Guðlaugur Tómasson fæddist á Járngerðarstöðum í Grindavík 16. febrúar 1929. Hann andaðist á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 31. júlí 2022.
Guðlaugur var sonur hjónanna frá Járngerðarstöðum, Tómasar Snorrasonar, f. 28.8. 1872, d. 20.12. 1949, og Jórunnar Tómasdóttur, f. 31.3. 1890, d. 3.12. 1966. Hann var yngstur í röð níu systkina. Elst var Margrét, f. 23.8. 1913, d. 14.1. 1995, Jón, f. 26.8. 1914, d. 13.7. 1996, drengur, f. 17.11. 1915, d. 18.11.1915, Sigþrúður, f. 15.1. 1917, d. 9.4. 2006, Snorri, f. 22.12. 1918, d. 15.7. 1995, Kristján, f. 9.6. 1922, d. 25.3. 1923, Tómas, f. 7.7. 1924, d. 28.3. 2008, og Guðrún, f. 28.7. 1926, d. 3.6. 2020.
Guðlaugur giftist Hildi Jónínu Ingólfsdóttur, f. 4.5. 1932, d. 8.5. 2013. Daisý og Laugi, eins og þau voru alltaf kölluð, giftu sig 4.5. 1952. Börn þeirra eru: 1) Jón, f. 9.12. 1952, kvæntur Ástríði Guðmundsdóttur. Börn þeirra eru Hildur María, Gréta Rósný, Guðmundur og Ólafur Helgi. 2) Tómas, f. 10.5. 1956, kvæntur Jakobínu Önnu Olsen. Hún er látin. Börn þeirra eru Bjarnrún Magdalena, Guðlaugur og Anna Kristín. 3) Kristín, f. 5.7. 1962, gift Rúnari Má Bjarnasyni og börn þeirra eru Íris Hrönn, Bjarni Freyr, Hildur Jónína og Kristján Örn. 4) Grétar, f. 24.4. 1964, giftur Brynju Þóru Valtýsdóttur. Börn þeirra eru Emelía Ósk og Guðlaugur Ari. 5) Álfhildur, f. 14.6. 1968, sambýlismaður Hrafn Jónsson. Börn Álfhildar af fyrra hjónabandi eru Alexander og Erika. Afkomendur Guðlaugs og Hildar eru orðnir 53.
Guðlaugur byrjaði ungur að sinna skepnum og snúast í kringum áttæringinn Björgvin, sem faðir hans átti ásamt fleirum. Fjórtán ára fór hann að vinna í Hraðfrystihúsi Grindavíkur ásamt Snorra bróður sínum og voru þeir hvor á sinni vaktinni svo að sá sem var á frívakt gæti sinnt skepnunum. Guðlaugur gekk í barnaskólann í Grindavík. Foreldrar Guðlaugs fluttu til Keflavíkur árið 1945. Eftir að foreldrar hans fluttu til Keflavíkur fór Guðlaugur fljótlega að vinna við símalínur, síðan í byggingar-, hafnarvinnu o.fl. Guðlaugur lærði jarðsímatengingar og vann við það meðal annars á Akureyri, þar sem hann kynntist konunni sinni. Guðlaugur vann hjá Hamilton við að byggja upp símkerfið fyrir herinn. Eftir það fór hann að vinna við rafvirkjun hjá Guðbirni og seinna hjá Sigurvini. Guðlaugur tók svo við símstöðinni í Garði haustið 1956 og var símstöðvarstjóri þar til ársins 1970.
Guðlaugur stofnaði útgerðarfélagið Útvöru árið 1963 ásamt Erni Ingólfssyni og fleirum. Einnig stofnuðu þeir félagið Haga og Útey um bátana. Guðlaugur seldi sinn hlut og fór að vinna hjá Sandnámi Suðurnesja sem verkstjóri og seinna hjá Keflavíkurverktökum. Guðlaugur var svo á vörubílastöð Keflavíkur og var þar formaður um tíma og sat í stjórn Landssambands vörubílstjóra og átti sæti í samningarnefnd Landssambandsins. Eftir að Guðlaugur hætti á VBK sá hann um fiskflutninga af snurvoðarbátum um árabil. Síðustu árin sem hann var að vinna var hann að snúast í kringum byggingarfyrirtæki sonar síns og tengdasonar. Guðlaugur hætti að vinna árið 2007, þá 78 ára.
Útförin fór fram í kyrrþey að ósk hins látna.
Þá er faðir minn farinn á vit nýrra ævintýra. Farinn til mömmu og fjölskyldunnar frá Járngerðarstöðum í Grindavík. Sannarlega hafa orðið miklir og innilegir fagnaðarfundir í sólskinslandinu en á sama tíma er sorg og söknuður hér á jörðu. Þó ríkir djúp og einlæg gleði í hjörtum okkar fyrir þína hönd, því nú hefur þú loks fengið að sameinast mömmu eftir langa bið. Þú varst fyrir margt löngu tilbúinn að leggja í þína hinstu för hér á jörðu. Alltaf hafðirðu gaman af því að ferðast og kanna nýjar slóðir og ég veit að þú munt gera það líka á nýjum stað. Margs er að minnast frá þeirri löngu og dýrmætu ævi sem við höfum átt saman. Ég var svo lánsamur að hafa unnið með þér í mörg ár á mismunandi tímum, þar sem ég lærði margt af þér, enda varst þú bæði fjölhæfur og útsjónarsamur. Ætíð varstu tilbúinn til að hjálpa öllum á meðan heilsa og þrek leyfði. Fjölskyldan var þér allt og fóruð þið mamma ófáar ferðirnar heim til Grindavíkur á æskuslóðirnar með okkur krakkana og síðar tengdabörn og afkomendur þar sem okkur var sagt hvernig lífið í sveitinni gekk fyrir sig á þínum bernskuslóðum. Sögurnar af hundinum Loka sem var alltaf þér við hlið, sérstaklega þegar komið var myrkur, því hann vissi að þú varst hálfsmeykur í myrkrinu. Minnisstæð er sagan af því þegar þú og vinur þinn sáuð flugvélina lenda í hrauninu og voruð fyrstir á vettvang, auk margra fleiri sagna. Margar voru þær góðu stundirnar sem við áttum saman. Stundir þar sem þú rifjaðir upp minningar þínar frá fyrri tíð og ég ritaði jafnóðum niður frásagnir þínar um hvernig lífið og tilveran gekk fyrir sig á Járngerðarstöðum. Hve margt fé var á bænum, nöfn á kindum, kúm, hestum og svo margt fleira. Því miður byrjaði ég allt of seint að rita sögur þínar beint eftir þér á blað og þó ég eigi mikið niður ritað, þá veit ég að það er bara brot af því sem þú hafðir í gegnum tíðina sagt okkur frá. Þú ólst upp í sveit við sveitastörf sem mótuðu þig til framtíðar. Þar lærðirðu að vinna og sýna ábyrgð, samviskusemi og heiðarleika og síðast en ekki síst þá góðmennsku sem þú bjóst að alla tíð. Nú, þegar við kveðjum þig í hinsta sinn, er mér efst í huga þakklæti fyrir allt það sem þú og mamma hafið gert fyrir okkur Önnu og börnin okkar í gegnum tíðina og allar dýrmætu samverustundirnar okkar Önnu með ykkur mömmu. Sæll að sinni elsku pabbi.
PS. knúsaðu mömmu og Önnu fyrir mig.
Á kveðjustundu vöknar kvarm
tárin niður kinnar streyma
í hjartanu berum þungan harm
honum munum við aldrei gleyma
Þegar lífsins leiðir skilja
og langri ævi hefur náð
þá eru það minningarnar sem ylja
og öll þau gefnu góðu ráð.
Leynist gleði harmi í
löngum hefur þetta þráð
mömmu hittir nú á ný
enginn getur þér það láð
Nú hann heldur heim á leið
heim til Grindavíkur
þeirrar ferðar hann lengi beið
heimahaginn engan svíkur
(TSG)
Nú er pabbi okkar kominn í sumarlandið og við trúum því að mamma hafi tekið á móti honum opnum örmum ásamt foreldrum hans og öllum hans systkinum. Loksins fékk hann hvíldina sem hann þráði svo mikið enda hafði hann lifað langa ævi og flest af hans samferðafólki í lífinu horfið af braut. Hann pabbi var fæddur í Grindavík og var ávallt Grindvíkingur í hjarta sínu, þess vegna var það svo táknrænt að sama dag og hann kvaddi þessa jarðvist reið yfir mikill jarðskjálfti í Grindavík rétt eins og gamli bærinn hans hefði viljað kveðja með stæl þennan gamla Grindvíking sem eitt sinn hljóp léttur á fæti um götur Grindavíkur. Svo mikið unni hann gamla bænum sínum og landi að eftir var tekið. Hann pabbi var yndislegur maður, rólegur og yfirvegaður, dugnaðarforkur sem gerði allt það hann gat fyrir fjölskylduna sína. Sjaldan féll honum verk úr hendi, þessum dagfarsprúða manni, og margt lærðum við börnin hans af honum gegnum árin þar sem við fengum alltaf að stússa með pabba ef við vildum og taka þátt í hverju því verki sem hann innti af hendi hverju sinni.
Pabbi og mamma voru mikið reglufólk og höfðu heiðarleika og vinnusemi að leiðarljósi í lífi sínu. Af þeim gildum litaðist uppeldi okkar systkina ásamt því að standa alltaf við gefin loforð. Við vorum miklar pabbastelpur systurnar og höfðum unun af þegar hann sagði okkur sögur fyrir svefninn, sögur af því þegar hann var lítill drengur í Grindavík, af álfum og huldufólki sem bjuggu í hrauninu og hólunum allt í kringum bæinn sem hann ólst upp í, Járngerðarstaði. Eftir sögustund var ávallt farið með bænirnar, þeim mátti alls ekki sleppa.
Pabbi var mikill náttúruunnandi og þekkti hann flesta dali, fjöll, ár og vötn með nafni og þreyttist aldrei á að segja okkur systkinum nöfnin á öllu því sem var í umhverfi okkar, sér í lagi var nafnaupptalningin á ferðalögum sem farin voru í æði mörg á hverju sumri. Á þeim ferðalögum lærðum við að unna og virða landið okkar ásamt því að kunna að meta alla þá fegurð sem landið hefur upp á að bjóða. Einnig var ávallt gripið í að syngja skátalögin; þar sem pabbi var skáti voru þau efst á sönglistanum og mikið fannst okkur þessar stundir ljúfar.
Það sem við vorum heppnar að eiga ykkur sem foreldra elsku pabbi okkar og það sem við munum sakna þín mikið, rétt eins og við höfum saknað hennar mömmu, viltu kyssa hana frá okkur. Takk fyrir allt og sjáumst síðar elsku pabbi okkar.
Kveðja,
Kristín og Álfhildur.
Við afi höfum í gegnum mína ævi átt óteljandi góðar stundir og minningarnar eru því margar. Ég á þó nokkrar sem standa meira upp úr en aðrar. Ein þeirra er þegar ég kem fram eldsnemma um morgun, þá nýorðin fjögurra ára. Ég fann hvergi foreldra mína en sá afa sofandi í sófanum. Ég vek hann og spyr hvort hann viti hvað hefur orðið af foreldrum mínum. Hann tekur mig þétt í arma sína og hvíslar ofur blíðlega til mín að þau hafi farið á sjúkrahúsið að eiga litlu systur mína.
Stundum urðum við systkinin svo heppin að fá hann til að svæfa okkur á kvöldin, þá fengum við að heyra sögur um álfa, tröll og aðrar úr hans barnæsku.
Afa er og verður sárt saknað, þó svo að ég viti að vel hafi verið tekið á móti honum. Elsku afi mundu mig, ég man þig.
Nú góður maður fallinn er frá.
Veit ég hann hvílir ástinni sinni einu
hjá.
Ó elsku afi, faðminn þinn blíðan ég
þrái samt að fá.
Þú varst sá sem hafðir alltaf óbilandi
trú mér á.
Saman við tvö í hestaferðirnar fórum,
við lentum þar í ævintýrum,
misgóðum.
Þú veittir mér hlýju og yl, hughreystir
mig þegar ég fann sem mest til.
Manstu afi kvæðin sem þú sagðir mér
frá?
Þau voru langflest um álfa og tröll!
Mikið væri gott að fá að heyra þau einu sinni enn aftur öll.
Þín dótturdóttir,
Íris Hrönn Rúnarsdóttir.