunginn frá Digraneskirkju í dag, 23. ágúst 2022, klukkan 15.

Jæja elsku pabbi, stundin er komin. Síðustu árin frekar erfið á annars langri og góðri ævi. Við vorum í daglegu sambandi og létum þetta ganga upp síðustu ár. Þú varst hreinskilinn og lítið fyrir sýndarmennsku, nokkuð sem ég trúlega erfi frá þér. Meðal annars vorum við hreinskiptnir hvor við annan. Sumir hefðu talað um rifrildi eða deilur. En við vissum að það voru ekki deilur, samskiptin voru einfaldlega með þessum hætti, hrein og bein.

Sjómennskan var þér í blóð borin, enda af sjómannsætt. Þegar mamma vildi sumarbústað, þá keyptirðu bústað á floti, skútuna. Sem þú áttir í um 15 ár. Fórum við í margar siglingar saman. Þar áður höfðum við aðeins siglt saman á strandferðaskipum við strönd landsins, þegar þú útvegaðir mér vinnu hjá Skipaútgerðinni. Einnig unnum við mikið saman í húsinu við ýmislegt viðhald og viðgerðir í mörg ár.

Ég mun alltaf sakna þín. Takk fyrir allt elsku pabbi.

Þinn sonur,

Gísli.