Kænugarður Þessi Úkraínumaður skoðar hér ónýtan rússneskan skriðdreka sem er til sýnis í Kænugarði ásamt öðrum slíkum vígtólum.
Kænugarður Þessi Úkraínumaður skoðar hér ónýtan rússneskan skriðdreka sem er til sýnis í Kænugarði ásamt öðrum slíkum vígtólum. — AFP/Dimitar Dilkoff
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Leyniþjónusta Rússlands, FSB, sakaði í gær Úkraínumenn um að hafa staðið á bak við morðið á Daríu Dúgínu, dóttur harðlínumannsins Alexanders Dúgín, um helgina. Vladimír Pútín Rússlandsforseti fordæmdi morðið, og sagði það viðbjóðslegan og grimmilegan glæp“, en úkraínsk stjórnvöld höfnuðu með öllu ásökunum um að þau hefðu staðið á bak við það.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Leyniþjónusta Rússlands, FSB, sakaði í gær Úkraínumenn um að hafa staðið á bak við morðið á Daríu Dúgínu, dóttur harðlínumannsins Alexanders Dúgín, um helgina. Vladimír Pútín Rússlandsforseti fordæmdi morðið, og sagði það viðbjóðslegan og grimmilegan glæp“, en úkraínsk stjórnvöld höfnuðu með öllu ásökunum um að þau hefðu staðið á bak við það.

Sagði í yfirlýsingu leyniþjónustunnar að hún teldi að Dúgín hefði verið skotmark árásarinnar, en sprengju var komið fyrir í bíl hans, sem var á sérstöku bílastæði fyrir bifreiðar fyrirmenna.

Hins vegar var búið að aftengja allar öryggismyndavélar á bílastæðinu að sögn rússneskra fjölmiðla um helgina. Dúgín slapp svo við tilræðið þegar hann ákvað á síðustu stundu að ferðast frekar með næsta bíl á eftir sínum, en hann mun hafa orðið vitni að sprengingunni.

Sagði jafnframt í yfirlýsingu FSB að sá sem grunaður væri um ódæðið væri úkraínsk kona og nágranni Dúgínu, fædd árið 1979, sem hefði flúið á sunnudaginn yfir landamærin til Eistlands með barnungri dóttur sinni. Áður höfðu meint samtök rússneskra andspyrnumanna, sem kölluðu sig Lýðveldisher Rússlands, lýst yfir ábyrgð sinni á bílsprengjunni á samfélagsmiðlum.

Vestrænir sérfræðingar í málefnum Rússlands töldu hins vegar sumir líklegra að FSB sjálf hefði staðið að baki ódæðinu, þar sem leyniþjónusta Úkraínu hefði í nægu að snúast heima fyrir vegna innrásarinnar.

Þá hentaði það rússneskum stjórnvöldum vel að búa til píslarvott úr Dúgín, þar sem andlát hans gæti réttlætt harðari aðgerðir gegn andstæðingum þeirra bæði í Rússlandi og í Úkraínu.

ESB ræðir herþjálfun

Josep Borrell utanríkismálastjóri Evrópusambandsins greindi frá því í gær að aðildarríkin ætluðu að ræða hvort þau ættu að taka að sér herþjálfun fyrir úkraínska hermenn í nágrannaríkjum Úkraínu.

Verður tillagan rædd á fundi varnarmálaráðherra ESB-ríkjanna í Prag í næstu viku, og sagðist Borrell vonast til að hún yrði samþykkt. Bætti hann við að vissulega yrði það stórt verkefni, en að átökin væru af þeirri stærðargráðu að það kallaði á stórar lausnir. „Það virðist rökrétt að stríð sem endist og lítur út fyrir að ætla að endast lengi krefst átaks sem felur ekki bara í sér að veita birgðir og gögn,“ sagði Borrell.

Ummæli Borrells féllu sama dag og Valerí Salúsjní, yfirmaður herafla Úkraínu, sagði að Úkraínumenn hefðu misst tæplega 9.000 hermenn á því tæpa hálfa ári sem liðið væri frá því að innrás Rússa hófst. Voru ummæli Salúsjnís fyrstu vísbendingarnar um mannfall Úkraínumanna frá því í apríl.

Senda fleiri skriðdrekabana

Greint var frá því fyrir helgi að Bandaríkjamenn hygðust senda hergögn og vistir að andvirði 775 milljónir bandaríkjadala til Úkraínumanna. Er það 19. hjálparpakkinn sem Bandaríkjaher hefur sent til Úkraínu frá því á síðasta ári, en þar munar mest um frekari skotfæri í HIMARS-eldflaugakerfið, en Úkraínumenn hafa nú yfir 16 slíkum að ráða.

Þá hefur einnig vakið athygli að Bandaríkjamenn ætla að senda 1.000 TOW-eldflaugar til Úkraínu, en það eru skriðdrekabanar, sem geta hitt skotmörk í tæplega fjögurra kílómetra fjarlægð.

Þykir nákvæmni TOW-flauganna mikil, en þeim er stýrt að skotmarkinu með vír eftir að þeim hefur verið skotið. Sagði talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins að Bandaríkjamenn væru að gefa Úkraínumönnum þau tól sem þeir hefðu beðið um til þess að geta tekist á við rússneska herinn í suðurhluta Úkraínu.