Safnari Tryggvi Blumenstein á sýningunni með gínu í hermannabúningi.
Safnari Tryggvi Blumenstein á sýningunni með gínu í hermannabúningi. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Mosfellssveitin var hernumið svæði enda þótt nú sé eðlilega farið að fenna yfir þá sögu.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Mosfellssveitin var hernumið svæði enda þótt nú sé eðlilega farið að fenna yfir þá sögu. Mörgum kemur því á óvart að sjá muni og myndir af bænum sínum þegar hér bjuggu þúsundir hermanna í stórum braggahverfum,“ segir Tryggvi Blumenstein. Framlag hans, á bæjarhátíðinni Í túninu heima í Mosfellsbæ um helgina, var sýning á ýmsu sem tengist seinni heimstyrjöldinni. Á stríðsárunum voru þar þúsundir hermanna í kömpum við Álafoss, Reyki og Úlfarsfell. Flest mannvirki þessa tíma voru fjarlægð í stríðslok, þó á óbyggðum svæðum megi enn sjá sökkla og gólfplötur, hvar eitt sinn stóðu skúrar og skemmur.

„Fólki finnst gaman að sjá stríðsáramyndir og bera þær saman við umhverfi dagsins í dag, þar sem nú eru til dæmis falleg íbúðarhús,“ útskýrir Tryggvi.

Áhugann á stríðssögunni og minjum henni tengdum segir Tryggvi hafa vaknað strax í æsku þegar hann átti heima í vesturbæ Reykjavíkur. Gamlir öskuhaugar, þar sem nú er Seilugrandi, hafi verið ævintýraheimur og þar stundum fundist byssukúlur og smámunir frá stríðsárunum. Þessu hafi hann haldið til haga og fleira bæst við á seinni árum.

„Spyrjast fór út að ég hefði mikinn áhuga á þessari sögu. Fólk fór því að gauka að mér ýmsum smámunum frá stríðsárunum. Ótrúlega margt leyndist í kjöllurum og skúrum; munir til dæmis úr dánarbúum. Í gegnum netið hef ég síðan fundið og keypt ýmsa muni sem stríðinu tengjast, til dæmis búninga og byssur,“ segir Tryggvi. „Gamall grammafónn, sem notaður var til að spila hljómplötur í herskála, er einn af þeim gripum sem vakið hefur mikla athygli á sýningunni hér og þá sérstaklega meðal krakkanna. Einnig hermannatjöld og mótorhjól.“

Barist á banaspjót

Tryggvi segir ótrúlega marga hafa kynnt sér sögu seinna stríðsins; þess tíma þegar barist var á banaspjót í Evrópu í átökum sem náðu alla leið til Íslands. Hér á landi voru tugir þúsunda hermanna, fyrst Bretar en síðar Bandaríkjamenn. Og það er einmitt saga þeirra hersveita sem Tryggvi leggur sig eftir. Hann hefur tvívegis áður sýnt munasafn sitt í Mosfellsbænum og einu sinni á Selfossi og er áfram um að miðla þessari sögu. Slíkt gerir hann á sýningum og eins á vefsíðu sinni, á slóðinni www.fbi.is