Guðmundur B. Helgason
Guðmundur B. Helgason
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Aðeins 212 sjóðir og stofnanir, sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, höfðu í lok júní skilað ársreikningum til Ríkisendurskoðunar fyrir árið 2021. Því höfðu um 70% sjóðanna ekki skilað reikningum.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Aðeins 212 sjóðir og stofnanir, sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, höfðu í lok júní skilað ársreikningum til Ríkisendurskoðunar fyrir árið 2021. Því höfðu um 70% sjóðanna ekki skilað reikningum. Þann dag rann út frestur sem forráðamenn sjóðanna hafa til að skila ársreikningum. Ríkisendurskoðandi segir að stofnunin hafi óskað eftir virkum úrræðum til að þrýsta á um skil á þessum gögnum, til dæmis dagsektum.

Um 700 sjóðir og stofnanir eru með staðfesta skipulagsskrá og falla undir ákvæði um skil á ársreikningum til Ríkisendurskoðunar. Skilin hafa lengi verið slæleg, eins og staðan nú sýnir. Raunar hafa forráðamenn margra sjóða trassað það árum saman að skila ársreikningum og nokkuð er um að reikningum hafi aldrei verið skilað.

42 sjóðir skila aldrei

Þótt fáir sjóðir skili ársreikningum á réttum tíma bætist smám saman við. Í lok síðasta árs höfðu 458 sjóðir og stofnanir, af 702 sem þá höfðu staðfesta skipulagsskrá, skilað ársreikningum fyrir árið 2020. 244 höfðu ekki skilað og eru það um 35% sjóðanna.

Þá höfðu 42 virkir sjóðir og stofnanir ekki skilað ársreikningi síðan 1989 eða fyrr. Svo dæmi séu nefnd þá hafði bókasjóður forsetaembættisins á Bessastöðum, sem staðfestur var 1969, ekki skilað ársreikningi í að minnsta kosti þrjátíu ár, kannski aldrei. Sömuleiðis Stofnun Evu Joly. Hún var stofnuð 2011 og hefur aldrei skilað ársreikningi til Ríkisendurskoðunar.

Sjóðir og stofnanir sem heyra undir þetta eftirlit eru ákaflega mismunandi. Þar er fjöldi minningarsjóða sem hafa engar eða litlar tekjur en einnig stórfyrirtæki eins og Brynja – hússjóður Öryrkjabandalags Íslands og Grundarheimilin.

Ef ársreikningum er ekki skilað á réttum tíma eða gögn eru ekki fullnægjandi getur sýslumaður, að fengnum tillögum Ríkisendurskoðunar, falið lögreglu að rannsaka fjárreiður sjóðsins eða stofnunarinnar. Ekki er talið eðlilegt að beita þessu úrræði nema eitthvað sé talið gruggugt í fjármálum viðkomandi sjóðs og nýtist það því ekki til að reka á eftir skilum ársreikninga.

Óska eftir virkum úrræðum

Guðmundur B. Helgason ríkisendurskoðandi bendir á að Ríkisendurskoðun hafi lengi óskað eftir því við dómsmálaráðuneytið og Alþingi að lögfest verði sektarákvæði sem taki til skila á ársreikningum, sambærilegt og á við sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnu. Þar er átt við dag- eða vikusektir sem stjórnvöld gætu beitt vegna síðbúinna skila eða annarrar vanrækslu.