Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
„Þegar ég byrjaði að kenna ungbarnasund fyrir 16 árum, þá upplifði ég að það snerist mest um að venja barnið við vatn, kenna því að kafa og annað slíkt. Nú finnst mér samverustundin skipta mestu máli,“ segir Erla Guðmundsdóttir, sundkennari, íþróttafræðingur og heilsumarkþjálfi, en hún kennir ungbarnasund í Suðurbæjarlaug í Hafnarfirði, sem ætlað er fyrir börn á aldrinum þriggja mánaða til tveggja ára.
„Sýnt hefur verið fram á hvað snerting skiptir ungbörn miklu máli, til dæmis öðlast börn á munaðarleysingjaheimilum, sem ekki fá næga snertingu, ekki nauðsynlegan félagsþroska. Í frumbernsku er tengslamyndun nauðsynleg fyrir þroska barna. Mér finnst ungbarnasund vera einstakur staður til að skapa þetta rými; þar truflar ekkert, enginn er með síma, enginn að horfa á sjónvarp og fyrir vikið eru foreldrar hundrað prósent á staðnum með barninu sínu.“
Fyrir 32 árum var fyrst boðið upp á ungbarnasund hér á landi og hefur það eflst og dafnað á þeim tíma, nú eru um 20 starfandi ungbarnasundkennarar víða um land, þótt flestir séu á höfuðborgarsvæðinu.
„Mörgum fannst þetta skrýtið á þessum fyrstu árum, fólki fannst undarlegt að fara með ungbörn í sundkennslu, en núna hefur fólk áttað sig á hversu gefandi þetta er fyrir fjölskylduna og gott fyrir þroska barnsins. Þetta styrkir börn líka ótrúlega mikið líkamlega, þau geta hreyft sig miklu auðveldar í vatni en heima á leikteppi. Örvunin sem börnin fá í ungbarnasundi er margs konar, líka allir litirnir og hljóðin í umhverfinu í sundlauginni, svala loftið og heita vatnið, þau upplifa alls konar skynjun,“ segir Erla og bætir við að sér finnist gaman að flestir foreldrar sem koma með eitt barn til hennar í ungbarnasund koma í framhaldi með barn númer tvö, þrjú og jafnvel fjögur.
„Það segir allt sem segja þarf um hversu ánægðir foreldrar eru, enda er þetta mikil gæðastund.“
Hvorki meira né minna en sex þúsund börn hafa komið til Erlu á þeim 16 árum sem hún hefur boðið upp á ungbarnasund. Þegar hún er spurð hvernig tilfinning það sé að hafa snert með þessum hætti á upphafi lífsskeiðs allra þessara barna segir hún að það sé sannarlega góð tilfinning.
„Enda finnst mér næstum eins og ég sé ekki að mæta til vinnu þegar ég mæti í ungbarnasundkennslu, því þetta er svo ótrúlega gefandi. Ég er nánast með brosverk þegar ég kem heim til mín að lokinni slíkri kennslustund og alltaf endurnærð,“ segir Erla, sem starfar núna einnig sem íþróttakennari við Menntaskólann í Hamrahlíð, en þar hefur hún hitt fyrir nemendur sem voru hjá henni í ungbarnasundi á sínu fyrsta aldursári.
„Þetta gerðist í fyrsta sinn í fyrra, og var sannarlega mjög skemmtilegt. Þá áttaði ég mig á að kannski væri ég að eldast,“ segir Erla og hlær.
Heimasíða: ungbarnasunderlu.is
Instagram: ungbarnasunderlu
Upplýsingar um alla ungbarnasundkennara landsins á Facebook: Ungbarnasund á Íslandi