Blönduós Íslenski fáninn blaktir í hálfa stöng um allan bæ, áþreifanlegt tákn sorgarinnar sem yfir grúfir.
Blönduós Íslenski fáninn blaktir í hálfa stöng um allan bæ, áþreifanlegt tákn sorgarinnar sem yfir grúfir. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Andrés Magnússon andres@mbl.is Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir hug landsmanna allra vera hjá þeim sem eiga um sárt að binda á Blönduósi og í Húnabyggð, þau voðaverk hafi snortið alla landsmenn. Jafnframt telur hún atburðina kalla á frekari umfjöllun stjórnvalda.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir hug landsmanna allra vera hjá þeim sem eiga um sárt að binda á Blönduósi og í Húnabyggð, þau voðaverk hafi snortið alla landsmenn. Jafnframt telur hún atburðina kalla á frekari umfjöllun stjórnvalda.

„Þjóðin öll er slegin yfir þessum hræðilegu atburðum, þessu voðaverki sem var framið um helgina,“ segir Katrín í samtali við Morgunblaðið. Þau hafi vakið sterk hughrif hjá hverjum manni. „Ég held satt að segja að við höfum öll tárast við að hlusta á [Guðmund Hauk Jakobsson] forseta sveitarstjórnar Húnabyggðar á sunnudagskvöld, þegar hann flutti yfirlýsingu fyrir hönd sveitarstjórnarinnar og íbúa og kallaði eftir stuðningi þjóðarinnar.“

Katrín er ekki í nokkrum vafa um hvernig þeim stuðningi er háttað. „Við finnum það hvað þessi atburður hefur skekið samfélagið djúpt og það á ekki aðeins við um Húnabyggð, það á við um okkur öll,“ segir forsætisráðherra og vill svara bóninni beint og ekki aðeins í eigin nafni.

„Ég held ég geti alveg leyft mér að segja það fyrir hönd þjóðarinnar að okkar hugur, allra landsmanna, er hjá þeim sem eiga um sárt að binda eftir þetta voðaverk og ekki síður öllum íbúum svæðisins,“ segir Katrín.

„Við hugsum til þeirra og sendum þeim okkar bestu strauma.“

Frekari umræða í framhaldinu

Forsætisráðherra telur málið kalla á frekari umræðu.

„Eðlilega vakna spurningar, sem við þurfum að ræða á hinu pólitíska sviði í framhaldinu eins og Morgunblaðið hefur fjallað um varðandi vistunarúrræði og annað slíkt,“ segir forsætisráðherra. Þau mál eru á forræði þriggja ráðuneyta, dómsmálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis, sem þurfa að stilla saman strengi sína og gæta að skörun, en þar vegast á margvíslegir hagsmunir, líkt og persónufrelsi einstaklingsins og öryggi borgaranna, sem erfitt getur reynst að samræma í vandasömum málum.

Forsætisráðherra gerir ráð fyrir að yfir þau efni verði farið á ríkisstjórnarfundi í dag. „En fyrst og fremst er þetta hryllilegur harmleikur, sem ristir djúpt,“ segir Katrín að lokum.

Höfðu áhyggjur af manninum

• Formaður Skotfélagsins Markviss ræddi við lögregluþjón á Blönduósi vegna mannsins • Lögregluþjónninn hafi lengi þekkt árásarmanninn og ekkert aðhafst Sólrún Lilja Ragnarsdóttir

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

Stjórn Skotfélagsins Markviss á Blönduósi hafði áhyggjur af andlegri heilsu skotárásarmannsins sem réðst inn á heimili hjóna á Blönduósi og varð öðru þeirra að bana. Ræddi formaður félagsins um áhyggjur sínar við lögregluþjón seint á síðasta ári. Sá lögregluþjónn hafði lengi þekkt manninn og var ekki talin ástæða til að aðhafast í málinu, að sögn lögreglustjórans á Norðurlandi.

Engin formleg tilkynning hafi borist frá Markviss og að um óformlegt samtal hafi verið að ræða milli formanns félagsins og lögregluþjónsins.

Tveir létust og einn særðist eftir skotárás er varð á Blönduósi á sunnudagsmorgun. Árásarmaðurinn braust inn í hús fyrrverandi vinnuveitanda síns samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, og myrti eiginkonu hans. Sonur hjónanna er talinn hafa ráðið árásarmanninum bana. Maðurinn liggur alvarlega særður á sjúkrahúsi eftir að hafa orðið fyrir skoti.

Lögreglan ræddi við manninn

Árásarmaðurinn keppti fyrir hönd skotfimifélagsins á árum áður og gegndi trúnaðarstörfum fyrir félagið. Fram kemur í yfirlýsingu Markviss að undanfarin ár hafi farið að halla undan fæti hjá manninum og hann dregið sig mikið til hlés í starfi félagsins. Á síðasta ári hafi hann svo sagt sig frá öllum störfum í þágu Markviss og loks úr félaginu.

„Í ljósi samskipta milli umrædds aðila og stjórnar Markviss í nóvember síðastliðnum voru yfirvöld látin vita af áhyggjum okkar af andlegri heilsu viðkomandi eins og okkur ber skylda til,“ segir í yfirlýsingunni.

Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra, sagði í samtali við mbl.is í gær að lögreglan hefði rætt við árásarmanninn í kjölfar samtals hennar við formann skotfélagsins og ekki talið efni til að aðhafast frekar í málinu.

„Það er þannig í litlu samfélagi, þar sem allir þekkja alla, að þessi formaður skotfélagsins kom að máli við lögregluþjón hér á Blönduósi og lýsti samskiptum milli félagsins og árásarmannsins,“ segir Birgir.

Í framhaldinu hafi viðkomandi lögregluþjónn rætt við árásarmanninn og ekki þótt ástæða til þess að aðhafast neitt á þeim tíma. Málið var heldur ekki skráð sérstaklega.

„Þetta er heimamaður og það eru tengsl á milli. Hér þekkist fólk. Þessi lögreglumaður sem um ræðir var búinn að þekkja þennan mann mjög lengi og mat það þannig að það væri ekki ástæða til að aðhafast neitt,“ segir Birgir.

„Það var svo fyrr í sumar sem það var komið annað hljóð í strokkinn, þannig að það var talin ástæða til að taka af honum skotvopnin.“

Birgir ítrekar að málið hafi aldrei komið inn á borð til sín og hann hafi ekki þekkt til mannsins.

„Ég hafði ekki hugmynd um hver þessi maður var fyrr en ég tók ákvörðun um það að afturkalla hjá honum skotvopnaleyfið,“ sagði Birgir. Maðurinn var þó enn með leyfið þegar árásin var framin.

Eiga skilið stuðning og samúð

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands sendi íbúum Blönduóss kveðju vegna voðaatburðarins þar um nýliðna helgi.

„Í bréfi til Guðmundar Hauks Jakobssonar, forseta sveitarstjórnar Húnabyggðar, segir að á þessari sorgarstundu hugsi Íslendingar til heimafólks þar og allra sem nú eiga skilið stuðning og samúð. Forseti bað forseta sveitarstjórnar einnig að koma á framfæri þökkum til allra sem sinnt hafa löggæslu, hjúkrun og áfallahjálp á vettvangi,“ segir í tilkynningu á heimasíðu forsetans.

Lögregla segir að rannsókn á skotárásinni miði vel

Lögreglan á Norðurlandi eystra segir í tilkynningu að rannsókn á skotárásinni á Blönduósi miði vel. Til rannsóknar sé meðal annars hvernig andlát skotmannsins bar að en talið er að réttarkrufning muni leiða dánarorsök í ljós.

Þá segir lögreglan að líðan mannsins sem varð fyrir skoti og liggur á sjúkrahúsi sé eftir atvikum en ljóst að áverkar hans séu alvarlegir.

Sjúkrahúsið á Akureyri birti yfirlýsingu í gær þar sem segir að ekki verði veittar upplýsingar um skjólstæðinga sjúkrahússins og vísar á lögreglu um það. Starfsfólk sé harmi slegið yfir atburðum helgarinnar og votti aðstandendum og öllum í samfélaginu dýpstu samúð á erfiðum tímum.