Þuríður Pálsdóttir söngkona og tónlistarkennari fæddist í Reykjavík 11. mars 1927. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 12. ágúst 2022.

Foreldrar hennar voru Páll Ísólfsson tónskáld og organisti og Kristín Norðmann píanókennari. Albræður Þuríðar voru Jón Norðmann og Einar. Systir hennar samfeðra er Anna Sigríður. Stjúpsystur Þuríðar, dætur Sigrúnar Eiríksdóttur seinni konu Páls, voru Hjördís, Erla og Hildegard Dürr.

Þuríður giftist 1946 Erni Guðmundssyni framkvæmdastjóra, f. 1921, d. 1987. Foreldrar hans voru Guðmundur Finnbogason og Laufey Vilhjálmsdóttir. Börn Þuríðar og Arnar eru: 1) Kristín, gift Hermanni Tönsberg. Börn þeirra: a) Einar, sem á dæturnar Hildigunni og Kolku. b) Þuríður. c) Ingibjörg. d) Erna, gift Nick Candy. Þau eiga börnin Kristínu Lóu, Finn Hermann, Óskar Kristófer og Snorra James. e) Örn, sem kvæntur er Daríu Sól Andrews. Fyrir hjónaband átti Hermann þrjú börn, þau Kristínu Björgu sem er látin, Andra og Daggrós Þyrí. 2) Guðmundur Páll. Hann á soninn Jónas. Eiginkona Guðmundar Páls er Guðrún Guðlaugsdóttir. Börn hennar eru Ragnheiður, Ásgerður, Móeiður, Kristinn, Guðlaugur og Sigríður Elísabet. 3) Laufey, gift Birni Kristinssyni. Börn þeirra eru: a) Kristinn Örn, kvæntur Berglindi Ósk Einarsdóttur, sonur þeirra er Áki Berg. b) Helga Sóley. Fyrir hjónaband átti Örn Guðmundsson soninn Gunnar Örn.

Þuríður Pálsdóttir lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Austurbæjar 1943 og stundaði söng- og tónlistarnám á Ítalíu á sjötta áratugnum hjá Luigi Algergoni og Linu Pagliughi. Hún lauk tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1967 og stundaði nám í píanóleik og óperusöng. Þuríður var í hópi frumkvöðla í söngkvennastétt hér og söng fjölmörg óperu- og óperettuhlutverk, í Þjóðleikhúsinu, með Sinfóníuhljómsveit Íslands, hjá Leikfélagi Reykjavíkur og Íslensku óperunni og í útvarpi og sjónvarpi. Hún hélt fjölda einsöngstónleika, stjórnaði Árnesingakórnum í Reykjavík og var yfirkennari Söngskólans frá stofnun hans 1973 þar til hún lét af störfum fyrir aldurs sakir árið 2001. Þar kenndi hún söng, kennslufræði og nútímatónlistarsögu og stýrði óperudeild skólans. Þuríður var formaður Félags íslenskra einsöngvara um árabil og sat í þjóðleikhúsráði frá 1978 og varð formaður þess 1983. Hún var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík 1991 til 1995. Þuríður var sæmd riddarakrossi fálkaorðunnar 1982, Cavalieri dell Ordine Al Merito della Repubblica Italiana 1987; silfurmerki Félags íslenskra leikara og hlaut einnig viðurkenningu frá Íslensku óperunni fyrir þrjátíu ára starf á óperusviði 1983. Hún hlaut heiðursverðlaun Grímunnar árið 2008 fyrir merkt ævistarf í tónlist. Ævisaga Þuríðar, Líf mitt og gleði, sem Jónína Michaelsdóttir skráði, kom út 1986.

Útför Þuríðar fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 29. ágúst 2022, kl. 13.00. Útförinni verður streymt á streyma.is.

„Þú þarft ekkert að kynna mig fyrir henni, ég hef þekkt til hennar frá því hún var lítil,“ sagði Þuríður Pálsdóttur við son sinn þegar hann leiddi okkur Níní saman sem verðandi tengdamæðgur í fyrsta skipti. Það voru orð að sönnu. Pabba minn þekkti Níní frá unglingsárum. Móðursystur minni, Guðmundu Elíasdóttur, kynntist Níní ekki löngu síðar sem söngsystur og vinkonu. Móður mína og ömmur mínar báðar þekkti Níní líka og Ásgerði dóttur minni kenndi hún söng áður en hún hélt til London til framhaldsnáms.

Allt þetta var mér þó ekki í huga þegar ég mætti sem blaðamaður Morgunblaðsins í Vatnsholtið vorið 1994 til þess að taka viðtal við frú Þuríði Pálsdóttur um lýðveldishátíðina 1944, þar sem hún var ásamt Erni Guðmundssyni, síðar eiginmanni sínum, ung og ástfangin. Hún tók á móti mér á heimili sínu, gaf mér rjómatertu sem hún hafði bakað og ræddi við mig eins og við hefðum þekkst alla tíð. Fyrir mér var þetta skemmtileg stund og viðræður okkar um lýðsveldishátíðina gefandi og gott efni.

Svo var það í byrjun árs 1996 að ég giftist Guðmundi Páli, syni Þuríðar. Í stuttu máli tók hún mér og börnum mínum sex tveim höndum. Fljótlega urðum við Níní nánar sem tengdamæðgur og vinkonur eftir að hún slasaðist og ég aðstoðaði hana meðan hún var að jafna sig.

Héraðsbrestur er það kallað þegar máttarstólpar samfélaga hverfa úr þessu jarðlífi. Þannig er mér innanbrjósts núna þegar Níní tengdamamma er okkur horfin. Hún skilur eftir sig svo stórt skarð. Níní hafði allt það til að bera sem gerir eina manneskju ógleymanlega. Hún var fjölgáfuð, skemmtileg og falleg. Stór í sniðum og höfðingleg. „Það er enginn einn sem á hana Níní að,“ sagði Gunnar Eyjólfsson leikari þegar við drukkum einu sinni saman kaffi og ræddum meðal annars um feril tengdamömmu. Hún og Gunnar voru samtíða sem ungt listafólk í London. Svo sannarlega var þetta rétt mat hjá Gunnari. Í blíðu sem stríðu studdi hún þá sem hún tók undir sinn verndarvæng og sá vængur var skjólgóður og hlýr. Allt sem hún gaf og allt sem hún var mér og mínum þakka ég hér. Guð blessi minningu elskulegrar tengdamóður minnar, hennar Níníar, hennar frú Þuríðar. Það er lífslán að kynnast manneskju af hennar gerð. Sem er yfir og allt um kring, öllum sínum skjól og skjöldur. Ég minnist með söknuði okkar skemmtilegu viðræðna um skáldskap, ættarsögur, sönglist, pólitík og hvaðeina. Heilsubresti sínum þungbærum tók Níní með sama stórhug og æðruleysi og öllu öðru sem að höndum bar. Gæska hennar gleymist ekki né heldur hve úrræðagóð hún var þegar vanda bar að höndum. Mér fannst alltaf lífið hafa verið mér svo gott þegar ég kom til hennar og hún brosti til mín og gladdist við komu mína. Jafnvel í veikindum sínum gaf hún og gaf. Guð geymi þig Níní mín og þakka þér fyrir allt og allt. Ég syrgi þig og það gerir allt þitt fólk. Harmur barna þinna er mikill – fyrir þau hefðir þú vaðið eld og brennistein. Þuríður Pálsdóttir var mikilhæf kona, frumkvöðull í sönglist Íslendinga en ekki síst frábær ættmóðir. Við erum öll fátækari við fráfall hennar.

Guðrún Guðlaugsdóttir.

Þegar horft er yfir ævi tengdamóður minnar, Þuríðar Pálsdóttur, verður til margbrotið handrit á ólíkum sviðum mannlífsins. Sem yfirburðasöngkona með mikinn eldmóð varð hún sá brautryðjandi og fyrirmynd sem sönglistin þurfti á að halda. Hún ruddi, ásamt einstökum hópi söngfólks, farveg sem íslensk sönglist býr að í dag. Arfur sem okkur ber að hlúa að, því í gegnum sköpun og listir náum við að skilja hvaðan við komum og á hvaða vegferð við erum.

En þrátt fyrir að Þuríður væri fyrir flestum þekkt sem afburðasöngkona var hún ætíð fyrir mér birtingarmynd kærleika og réttlætiskenndar sem hvort um sig sýndi hennar djúpa anda. Öll hennar nærvera og hugsun var ofin þeim þráðum. Umburðarlyndi hennar og hjálpsemi var einstök, hvort heldur sem var í starfi sem kennari eða hvað viðkom vinum og ástvinum.

Hún braut glerþök þegar kom að ýmsum baráttumálum fyrir utan að vera fyrirmynd; metnaðarfull og glæsileg kona, hæfileikabúnt. Gegnumbrot Þuríðar í ræðu og riti um breytingaskeið kvenna var ótvírætt og kom á réttum tíma þegar konur voru brjótast fram fyrir auknu jafnrétti, svo og óeigingjarnt framlag hennar til leiðréttingar á ósanngjörnum eignasköttum á íbúðarhúsnæði. Þetta eru aðeins tvö af mörgum málefnum sem enduróma persónuleika hennar.

En lífið gefur og tekur. Lengi átti Þuríður við líkamleg veikindi að stríða sem ágerðust þegar árin liðu. En sama hvert áfallið varð þá bognaði hún aldrei, heldur óx inn í nýjar aðstæður og sýndi að andinn getur sigrað efnið. Yfirvann sérhverja áraun og púslaði sér saman eins og meistari í japanskri kintsugi-list. Því þegar við horfumst í augu við áskoranir lífsins kemur kjarni okkar betur í ljós. Þá sjáum við ljósbrot lífsins. Þannig var það með tengdamóður mína sem velti oft fyrir sér hinum mannlega breyskleika. Mannkynið sífellt að gera sömu mistökin. Sama leikritið en ólíkar uppfærslur. Hún varð þannig sannfærð um að kærleikurinn væri það eina sem gæti bjargað heiminum. Leiðin væri sú að hver og einn byrjaði á sjálfum sér og ræktaði kærleika í sínu nærumhverfi. Í kærleikanum er aldrei sunginn falskur tónn. Í samhljómi kærleikans sjáum við lífið í annarri mynd.

Lengi heilluðu hugann

heiðríkir dagar, alstirnd kvöld.

Líf þeirra, ljóð og sögur,

sem lifðu á horfinni öld.

Kynslóðir koma og fara,

köllun þeirra er mikil og glæst.

Bak við móðuna miklu

rís mannlegur andi hæst.

Vor jörð hefur átt og alið

ættir, sem klifu fell og tind.

Því vísa þær öðrum veginn

að vizkunnar dýpstu lind.

Enn getur nútíð notið

náðar og fræðslu hjá liðinni öld.

Drauminn um vorið vekja

vetrarins stjörnukvöld.

(Davíð Stefánsson)

Björn Kristinsson.

Þegar ég hugsa um ömmu Níní kemur efst upp í huga minn öll ástin og kærleikurinn sem hún gaf frá sér. Hún umvafði mann alltaf með ást og talaði svo fallega til allra.

Þegar ég kom í heimsókn til ömmu þá spurði hún mig oft hvort hún ætti nú ekki svolítið í mér – að minnsta kosti litlu tána mína. Ég svaraði alltaf að hún mætti nú eiga meira en litlu tána og hún átti svo sannarlega mikið meira í mér en það. Við amma vorum nefnilega líkar að vissu leyti. Okkur fannst báðum gaman að hafa okkur til og vera fínar en vorum einnig báðar einstaklega hræddar við skordýr. Ég hugsa oft: „Fyrst amma gat verið á Ítalíu með öllum pöddunum, þá hlýt ég að geta það líka.“ Það er alls ekki það eina sem ég get litið upp til ömmu með, enda var hún kjarnakona með stærsta hjartað.

Þeir sem þekktu ömmu Níní vita hversu yndislega góð manneskja hún var. Fallegust allra að utan sem innan. Hún hrósaði öllum sem voru í hennar nærveru og maður labbaði alltaf út frá henni með bros á vör.

Það er margt sem við fjölskyldan getum gert til að heiðra minningu hennar og er það fyrst og fremst að reyna að lifa lífinu eins og amma gerði. Að tileinka okkur jákvæðni og æðruleysi í öllu sem við gerum, að koma vel fram við allt og alla, og að leyfa okkur að dreyma stórt. Nú fáum við okkur sopa af sérrí, skálum fyrir stórmerkilegri konu sem hafði áhrif á alla sem hún hitti og höldum minningu hennar á lofti.

Takk fyrir allt elsku amma mín.

Þín,

Helga Sóley.

Mér er það bæði ljúft og skylt að minnast Níníar frænku minnar. Móðir mín Jórunn Viðar og hún voru systradætur, miklar vinkonur og unnu saman að tónlist í áratugi. Það sem einkenndi Níní var hinn hreini tónn og lífsgleðin var ómæld, enda heitir ævisaga hennar Líf mitt og gleði. Það var Níní sem frumflutti flest sönglög mömmu á tónleikum og í útvarpi. Þær sáu saman um tónlistartíma í útvarpi þar sem söngur Níníar og lög Jórunnar við Vísnabókina síuðust inn í vitund ungra barna.

Þuríður var músíkölsk með afbrigðum, vel menntuð, frumleg, hreinskiptin og djörf kona sem skilur eftir sig varanleg spor í íslensku samfélagi þar sem hún kom víða við. Áhrifa hennar hefur gætt í listalífinu, hún kom að stofnun Söngskólans í Reykjavík með Garðari Cortes og var yfirkennari þar í mörg ár, ól upp kynslóðir nýrra söngvara, skrifaði áhugaverða bók um breytingaskeið kvenna, talaði fyrir óréttlátri skattlagningu (svokölluðum ekknaskatti) og sat um tíma á Alþingi. Þegar Helgi Hálfdanarson opinberlega bannfærði tónverk Jórunnar, Vort líf, vort líf, við ljóð Steins Steinarr, var það Þuríður sem reis upp gegn orðum hans og stóð í ritdeilu á síðum Morgunblaðsins fyrir hönd þeirra listamanna sem að verkinu hafa komið og munu koma.

Fyrir öll hennar störf stendur íslenskt samfélag í þakkarskuld.

Katrín Fjeldsted.

Ein mamma, tvær mömmur.

Elsku Níní var mín önnur mamma, hún var gift Erni móðurbróður mínum.

Fyrstu æviár mín bjuggum við í sama húsi, Suðurgötu 22, og eftir það var ég heimagangur á heimili Arnar og Níníar. Kristín var stóra systirin, Gummi félaginn og Laufeyju passaði ég.

Öll kennaraskólaárin mín fór ég oftar en ekki í hléum heim í Vatnsholtið og fékk að borða góðan og oft nýstárlegan mat á þeim tíma, til dæmis lasagna og notaði Níní þá makkarónur þar sem lasagnaplötur voru ekki fáanlegar, alltaf ráðagóð.

Níní var afar vel gefin, víðsýn og framsýn. Dóttir mín kynnti sér breytingaskeiðið um daginn og fór að afla sér heimilda og elstu og bestu heimildirnar voru frá Níní úr bók hennar „Bestu árin“, þetta sýnir framsýni og framkvæmdasemi hennar vel.

Níní var mikil sagnakona og húmoristi og sagði ófáar sögurnar þar sem hláturinn glumdi við. Óteljandi samræður áttum við í gegnum tíðina um alls kyns málefni, svo sem pólitík, dægurmál og fjölskyldumál, og alltaf kom ég betri og víðsýnni af hennar fundi.

Það er mikil gæfa að hafa átt svo góða og fallega fyrirmynd.

Minningin lifir.

Valgerður Björnsdóttir

(Jalla).

Látin er í Reykjavík í hárri elli einn af þeim frumherjum sem skópu söngmenningu á Íslandi og færðu til alþjóðlegs staðals, Þuríður Pálsdóttir. Tónlistargáfuna átti hún ekki langt að sækja, dóttir Páls Ísólfssonar, en móðurættin gaf þar heldur ekki mikið eftir. Vissulega hafði Ísland átt söngvara fyrr, Ara Jónsson, Pétur Á. Jónsson, Maríu Markan, Einar Kristjánsson, Stefán Íslandi og ýmsa fleiri. Þeirra hlutskipti var að syngja fyrst og fremst í erlendum óperuhúsum.

En Þuríður var í þeim hópi ungra söngvara sem lögðu úr höfn með fyrstu óperusýningarnar í Þjóðleikhúsinu upp úr 1950; þarna voru í fyrstu röð auk hennar Guðrún Á. Símonar, Guðmunda Elíasdóttir, Magnús Jónsson, Guðmundur Jónsson, Jón Sigurbjörnsson og Kristinn Hallsson. Þetta glæsta lið, með dyggri aðstoð Victors Urbancic, vann frumherjastarfið, allt frá Rigoletto 1951, sem var náttúrlega stórviðburður í menningarsögu okkar, og síðan með Leðurblökunni, La Traviata og öllum hinum sýningunum. Og fleiri úrvalssöngvarar bættust í hópinn.

Mér telst svo til að Þuríður hafi sungið aðalhlutverk í á annan tug óperuverka næstu 25 árin. Á eitt þeirra langar mig sérstaklega að minnast. Árið 1952 brá Leikfélag Reykjavíkur á það nýmæli að sýna nútímaóperu, Miðilinn eftir Menotti, í leikstjórn Einars, bróður Þuríðar, og þar var hún auðvitað með í burðarhlutverki. Sama kvöld var fluttur ballett eftir frænku hennar, Jórunni Viðar, Ólafur Liljurós. Þetta var líka viðburður.

Þuríður hafði afar vel ítalsk-skólaða kóloratúrrödd með hljómblæ (timbre) sem var ferskur og léttur en um leið einstaklega tær og glitrandi. Hún gat þó gefið í með dramatík, enda var Þuríður sterkur persónuleiki á sviði sem utan sviðs. Þann skaphita og kraft sýndi hún til dæmis í magnaðri konsertuppfærslu á Il trovatore, en svo átti hún líka til smitandi gamansemi og sviðsþokka eins og í rómaðri sýningu á Rakaranum í Sevilla undir stjórn dr. Róberts A. Ottóssonar. Og ljóðræn fágun hennar ljómaði í Töfraflautunni.

Svo var hún annálaður kennari og hafa margar okkar bestu yngri söngkonur notið leiðsagnar hennar. Mun söngskólafólk geta borið vitni um það. En áhrif hennar voru ekki aðeins bundin við kennslu. Þegar ég kom til vinnu í Þjóðleikhúsinu leitaði ég oft ráða til Níníar, eins og hún var nú reyndar kölluð dags daglega, í krafti fyrri kynna og fjölskyldutengsla, og mátti heita að hún væri eins konar ólaunaður tónlistarráðgjafi hússins um skeið. Hún stýrði tónlistinni í Gullna hliðinu með nýrri nálgun og var aðstoðarleikstjóri við fyrstu óperuuppsetningu mína, La Bohème. Síðar varð hún formaður þjóðleikhúsráðs og saman háðum við orrustu fyrir betri hlut íslenskra söngvara, þegar ráðist var í að byggja tónlistarhús. Ekki fór það allt eins og við vildum.

Ekki get ég skilist við þessi fáu kveðjuorð án þess að minnast á þátt þeirra frænknanna, Þuríðar og Jórunnar, í útvarpinu í því að kenna uppvaxandi ungviði þjóðarinnar allar þessar söngperlur sem við eigum. Góðar hugmyndir má endurtaka.

Mikilhæf listakona er hér kvödd eftir merkilegt lífsstarf. Blessuð sé minning Þuríðar Pálsdóttur.

Sveinn Einarsson.

Fallin er frá ein okkar fremsta listakona á sviði tónlistarinnar, Þuríður Pálsdóttir, söngkona og söngkennari. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast henni og starfa með henni í Þjóðleikhúsinu en þar sat hún í þjóðleikhúsráði í tvo áratugi frá 1978, lengst af sem formaður, og lagði ómetanlegt starf af mörkum leikhúsinu til heilla. Áður hafði ég verið einlægur aðdáandi hennar sem áhorfandi en hún var óumdeilanlega vinsælasta og virtasta óperu- og óperettustjarna leikhússins og fór þar með fleiri hlutverk en nokkur önnur. Hún var sem sé formaður þjóðleikhúsráðs þegar ég hóf störf sem þjóðleikhússtjóri 1991 og því unnum við náið saman í áratug. Það var mér mikils virði að njóta reynslu Þuríðar og tónlistarþekkingar. Þær voru ófáar gleðistundirnar sem við fögnuðum saman í leikhúsinu þegar allt gekk upp og á samskipti okkar bar aldrei skugga. Þuríður var ekki bara einhver magnaðasta og glæsilegasta óperusöngkona sem við Íslendingar höfum átt, hún var einstaklega skemmtileg og heilsteypt manneskja, sem aldrei lá á skoðunum sínum, talaði tæpitungulaust, af sannfæringu og eftirfylgju en var um leið hreinskiptin, hlý og opin. Hún var líka sterk, svo ótrúlega sterk að langvarandi og alvarleg veikindi sem hún glímdi við síðari hluta ævinnar náðu ekki að buga hana heldur reis hún ítrekað upp tvíefld svo helst líktist kraftaverki. Það er mér ógleymanlegt þegar ég heimsótti hana einu sinni sem oftar á Landakot, þá sat hún í rúminu eftir erfiðan uppskurð: glæsileg, ótrúlega ungleg og vel snyrt að vanda, sagðist vera nýbúin að hesthúsa í sig nokkrar kókosbollur, þrátt fyrir blátt bann læknanna, og lýsti fyrir mér í smáatriðum hvernig læknavísindin hefðu beinlínis heilaþvegið hana: vatnsþvegið í henni heilann með ótrúlegum árangri! Og frá því hvernig hún spaugaði við læknana og hjúkrunarfólkið og gerði þau að persónum í ævintýrum sem hún spann upp. Enda var það svo þegar ég kom í síðustu heimsóknina á Landakot og vissi ekki að búið var að flytja hana á hjúkrunarheimilið Sóltún að starfsfólkið sagði við mig eitt af öðru: „Við biðjum kærlega að heilsa henni Þuríði. Við söknum hennar öll.“ Svona heillaði hún alla tíð umhverfi sitt og samferðafólk með persónutöfrum og greind. Við héldum áfram góðu sambandi þótt hún ætti erfitt um ferðir eftir að hún flutti í Sóltún og einstaka sinnum hittumst við á leiksýningu eða í Óperunni. Við áttum líka langt árvisst aðfangadagssamtal þegar ég heimsótti hana í Sóltún. Þær stundir voru alltaf gjöfular eins og allt sem frá henni kom. Blessuð sé minning Þuríðar, minnar kæru vinkonu. Við Þórunn sendum fjölskyldu hennar okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Stefán Baldursson.

Þuríður Pálsdóttir var fyrsti kennarinn sem ég réð til starfa við stofnun Söngskólans í Reykjavík árið 1973 og starfaði þar sem yfirkennari í 30 ár, enda gagnmenntaður tónlistarmaður, tónmenntakennari og söngvari. Söngskólinn býr enn í dag að þeim samhljómi sem hún lagði grunninn að í kennarahópnum í upphafi.

Þuríður kenndi söng, tónfræði og tónlistarsögu við Söngskólann, að ógleymdri kennaradeildinni, en þar menntaði hún söngkennara sem eru nú við kennslu um allt land. Hún var alla tíð mikil atorkukona, ósérhlífin og oft á tíðum óvægin í kröfum sínum, bæði til sjálfrar sín og annarra, og fyrir tilstilli hennar opnuðust söngvurum samtímans dyr sem höfðu verið lokaðar. Bak við þessar dyr svaf ekki aðeins góð tónlist, heldur einnig stórkostlegar hugmyndir um túlkun. Þar, sem og í öðru sem hún tók sér fyrir hendur, skorti Þuríði hvorki hugrekki né hugmyndaflug, enda var hún sjálf stórkostlegur túlkandi.

Þegar kom að því að við í Söngskólanum í Reykjavík lögðum í fyrstu húsakaupin var Þuríður fremst í flokki til að afla fjár til kaupanna og einn aðalforkólfurinn í frægum miðnæturskemmtunum sem kennarar og nemendur skólans héldu þar sem hún lék og söng og brá sér í ýmis eftirminnileg gervi. Þá var hún einnig í forsvari fyrir stofnun listaklúbbs innan Styrktarfélags Söngskólans, að ógleymdum frægum flóamörkuðum sem hún stóð fyrir í fjáröflunarskyni.

Í aðdraganda stofnunar Íslensku óperunnar var Þuríður fengin til liðs við fyrstu sýninguna, Pagliacci, sem leikstjóri. Þá bjó hún yfir leyndarmáli sem hún deildi með nýrri kynslóð söngvara um hvernig ætti að leika í óperu. Leiðsögn hennar var einföld en áhrifarík. „Þú þarft aðeins að hlusta á tónlistina,“ sagði hún, „þá opnast allt fyrir þér.“ Hún kenndi okkur sem sagt að bregðast við eftir tónlistinni; hlusta eftir þögninni, eftir hljómasamsetningunni og nýta okkur styrkleikabreytingar.

Alla ævi gustaði af Þuríði, hvort sem var í starfi eða leik, og vitna mörg eftirminnileg atvik í gegnum árin um það í huga okkar sem þekktum hana. Þuríður tók sjálfa sig mátulega alvarlega, en bar þó aldrei minna en fullkomna virðingu fyrir sjálfri sér og kenndi nemendum sínum einnig það viðhorf gagnvart sjálfum sér og því sem þeir tækju sér fyrir hendur.

Raddsvið Þuríðar var gífurlegt; allt frá sindrandi hæð lýrísks sóprans og niður í volduga rödd messósópransins. Hún söng á ferli sínum allar helstu perlur tónbókmenntanna, hvort sem um var að ræða söngdrápur, óratóríur eða ljóðatónlist þýsku meistaranna og óperuhlutverkin sem hún söng voru fjölmörg. Þuríður hafði einnig í hávegum lög íslensku tónskáldanna, svo sem Páls Ísólfssonar föður síns og Jórunnar Viðar frænku sinnar og bestu vinkonu, og aldrei varð hún of stór fyrir íslensku þjóðlögin sem hún hélt á loft alla tíð.

Þegar ég lít yfir farinn veg finn ég til þakklætis og auðmýktar yfir að hafa fengið að njóta samfylgdar Þuríðar og krafta, gæsku, dugnaðar, þekkingar, reynslu og vináttu. Hennar verður sárt saknað.

Garðar Cortes.

Í dag kveður íslenskt söngáhugafólk eina af sínum merkustu brautryðjendum og merkisberum, Þuríði Pálsdóttur söngkonu. Mér er bæði ljúft og skylt að minnast hennar með fáeinum orðum.

Eins og aðrir dyggir hlustendur Ríkisútvarpsins fyrr á árum kynntist ég Þuríði fyrst sem framúrskarandi góðri sópransöngkonu. Á mínum uppvaxtarárum heyrðist rödd hennar reglubundið á öldum ljósvakans, einkum við flutning á íslenskum einsöngslögum, en einnig við flutning óperulistar.

Þuríður var af tónlistarfólki komin í báðar ættir. Faðir hennar var Páll Ísólfsson, landsþekktur sem tónskáld, dómorganisti og kórstjóri. Móðir hennar og fyrri kona Páls var Kristín Norðmann píanókennari.

Í báðum ættum Þuríðar var tónlistin í hávegum höfð. Nægir þar að nefna afa hennar Ísólf Pálsson tónskáld, bróður hans Jón Pálsson organista og frænda þeirra Friðrik Bjarnason, tónskáld í Hafnarfirði. Allir voru þeir af annálaðri söng- og tónlistarætt austan af Stokkseyri, sem oft er nefnd Bergs-ætt. Í móðurætt Þuríðar má nefna frænku hennar og samstarfskonu til margra ára, Jórunni Viðar tónskáld og píanóleikara.

Ung að árum fór Þuríður til söngnáms suður á Ítalíu. Þar lagði hún stund á ýmiss konar sönglist, en einkum þó á óperusöng. Heim komin hélt hún sína fyrstu opinberu söngtónleika í Gamla bíói, fyrir troðfullu húsi og við mikla hrifningu áheyrenda, vorið 1952.

Kynni okkar Þuríðar hófust haustið 1965, er við tókum inntökupróf í söngkennaradeild, síðar nefnda tónmenntakennaradeild, Tónlistarskólans í Reykjavík. Í þeirri deild vorum við, ásamt fleiri góðum félögum, við nám í tvo vetur og útskrifuðumst vorið 1967.

Eftir útskrift úr Tónlistarskólanum var haldin eftirminnileg veisla á heimili Þuríðar í Vatnsholti 10, í næsta nágrenni við hús Tónlistarskólans í Skipholti.

Þuríður var einkar falleg kona og glæsileg. Höfðingi var hún heim að sækja, ákaflega skemmtileg og hafði frá mörgu að segja frá viðburðaríkum náms- og söngferli. Á síðari árum gat hún sér gott orð sem framúrskarandi söngkennari, einkum við Söngskólann í Reykjavík.

Ég kveð Þuríði skólasystur mína með virðingu og þökk fyrir hennar frábæru störf og ríkulegt framlag til eflingar sönglistarinnar hér norður á hjara veraldar. Öll voru þau störf unnin af einstakri hjartahlýju, sem eftir verður munað.

Afkomendum Þuríðar og fjölskyldu hennar eru færðar innilegar samúðarkveðjur.

Njáll Sigurðsson,

fyrrverandi námstjóri

í tónmennta- og

tónlistargreinum.

Þuríður Pálsdóttir er eitt af stóru nöfnunum í heimi söngvara hér á landi og ekki eingöngu glæsileg söngkona heldur einnig mikil og sterk persóna.

Við sem skráð vorum í kennaradeild Söngskólans í Reykjavík veturinn 1993-1994 fengum að njóta leiðsagnar mikilla meistara á sínu sviði. Halldór Hansen, Jón Ásgeirsson og ekki síst Þuríður Pálsdóttir leiddu okkur í allan sannleika varðandi kennslu og þjálfun tilvonandi söngnemenda.

Þuríður kenndi okkur um sögu sönglistar og söngtækni sem verðandi söngkennarar og var þá aldrei komið að tómum kofunum hjá henni. Fyrir utan það að vera með stjörnur í augunum yfir að fá að læra af henni, þá voru kennslustundirnar einstakar.

Þuríður tók á móti okkur í hverri viku, oftast heima í Hjálmholti, þar sem tíminn flaug og kennslustundin teygðist ansi oft langt fram á daginn. Áhugi hennar á að uppfræða og okkar að nema af slíkri reynslu var svo áreynslulaus. Þuríður lá heldur ekki á skoðunum sínum og talaði alveg tæpitungulaust við okkur ef þurfti. Við vorum því með kveikt á öllum skilningarvitum þegar við hlustuðum á hana segja frá og leiðbeina okkur. Í lok tímans var svo kaffibollinn ekki langt undan og myndarlegt borð af meðlæti, ef ekki rjómaterta, og áfram hélt uppbyggilegt spjall.

Við vorum lánsöm að fá að kynnast og vinna með svo mikilli listakonu sem Þuríður var, fá fullan poka af vitneskju með í farteskið til að byggja á 6og fyrir það verðum við ávallt þakklát.

Fyrir hönd söngkennaranema Þuríðar í Söngskólanum í Reykjavík,

Harpa Harðardóttir,

Ágústa Sigrún Ágústsdóttir.