Skagafjörður Flugvöllurinn á Sauðárkróki er á Borgarsandi, rétt austan við bæinn, þangað sem er horft á þessari mynd sem tekin er af Nöfunum.
Skagafjörður Flugvöllurinn á Sauðárkróki er á Borgarsandi, rétt austan við bæinn, þangað sem er horft á þessari mynd sem tekin er af Nöfunum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Auðvitað á faglegt mat á að ráða því hvar varavöllur millilandaflugs Íslendinga skuli vera. Í því efni mælir margt með Sauðárkróki,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri í Skagafirði. Tilefnið er viðtal við Hjörleif Jóhannesson, flugstjóra hjá Icelandair, í Morgunblaðinu sl. laugardag. Þar lýsir hann þeirri skoðun sinni að styrkja eigi Alexandersflugvöll á Sauðárkróki í sessi. Eldgos á Reykjanesskaga ráði því að hugmyndir um flugvallarbyggingu í Hvassahrauni séu að renna út í sandinn. Nýrra kosta þurfi að leita.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Auðvitað á faglegt mat á að ráða því hvar varavöllur millilandaflugs Íslendinga skuli vera. Í því efni mælir margt með Sauðárkróki,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri í Skagafirði. Tilefnið er viðtal við Hjörleif Jóhannesson, flugstjóra hjá Icelandair, í Morgunblaðinu sl. laugardag. Þar lýsir hann þeirri skoðun sinni að styrkja eigi Alexandersflugvöll á Sauðárkróki í sessi. Eldgos á Reykjanesskaga ráði því að hugmyndir um flugvallarbyggingu í Hvassahrauni séu að renna út í sandinn. Nýrra kosta þurfi að leita.

Á Sauðárkróki er um tveggja kílómetra löng flugbraut, sem styrkja þarf og útbúa flughlöð ef þotur eiga að geta farið þar um. Einnig þyrfti að styrkja ýmsa innviði aðra, svo sem byggja stærri flugstöð, efla slökkvilið og fleira. Stóri punkturinn í málinu er hins vegar sá, eins og Hjörleifur Jóhannsson bendir á, að yfirleitt er snjólétt í Skagafirði og veðrátta yfirleitt á röngunni miðað við það sem gerist sunnan heiða. Þá sé Skagafjörður breiður og víður og fjöll í firðinum fjarri aðflugslínu að Sauðárkróki.

Eldgos ógna ekki

„Við hér í sveitarfélaginu höfum oft bent á kosti flugvallarins okkar og höldum því áfram. Sjónarmið Hjörleifs eru ekki ný tíðindi, heldur hafa margir sérfræðingar haldið svipuðum rökum á lofti,“ segir Sigfús Ingi. Skemmst er að minnast bókunar um varaflugvallarmál í byggðaráði Skagafjarðar frá því fyrr í þessum mánuði. Þar er vakin athygli á hagstæðum vindum með tilliti til flugs. Þá er bent á að Skagafjörður sé utan virks eldsumbrotabeltis og steðji ekki ógn að vellinum af þeim sökum. Þá sé þjóðvegurinn milli Sauðárkróks og Reykjavíkur fær flesta daga. Aukheldur sé mun skemmra þaðan suður en frá Akureyri eða Egilsstöðum, hvar varaflugvellir landsins eru nú.

„Eldgosin hafa gjörbreytt öllum viðhorfum um flugvallamál. Nýir valkostir hljóta að verða skoðaðir og þar kemur Sauðárkrókur sterkur inn. Hér fyrir er völlur sem þarf vissulega að styrkja en margt að byggja á. Ákveðinn grunnur er til staðar og í því ætti að felast sparnaður,“ segir Sigfús Ingi.

Völlur kenndur við rektor

Flugvöllurinn á Sauðárkróki er á Borgarsandi, skammt fyrir austan bæinn, kenndur við Alexander Jóhannesson háskólarektor (1888-1865). Hann var frumkvöðull í flugmálum Íslendinga og lagði þar margt til. Upphaflega var gerður flugvöllur á Króknum árið 1949, en annar útbúinn síðar og tekinn í notkun 1976. Áætlunarflug, sem nú er aflagt, var lengi á þennan völl. Nú nýtist völlurinn fyrst og fremst fyrir leigu- og sjúkraflug og svo einkaflugið.