Fasteignafélagið Reginn hagnaðist um 2,1 milljarð króna á öðrum ársfjórðungi þessa árs, samanborið við hagnað upp á 1,8 milljarða á sama tíma í fyrra.

Fasteignafélagið Reginn hagnaðist um 2,1 milljarð króna á öðrum ársfjórðungi þessa árs, samanborið við hagnað upp á 1,8 milljarða á sama tíma í fyrra. Hagnaður félagsins á fyrri helmingi ársins nemur tæpum 3,7 milljörðum króna en var á sama tíma í fyrra um 3,2 milljarðar króna. Tekjur félagsins á öðrum ársfjórðungi námu tæpum þremur milljörðum en voru í fyrra um 2,6 milljarðar. Bókfært virði eigna félagsins var í lok tímabilsins um 174 milljarðar króna, en matsbreyting á tímabilinu var um 6,3 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall félagsins er 30,5%.

Annað fasteignafélag, Reitir, hagnaðist um 2,6 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 860 milljóna króna hagnað á sama tíma í fyrra. Leigutekjur félagsins, að frádregnum kostnaði námu um 2,4 milljörðum króna og jukust um 21% á milli ára. Bókfært virði eigna félagsins var í lok tímabilsins um 171,5 milljarðar króna en matsbreyting á tímabilinu var um 5,8 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall Reita var 34,2%. Afkomuspá félagsins var uppfærð samhliða birtingu uppgjörs í gær og er gert ráð fyrir um níu milljarða króna rekstrarhagnaði á árinu.