Laganeminn reynir eftir bestu getu að leiða hjá sér sérvisku og aukna afskiptasemi gömlu hjúanna í ljósi þess að leigan er hræódýr. Gamli maðurinn, Kristján, kallaður Kristján sálugi, er stoltur forstjóri útflutningsfyrirtækisins Úranusar. En þegar laganeminn heimsækir Kristján á skrifstofu fyrirtækisins síðar í sögunni kemur í ljós að það hefur mátt muna fífil sinn fegurri og er, þegar sagan gerist árið 1985, einungis dimm og loftlaus kjallarahola sem rúmar einn starfsmann, forstjórann sjálfan, sem virðist eyða mestum tíma sínum í að dreypa á viskíi og reykja vindla í stað þess að auka framleiðni.
Gamla konan, Franska-María, er spíritisti og berdreymin að eigin sögn. Í fyrstu er hún afar tortryggin gagnvart unga leigjandanum en með tímanum fer hún að bjóða honum upp á herbergi til sín þar sem hún segir honum með stjörnur í augunum frá hinum og þessum atburðum úr glæstri en einnig sorglegri fortíð sinni meðan hún gefur honum heitt súkkulaði. Konan virðist hálfgeðveik og er mikið í því að fegra sannleikann til að gefa einmanalegri tilveru sinni meiri lit.
Það ber helst til tíðinda nótt eina í sögunni að leigjandinn kemur með unga konu sem hann hitti á skemmtanalífinu heim til sín í kjallarann í Þingholtunum. Eldri hjónin verða þá afar móðguð yfir þessari háttsemi ungmennanna, sérstaklega Franska-María, sem rekur stúlkuna út morguninn eftir og úthúðar henni fyrir að vera óskammfeilin drós.
Ég var nóttin
er sprottin upp úr sögunni
Næðingur
sem Einar Örn gaf út á 10. áratugnum. Ljóst er að höfundinum þykir afar vænt um þennan tíma sem sagan gerist, miðbik 9. áratugarins, en þá var höfundurinn ungur laganemi, rétt eins og aðalpersóna
Ég var nóttin
. Bókin er vel skrifuð og Einar gerir þessum tíma í sögunni góð skil. Persónurnar spretta lifandi upp úr síðunum, en auk leigjandans koma fyrir mis
heppnuð ungskáld með stóra drauma, háskólastúdentar, drykkfelldir sjómenn og faðir aðalpersónunnar, en þeir feðgar eiga stirt samband eftir að faðirinn gekkst sértrúarsöfnuði á hönd eftir andlát eiginkonu sinnar og móður unga laganemans í bílslysi nokkrum árum áður.
Í rauninni gerist bókin á tveimur tímum í sögunni – í fyrsta lagi um miðbik 9. áratugarins en einnig fyrr þar sem eldri hjónin eru föst í fortíðinni og virðast lifa og þrífast á þeim tíma er þau voru ung, einhvern tíma á seinni stríðsárunum þegar erlendir hermenn voru hér á Íslandi en þau hlusta á tónlist frá þeim tíma, keyra bíl frá þeim tíma, eiga hluti frá þeim tíma og tala líkt og árið sé eitthvað allt annað en það er, þá með tilvísunum í stjórnmál, menningu og viðskipti.
Helsti gallinn við söguna er að ekki nógu mikið krassandi gerist á þessum tæpum 220 síðum. Vissulega taka örlög einhverra persóna aðra stefnu í sögulok, en það skilur ekki nógu mikið eftir sig í hjarta lesandans. Persónuleiki unga laganemans er fremur þurr, sem og annarra persóna. Gömlu hjónin eiga án efa að vera litríkustu karakterarnir í bókinni en samt sem áður fara þau frekar í taugarnar á lesandanum en að heilla hann upp úr skónum, en það kann að vera persónubundið mat hvers og eins. Ég get þó sagt að mér var ekki nógu annt um þetta blessaða fólk til að láta mig varða afdrif þess.
Þegar upp er staðið er sagan vel skrifuð og hálfgert ástarbréf til liðinna tíma og á einn eða annan hátt tímahylki, en það virðist vera aðalviðfangsefni sögunnar; tíminn. Hvernig við hugsum um og varðveitum hann, hvernig hann breytir okkur, eða ekki, og heldur sumum föstum í viðjum sínum. Þá hló ég nokkrum sinnum upphátt meðan á lestri stóð og sýnir það að höfundurinn hefur ýmislegt til brunns að bera hvað viðkemur hnyttni og kímnigáfu en sagan er skrifuð í einkar kaldhæðnislegum tón. Ég mæli með bókinni fyrir alla þá sem vilja hverfa aftur í tímann og skyggnast í miðbæjarlífið í Reykjavík árið 1985, en þar kennir ýmissa grasa og síðast en ekki síst fyrir alla þá sem vilja vita hvernig það er að búa inni á heimili sérviturra eldri hjóna.
Ísak Gabríel Regal