Þórður Höjgaard Jónsson fæddist á Landspítalanum í Reykjavík 13. september 1944. Hann andaðist á Hrafnistu, Sléttuvegi, Reykjavík 9. ágúst 2022.

Foreldrar hans voru hjónin Jón Höjgaard Magnússon frá Garðhúsum í Höfnum, f. 9. ágúst 1905, d. 9. ágúst 1968, og Kristín Arnfinnsdóttir frá Innri-Lambadal í Dýrafirði, f. 17. júní 1908, d. 26. apríl 2006. Tvíburasystir Þórðar fæddist andvana.

Hinn 30. desember 1978 kvæntist Þórður eftirlifandi eiginkonu sinni, Ingibjörgu Ólafsdóttur Hjaltalín, f. 25. apríl 1950, frá Seljum í Helgafellssveit.

Foreldrar hennar voru Ólafur Ingibergur Torfason Hjaltalín, f. 12. júlí 1917, d. 26. mars 2005, og Vilborg Guðríður Jónsdóttir, f. 22. júlí 1924, d. 10. febrúar 2021.

Dóttir Þórðar og Ingibjargar er Kristín Vilborg, f. 3. desember 1978, eiginmaður hennar er Ingi Björn, f. 17. mars 1978. Börn þeirra Ingibjörg Lilja, f. 2007, og Jóel Freyr, f. 2009. Stjúpsonur Kristínar og sonur Inga er Ágúst Örn, f. 1996.

Þórður verður jarðsunginn frá Fossvogskirkju í dag, 23. ágúst 2022, kl. 13.

Þórður skaddaðist í fæðingu og var þess vegna bundinn við hjólastól alla ævi. Hann ólst upp í Keflavík. Uppeldisbróðir Þórðar var Haraldur Guðmundsson en foreldrar Þórðar tóku Halla að sér á unga aldri. Þegar Þórður var 17 ára eignaðist hann sinn fyrsta bíl, sjálfskiptan Daf sem Rabbi vinur hans breytti þannig að bremsan var upp við stýrið og átti Þórður því auðvelt með að keyra bílinn.

Þórður ferðaðist mikið um ævina. Fyrsta utanlandsferð hans var til Evrópu með vinafólki, Einari G. Ólafssyni og konu hans Sirrý. Siglt var með Gullfossi með bíl Þórðar, sem á þeim tíma var nýlegur amerískur bíll. Keyrðu þau frá Englandi yfir til Spánar og með ferju til Mallorca.

Þórður settist að í Ródesíu um tíma, sem nú heitir Simbabve, og bjó þar í nokkur ár. Þar hafði hann þjón sem aðstoðaði hann. Þórður gerðist meðeigandi í bílaverkstæði og eignaðist matvörubúð í Salisbury. Um skeið dvaldi Þórður ásamt þjóni sínum í frumskógi þar sem hann leit eftir myndhöggvurum í steinnámu en þeir útbjuggu styttur sem voru svo fluttar til Reykjavíkur og sýndar á Kjarvalsstöðum.

Uppreisn braust út í Ródesíu þegar Þórður bjó þar en hann slapp naumlega úr höndum skæruliða og hafði sú upplifun veruleg áhrif á líðan hans. Hann sneri heim til Íslands eftir þessar ógnir. Þórður flutti í hús Sjálfsbjargar við Hátún í Reykjavík en þar kynntist hann konu sinni, Ingibjörgu, og eignuðust þau dóttur sem ólst þar upp. Þórður stofnaði jeppapartasölu ásamt kunningja sínum, Halli Ólafssyni, en sá vissi allt sem viðkom jeppum. Festi Þórður kaup á iðnaðarhúsnæði við Tangarhöfða og var Jeppapartasalan opnuð 1983. Partasalan gekk vel og var aðalvandamálið að finna nóg af pörtum til að selja. Róbert, vinur Þórðar til margra ára, hafði flutt til Michigan í BNA með fjölskyldu sinni og Þórður ákvað að skreppa til þeirra með fjölskyldu sína í frí. Fríið fór í að kaupa varahluti frá bílakirkjugörðum í nágrenninu sem voru svo fluttir heim til Íslands. Alls var farið sjö sinnum til BNA en í síðustu ferðinni hélt Þórður upp á 50 ára afmæli sitt.

Einhver hafði kveikt áhuga Þórðar á að láta skrifa ævisögu sína og bað hann mig að skrifa hana. Við settumst á verönd lítillar kaffistofu á strönd einni i BNA með svaladrykki, eiginkona og dóttir sóluðu sig í sandinum fyrir neðan á meðan við Þórður fórum yfir ævi hans. Þarna eyddum við heilum mánuði og úr varð bókin: Sorry Mister Boss, Þórðar saga Jónssonar.

Þórður hefur verið sérstakur vinur minn alla ævi. Ég hef dáðst að athafnasemi hans og hve miklu hann kom í verk þrátt fyrir fötlun sína. Að lokum vil ég rifja upp niðurlagsorð Þórðar úr bókinni: „Ég finn hamingju í hversdagleikanum með fjölskyldu minni. Það er mikið starf sem bíður okkar og þrátt fyrir ævintýri í útlöndum er mesta ánægjan í lífinu að hafa eitthvað fyrir stafni og mesta ævintýrið er að vakna til að fara í vinnu og vita sig færan um að framfleyta fjölskyldu sinni og vinna þarft verk í þjóðfélaginu.“

Róbert Brimdal.