Ómissandi Úkraínustríið gæti valdið skorti á gasi víða í Evrópu.
Ómissandi Úkraínustríið gæti valdið skorti á gasi víða í Evrópu. — AFP / John MacDougal
Stjórnvöld í Þýskalandi segja að þeim gangi hraðar en vænst var að safna gasbirgðum fyrir veturinn.

Stjórnvöld í Þýskalandi segja að þeim gangi hraðar en vænst var að safna gasbirgðum fyrir veturinn. Átti að fylla 85% af gasgeymum landsins í október en í viðtali við Der Spiegel greindi fjármálaráðherrann Robert Habeck frá því að útlit væri fyrir að settu marki yrði náð snemma í september.

Mjög hefur dregið úr innflutningi Þjóðverja á rússnesku gasi og segir Der Spiegel að í ágústmánuði hafi aðeins 9,5% af því gasi sem Þýskaland flutti inn komið frá Rússlandi. Á sama tíma í fyrra var hlutfallið 55%.

Samkvæmt neyðaráætlun stjórnvalda átti að nýta 75% af geymslugetu þýska jarðgaskerfisins þann fyrsta september en nú þegar eru gastankar landsins 82,2% fullir.

Orkumál Evrópu eru þó enn í uppnámi. Bárust þær fréttir frá Sviss um helgina að hópur stjórnmálamanna hygðist reyna að snúa þeirri stefnu stjórnvalda þar í landi að loka öllum fimm kjarnorkuverum landsins. Líkt og í Þýskalandi olli slysið í Fukushima titringi í Sviss og var lokun í áföngum ákveðin árið 2017.

Á þriðjudag ætlar svissneska ríkisstjórnin að kynna nýjar aðgerðir vegna yfirvofandi orkuskorts vegna stríðsins í Úkraínu. Er búist við að neytendur og fyrirtæki verði hvött til að leggja sitt af mörkum til að draga úr orkunotkun í landinu. ai@mbl.is