Velgengni Allt small saman hjá kylfingnum Kristjáni Þór Einarssyni í sumar, sem skilaði honum Íslandsmeistaratitli, stigameistaratitli GSÍ og bestu frammistöðu ferils Kristjáns til þessa er hann lék á 18 höggum undir pari.
Velgengni Allt small saman hjá kylfingnum Kristjáni Þór Einarssyni í sumar, sem skilaði honum Íslandsmeistaratitli, stigameistaratitli GSÍ og bestu frammistöðu ferils Kristjáns til þessa er hann lék á 18 höggum undir pari. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Golf Gunnar Egill Daníelsson gunnaregill@mbl.is Kristján Þór Einarsson, kylfingur úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar, varð um þar síðustu helgi Íslandsmeistari í golfi er leikið var í Vestmannaeyjum. Um var að ræða annan Íslandsmeistaratitil Kristjáns Þórs á ferlinum og hans fyrsta í 14 ár, en sá fyrri vannst árið 2008, einnig í Vestmannaeyjum.

Golf

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Kristján Þór Einarsson, kylfingur úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar, varð um þar síðustu helgi Íslandsmeistari í golfi er leikið var í Vestmannaeyjum. Um var að ræða annan Íslandsmeistaratitil Kristjáns Þórs á ferlinum og hans fyrsta í 14 ár, en sá fyrri vannst árið 2008, einnig í Vestmannaeyjum.

Um liðna helgi fylgdi Kristján Þór Íslandsmeistaratitlinum í ár eftir með magnaðri spilamennsku í Korpubikarnum á Korpúlfsstaðavelli, síðasta stigamóti Golfsambands Íslands á árinu. Þar vann hann frækinn sigur með því að leika á 198 höggum, 18 höggum undir pari vallarins.

Kristján Þór varð auk þess stigameistari GSÍ á árinu og er það í annað sinn sem hann fagnar þeim titli. Kristján Þór fékk 4.017 stig í fimm mótum af sex og sigraði þannig með talsverðum yfirburðum.

„Tilfinningin er mjög góð. Ég get ekkert lýst þessu af því að maður fór einhvern veginn ekki inn í þetta sumar með neinar væntingar aðrar en að hafa gaman af þessu. Það var virkilega gaman að þetta hafi allt saman endað svona,“ sagði Kristján Þór í samtali við Morgunblaðið.

Besta spilamennska ferilsins

Spurður hvernig það væri að verða Íslandsmeistari með 14 ára millibili sagði hann: „Það er bara mjög skemmtilegt. Frá því að ég vann þetta árið 2008 var maður í baráttu um sigurinn í um 4-5 ár á eftir þannig að það var bara virkilega sætt að loka þessu svona á sama stað, á fjölskyldustaðnum, með fjölskylduna í kringum sig. Þetta er bara virkilega gaman.“

Um liðna helgi lék Kristján Þór, sem áður segir, á 18 höggum undir pari í Korpubikarnum og sagði hann engan vafa á því að um væri að ræða bestu spilamennsku sína í sumar og gott betur. „Já alveg klárlega og ekkert bara í sumar. Ég held að þetta hafi verið mitt besta golfmót á mótaröðinni á Íslandi frá upphafi. Þetta einhvern veginn small allt saman. Gott skor og góð spilamennska.“

Hvöttu hvor annan áfram

Axel Bóasson, úr Golfklúbbnum Keili, lék sömuleiðis frábærlega í Korpubikarnum en þurfti að sætta sig við annað sætið eftir að hafa leikið á 200 höggum, 16 höggum undir pari. Þrátt fyrir að vera svona gífurlega langt fyrir neðan par Korpúlfsstaðavallarins sagði Kristján Þór alls enga þörf á að lækka parið á honum enda hafi hann og Axel einfaldlega leikið frábærlega.

„Það þarf náttúrlega ekkert að lækka parið á vellinum. Við spiluðumbara báðir rosalega gott golf. Þó svo ég hafi farið með fína forystu inn í lokahringinn þá sýndi Axel alveg að hann ætlaði ekkert að gefa manni þetta. Það var rosalega gaman að spila með honum í gær [í fyrradag].

Eins og það er nú alltaf gaman að spila með honum var það einhvern veginn skemmtilegra í gær, þó svo að hann hafi náð að jafna mig eftir tíu holur og svo komist í forystu eftir tólf holur. Þá var hann kominn með átta fugla eða svo og restin pör. Það var svona aðeins rólegra yfir golfinu hjá mér en þetta var ótrúlega gaman í alla staði. Við hvöttum hvor annan áfram, hrósuðum fyrir góð högg eins og maður gerir venjulega.“

Léttir utan vallar

Spurður hvað hafi átt stærstan þátt í velgengni Kristjáns Þórs í sumar stóð ekki á svörum: „Léttir. Það er mikið búið að vera í gangi utan golfvallarins síðastliðin þrjú ár og það var loksins að taka enda allt saman. Það voru engar áhyggjur fyrir utan golfvöllinn og ég bara naut mín mjög vel.

Svo var virkilega gott að fá systur mína í heimsókn. Hún býr í Noregi og var með mér í Eyjum allan tímann. Þessi vika í faðmi fjölskyldunnar í Eyjum var einstök. Það er eins og eitthvað hafi breyst eftir þá dvöl.

Þetta er fjölskyldumál. Maður er búinn að vera í réttarsölum og svona. Þetta var barnaverndarmál sem endaði í forsjárdeilu en því er nánast lokið núna. Þetta tók rosalega mikla orku frá manni, hugurinn var ekki við golf,“ útskýrði hann nánar.

Ætlar að keppa sjaldnar

Þótt keppnistímabilinu sé formlega lokið á Íslandi mun Kristján Þór áfram hafa augun opin fyrir opnum mótum næstu vikurnar. Samtímis hyggst hann í auknum mæli einbeita sér að dagvinnu sinni.

„Tímabilinu er lokið á stærri mótum. Ef það eru einhver skemmtileg opin mót fram undan og veðurspáin þokkaleg fer maður bara að leika sér í golfi. Nú tekur vinnan alfarið við. Ég er að vinna hjá byggingafélaginu Bakka og það er alveg nóg að gera hér,“ sagði hann.

Kristján Þór kvaðst ekki vera byrjaður að spá í næsta keppnistímabil hér á landi en að hann búist við því að keppa sjaldnar næsta sumar. „Nei, ég er ekkert farinn að spá í það. Maður er bara að njóta þess að spila golf eins og staðan er akkúrat núna.

Ég var búinn að segja við sjálfan mig fyrr í sumar að ég ætlaði að minnka þetta töluvert næsta sumar af því að núna eru krakkarnir komnir á fullt í fótbolta og líka í golfi þannig að maður fer að minnka þetta.“

Börnin í forgangi

Börn hans munu vera í forgangi á næsta tímabili, sem honum finnst sjálfsagt mál. „Ef mót hjá mér stangast á við mót hjá þeim, eru um sömu helgar, þá fylgir maður þeim á mótin frekar en að spila sjálfur.

Þetta er engin fórn því maður er búinn að vera í þessu það lengi að nú spilar maður bara þegar maður getur og nýtur þess meira að fylgjast með krökkunum vaxa og dafna í sínum íþróttum,“ sagði Kristján Þór að lokum í samtali við Morgunblaðið.