Guðmundur Karl Jónsson
Guðmundur Karl Jónsson
Eftir Guðmund Karl Jónsson: "Í tölublaði FÍB-blaðsins voru áhugamenn um gerð vegganga undir Vaðlaheiði sakaðir um falsrök"

Stofnað var í mars 2011 félagið Vaðlaheiðargöng ehf. sem hafði það að markmiði að grafa 7,2 km löng jarðgöng undir heiðina gegnt Akureyri. Beggja vegna ganganna eru vegskálar, 280 m langir. Ákveðið var að þversnið ganganna yrði 9,5 metrar og vegtengingar um 4 km. Í tölublaði FÍB-blaðsins komu fram efasemdir um að útreikningar sem aðstandendur Vaðlaheiðarganga kynntu stæðust. Þessum efasemdum vísaði Vegagerðin til föðurhúsanna með þeim falsrökum að andstæðingar ganganna væru á villigötum og sigldu undir fölsku flaggi í þeim tilgangi að afskræma allar staðreyndir sem tengjast þessari framkvæmd.

Þannig sýndu andstæðingar Tryggva Helgasonar flugmanns sitt rétta andlit þegar hann kynnti þessa hugmynd í fjölmiðlum við litla hrifningu heimamanna á Eyjafjarðarsvæðinu og í Þingeyjarsveit. Fyrir 16 árum var talið að göngin undir heiðina kostuðu sex milljarða króna þegar kostnaður við Héðinsfjarðargöng var áætlaður á bilinu 5-6 milljarðar. Þegar stórar vatnsæðar opnuðust óttuðust menn að Vaðlaheiðargöng yrðu ennþá dýrari en jarðgöngin í Fjallabyggð, sem kostuðu 16 milljarða króna. Hjá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda komu fram efasemdir um að áætlaður kostnaður við Vaðlaheiðargöng yrði 10,4 milljarðar króna. Fyrirsagnirnar sem landsmenn gætu séð á forsíðum blaðanna væru atkvæðasmölun Steingríms J.

Þegar illa gengur að kveða niður allar efasemdir um þetta verkefni spyrja talsmenn FÍB hvernig galtómur ríkissjóður geti ábyrgst þessa framkvæmd á meðan önnur þarfari jarðgangaverkefni sitja á hakanum; tvöföldun Suðurlandsvegar og ný hliðargöng undir Hvalfjörð. Fyrir íbúa suðvesturhornsins og Suðurkjördæmis, sem hafa alltof lengi setið uppi með sprungið vegakerfi, eru þetta engar gleðifréttir.

Allar tilraunir til að taka Norðfjarðargöng í notkun á undan Vaðlaheiðargöngum heppnuðust 100% sem betur fór. Í tölublaði FÍB-blaðsins voru áhugamenn um gerð vegganga undir Vaðlaheiði sakaðir um falsrök vitandi það að galtómur ríkissjóður þyrfti að taka á sig verulegan hluta af kostnaðinum sem skattgreiðendurnir gjalda fyrir.

Fyrrverandi þingmenn Norðurlands eystra áttu í tíð þáverandi samgönguráðherra, Matthíasar Bjarnasonar, Steingríms J. Sigfússonar, Halldórs Blöndals og Sturlu Böðvarssonar, að standa saman og halda til streitu kröfunni um að ráðist yrði í framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng á undan Héðinsfjarðargöngum, sem hefðu mátt vera á eftir Dýrafjarðargöngum, tvíbreiðum veggöngum sunnan einbreiðu Múlaganganna, undir Bröttubrekku, Klettsháls, Lónsheiði og Siglufjarðarskarð.

Þá fullyrtu talsmenn FÍB löngu seinna að heildarkostnaður við jarðgöngin undir Vaðlaheiði yrði á bilinu 14,5-17,3 milljarðar króna, að stofn- og fjármagnskostnaði meðtöldum. Engin svör fengust þegar spurt var hvort veggjald á hvern bíl í Vaðlaheiðargöngum yrði ennþá hærra en í Hvalfjarðargöngum. Til eru menn norðan heiða, á höfuðborgarsvæðinu og víðar sem spurðu án þess að svör fengjust hvort þessi framkvæmd gæti kostað 20 milljarða króna og hvort hún kæmi of seint.

Talað var um að Vaðlaheiðargöng gætu orðið 6-8 milljörðum króna dýrari en Héðinsfjarðargöngin, sem meirihluti Norðlendinga snerist gegn og kallaði dýrustu kosningasvik Íslandssögunnar. Í Fréttablaðinu 11. mars 2011 birtust fjarstæðukenndar fullyrðingar um að heildarlengd jarðganganna undir Vaðlaheiði yrði 9 km, sem FÍB taldi alltof stutt. Hið rétta er að heildarlengd ganganna er 7,2 km, þótt Félag íslenskra bifreiðaeigenda vildi hafa þau enn lengri en nýju veggöngin norðan Lágheiðar, sem eru samanlagt innan við 11 km löng.

Að loknum framkvæmdum við Héðinsfjarðargöng sitja menn uppi með vitlausa forgangsröðun, sem tefur fyrir því að ráðist verði í önnur þarfari verkefni. Stofnfundur félagsins norður á Akureyri var víða um land kallaður pólitískt kjördæmapot tveggja þingmanna Norðausturkjördæmis. Þessi fundur var ísköld kveðja til Vestfirðinga, sem hefðu 2006 átt að fá Dýrafjarðargöng að loknum framkvæmdum við Almannaskarðs- og Fáskrúðsfjarðargöng, og sömuleiðis til Austfirðinga, sem vilja að Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað fái enn betra aðgengi að Egilsstaðaflugvelli með tvennum veggöngum um Mjóafjörð. Til að það heppnist skulu Austfirðingar losna við Fagradal.

Höfundur er farandverkamaður.

Höf.: Guðmund Karl Jónsson