Fjör Besti vinur mannsins nýtur sín með hausinn út um glugga í einu af málverkum Fritz í Þulu.
Fjör Besti vinur mannsins nýtur sín með hausinn út um glugga í einu af málverkum Fritz í Þulu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is „Er ég ekki góður hundur?“ spyr myndlistarmaðurinn Fritz Hendrik IV í texta við sýningu sína Regnbogi hunds sem opnuð var í galleríinu Þulu 13. ágúst.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

„Er ég ekki góður hundur?“ spyr myndlistarmaðurinn Fritz Hendrik IV í texta við sýningu sína Regnbogi hunds sem opnuð var í galleríinu Þulu 13. ágúst. Segist Fritz halda að sér sé í blóð borið að hlýða, það sé sér eðlislægt að sitja í aftursætinu og láta aðra um að stjórna ferðinni. „Af hverju að láta skoðanir sínar í ljós á smávægilegum hlutum í stóra samhenginu þegar maður getur bara stungið hausnum út um gluggann og rekið út tunguna. Lullað áfram í flæði tímans, notið útsýnisins og leyft grátónum kæruleysis að leika við sig,“ skrifar Fritz ennfremur og nokkuð til í þeim vangaveltum.

Hugmyndin kviknaði í bílferð

Fritz segir í samtali við blaðamann að titill sýningarinnar vísi í þá fáu liti sem hundar sjái, þ.e. bláan og gulan. Þannig er sumsé regnboginn, séð með augum hunds, blár og gulur. Hugmyndina að sýningunni fékk hann í bílferð um landið í fyrrasumar með kærustu sinni. Sat Fritz þá í farþegasætinu en kærastan var undir stýri.

„Mér leið svolítið eins og hundi í bíl með hausinn út um glugga og tunguna lafandi. Þá fór ég að velta fyrir mér hvernig þeir sæju þetta og ég hélt alltaf að þeir væru með svarthvíta sjón, væru alveg litblindir, en svo fór ég að skoða þetta og þeir eru með einhvers konar rauðgræna litblindu, sjá bláan og gulan mjög vel og svo bara grátóna. Þá fór ég að gera málverk út frá þessu sjónarhorni,“ segir Fritz frá. Málverkin sýna þetta sjónarhorn hundsins, út um gluggann og inn í bílinn líka því sjá má verk á sýningunni af aftursæti og afturglugga bíls.

Hundar eru með einstakt þefskyn, eins og frægt er, og kemur lykt við sögu á sýningunni. Lykt sem Fritz segist hafa búið til með Lilju Birgisdóttur í ilmvatnsgerðinni Fisher og minnir á nýslegið gras. Er henni úðað í sýningarrýmið með þar til gerðu tæki eða lyktardreifara. Einnig má sjá ilmspjöld í líki hundaloppa sem anga af bensíni og grasi. Spjöld þessi eru líkt og þau sem margir hengja neðan í baksýnisspegla bifreiða sinna.

Hálfgerð landslagsverk

En hvert er myndefnið, burtsé frá litunum sem hundar sjá? „Þetta eru eiginlega hálfgerð landslagsverk. Ég tók ljósmyndir í þessari bílferð og vann þær út frá þessum litum sem ég síðan málaði eftir,“ segir Fritz. Í verkunum megi meðal annars sjá lúpínu og regnboga.

Málverkin eru máluð með olíulitum og Fritz er spurður hvort það sé hans aðalmiðill í myndlistinni. „Ég hef verið að vinna í marga ólíka miðla og yfirleitt út frá hugmynd eins og tilfellið er með þessa sýningu. Þetta er ein heildarhugmynd sem verkin verða til út frá og það hefur svolítið ráðið því í hvaða miðla ég vinn. Málverkið er dálítið lúmskt, virðist alltaf troða sér inn í flestar hugmyndir hjá mér. Mér finnst það góður miðill að því leyti að hann er hlýr og tilfinningaríkur í samanburði við skúlptúr, vídeó eða aðra miðla, finnst mér,“ svarar Fritz.

En er olíumálningin ekki erfið að eiga við? „Jú en mér finnst reyndar í samanburði við akrílliti að ef maður beiti henni rétt sé hún auðveldari, en það er einmitt talað um að hún sé strembin,“ segir Fritz að lokum.

Sýningu hans í Þulu lýkur 10. september. Þula er við Hjartatorgið í miðbæ Reykjavíkur.