Sigurbjartur Jóhannesson fæddist á Brekkum í Mýrdal 9. nóvember árið 1929. Hann lést 7. ágúst 2022.

Foreldrar hans voru hjónin Jóhannes Stígsson og Helga Hróbjartsdóttir.

Eftirlifandi eiginkona hans er Sigrún Guðbergsdóttir.

Börn þeirra eru: 1) Helga Dóra. Eiginmaður hennar er Hannes Örn Jónsson. Dætur þeirra eru Ellen Inga og Hugrún. 2) Rúnar, kona hans er Kolbrún Hildur Sigurðardóttir. Synir þeirra eru Konráð og Ingólfur. 3) Davíð Þór, sem er kvæntur Huldu Þórisdóttur. Synir þeirra eru Daði Freyr og Þórir Már og dóttir þeirra er Lára Sif. 4) Sigríður Oddný, maður hennar er Óskar Gunnarsson. Dætur þeirra eru Rakel Ösp og Eva María og sonur þeirra er Aron Örn. 5) Yngstur er Hróbjartur Stígur. Sambýliskona hans er Rachel Haller. Dóttir þeirra er Jóhanna Marcella og dótturina Emilíu á hann úr fyrra sambandi.

Langafabörnin eru orðin 12.

Útförin fór fram í kyrrþey.

Elsku afi minn. Ég hugsa til þín með söknuði, hlýju og þakklæti nú þegar okkar samleið er lokið.

Þú varst hlýr og góður langafi drengjanna okkar Viðars og hjálpaðir okkur á margan hátt og fyrir það erum við alltaf þakklát.

Sem fullorðin áttum við ótal margar góðar samverustundir. Þú mættir í öll heimboð til okkar svo lengi sem þú gast og aðeins örfá ár frá því að þú komst síðast. Þú varst svo hraustur afi og ég hélt lengi vel að þú værir alveg óstöðvandi.

Þú kenndir mér að maður er aldrei of gamall til að læra nýja hluti og hvað það er í raun mikilvægt að halda því áfram út lífið.

Þær eru margar minningarnar sem koma í hugann þegar ég hugsa um okkar tíma saman. Enda fékk ég að eiga þig sem afa í næstum fjörutíu ár og geri aðrir betur.

Efst standa þó upp úr minningarnar frá því ég var lítil stelpa.

Sem fyrsta barnabarnið fékk ég næstum ótakmarkað aðgengi að ykkur ömmu fyrstu árin og segi alltaf að þið voruð mitt annað heimili. Hjá ykkur var alltaf líf og fjör og svo margt hægt að bralla. Þú vannst mikið niðri í kjallara og ég kom oft að trufla þig. Þú lést mig samt aldrei finna að ég væri fyrir þér og leyfðir mér að dunda endalaust, ýmist að hamra á ritvélina, sitja við teikniborðið þitt eða teikna í Paint í tölvunni.

Í gróðurhúsinu og garðinum skapaðir þú svo heilan ævintýraheim til að leika sér í og þar gat maður svo sannarlega gleymt sér líka. Þetta tókst þér svo að smita yfir á mömmu og nú njóta drengirnir mínir heldur betur góðs af því en hún hefur einmitt skapað sama ævintýraheiminn í garðinum sínum.

Nokkrar af bestu minningum mínum frá því ég var barn eru með þér og ömmu í sveitinni. Þar upplifði ég frið og frelsi sem var hvergi annars staðar. Í mínum huga átti ég alltaf að fara með ykkur þegar þið fóruð þangað og ég var alveg steinhissa ef ég frétti af ykkur þar án mín. Mér hafði verið sagt að hann var byggður þegar mamma var ólétt að mér. Við vorum sem sagt búin til á sama tíma! Þar af leiðandi vorum við bundin órjúfanlegum böndum og þetta var „sveitin mín“.

En þetta var að sjálfsögðu fyrst og fremst sveitin þín afi. Þér tókst bara að smita töfrum hennar yfir á mig.

Heimsfaraldur síðustu ár hafði áhrif á að heimsóknum til þín fækkaði. En í lægðunum inn á milli áttum við ótrúlega góðar stundir þar sem ég kom með strákana og við drukkum kaffi saman.

Ég lagaði gamla mynd af þér sem var orðin mjög slitin, prentaði og færði þér.

Eftir að þú fórst hugsa ég oft um þessa mynd því hún var svo lýsandi fyrir þig afi minn. Myndin var af þér sem litlum strák á Brekkum ásamt nokkrum systkinum þínum. Þú varst sólbrúnn, með mikið ljóst og liðað hár sem stóð í allar áttir.

Nú þegar þú ert farinn hugsa ég oft um strákinn á myndinni. Þannig held ég að þú viljir að við munum eftir þér. Sólbrúnn með ljósa hárið upp í vindinn einhvers staðar í hlíðunum á Brekkum.

Ellen Inga.