Sigmar fæddist í Keflavík 8. ágúst 1956. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi þann 23. ágúst 2022.

Foreldrar hans voru Sigurður Pálsson, f. 14.9. 1930, d. 14.3. 2008, og Sigrún Sigurlaug Sigfúsdóttir, f. 23.8. 1932, d. 15.8. 2015. Bræður hans eru Ingvar, f. 2.1. 1954, og Sævar, f. 22.2. 1955.

Börn hans eru 1) Hjalti Hreinn, f. 4.10. 1980, maki: Hulda Jóhannsdóttir, f. 6.3. 1980, börn þeirra eru a) Magnús Víkingur, f. 4.12. 2007, og b) Agnes Freyja, f. 15.2. 2011, 2) Ásta María, f. 16.5. 1983, maki Haukur Steinn Ólafsson, f. 19.1. 1983, börn þeirra eru a) Atli Þór, f. 10.4. 2004, d. 4.5. 2006, b) Sigrún Helga, f. 4.1. 2007, og c) Sigmar Þór, f. 10.11. 2011, 3) Sigrún Marta, f. 21.6. 1985, maki: Daníel Páll Jóhannsson, f. 6.8. 1984, börn þeirra eru a) Amelía Guðlaug, f. 2.1. 2012, b) Axel Páll, f. 20.4. 2017, og c) Jóhann Víkingur, f. 13.8. 2021.

Sigmar stundaði nám við Bændaskólann á Hvanneyri og útskrifaðist þaðan sem búfræðingur. Hann stofnaði og rak byggingarvöruverslunina Kvist í Hveragerði eftir að hafa starfað í BYKO um árabil. Seinna vann hann í Bílanaust og Stillingu í Hafnarfirði. Eftir aldamótin ók hann á sendibíl í nokkur ár og starfaði sem sjálfstæður verktaki í bílaviðgerðum og fleiru.

Útför hans fer fram frá Vídalínskirkju í dag, 29. ágúst 2022, kl. 13.

Þau orð sem eru mér efst í huga þegar ég hugsa um pabba minn eru: Sterkur, ákveðinn, hreinskilinn, kærleiksríkur og gjafmildur. Saman mynda þessir eiginleika ofboðslega duglegan mann sem vildi öllum hjálpa.

Pabbi kunni einhvern veginn að laga hvað sem var. Það var nóg að hringja í hann og leyfa honum að heyra hljóðið í bílnum og hann var búinn að átta sig á hvað þurfti að laga. Svo var brunað til pabba þar sem hann var búinn að kaupa varahlutinn og stóð ég á hliðarlínunni og rétti honum verkfærin sem hann bað um. Oft voru sagðir brandarar í bílskúrnum og mikið hlegið því pabbi var mikill húmoristi.

Þegar ættingjar og vinir voru að flytja var hann undir eins mættur tilbúinn til að bera húsgögn, mála eða jafnvel endurnýja heilu baðherbergin. Það var ómetanlegt að hafa hann til að hjálpa, hann vann allt svo hratt og vel.

Pabbi var mikill bílaáhugamaður. Hann gerði upp fleiri tugi bíla og bar þá hæst Mustang-bílarnir sem voru hans uppáhald. Sá síðasti sem hann gerði upp hafði fylgt honum í rúm 30 ár og það voru ekki sparaðir vinnutímarnir sem fóru í hann og var árangurinn glæsilegur.

Pabbi hafði gaman af ferðalögum. innanlands fannst honum skemmtilegast að ferðast um hálendið á jeppum og þeim mun stærri dekk, þeim mun betra. Ég á margar æskuminningar af að príla í dekkjamynstrinu til að komast upp í háan jeppann. Einnig voru farnar margar ferðir á húsbílum sem hann innréttaði iðulega sjálfur. Þegar hann ferðaðist út fyrir landsteinana fór hann oftast til Ameríku að hitta son sinn og fjölskyldu hans og hafði mjög gaman af þeim heimsóknum.

Pabbi var frábær afi. Hann hafði gaman af að kíkja í heimsókn og fá sér te í rólegheitum og hitta barnabörnin sín. Þeim fannst gott að sitja í afa fangi í eldhúsinu og segja honum frá því sem þau voru búin að vera að sýsla.

Síðustu árin hans voru erfið. Fyrir hraustan, öflugan mann sem hafði ekki þekkt neitt annað en dugnað og vinnusemi var erfitt að greinast með ólæknandi krabbamein. Pabbi sýndi mikinn styrk í baráttunni og tókst á við lyfjameðferð, geisla og aðrar meðferðir með jákvæðni og kímnigáfu. Hann var alltaf bjartsýnn og ákveðinn í að ný meðferð myndi gefa honum betri heilsu. Þrátt fyrir baráttuna og meðferðirnar dró krabbameinið úr honum kraftinn sem hann hafði alltaf haft. Það var honum erfitt að geta ekki unnið jafn mikið og hann var vanur að gera alla sína ævi.

Hann missti móður sína árið 2015. Móðurmissirinn var honum erfiður enda voru þau mæðgin mjög náin. Þau voru lík að mörgu leyti, bæði svo hreinskilin og ákveðin.

Pabbi lést 23. ágúst 2022, á níræðisafmælisdegi móður sinnar.

Ásta María Sigmarsdóttir.

Þá er kominn tími til að kveðja pabba minn. Allir sem þekktu hann vita að hann var mjög handlaginn og virtist alltaf kunna til allra verka. Hann nálgaðist öll verk með mikilli raunsæi og lógík, ef eitthvað veltist fyrir honum þá tók hann sér tíma í að læra allt sem hann þurfti til að leysa verkið. Ef hann gat ekki kennt sjálfum sér lausnina, þá fann hann einhvern sem gat útskýrt þetta fyrir honum. Undanfarin ár hefur tækninni fleygt fram og hann var mjög duglegur að finna sér upplýsingar á netinu. Ég hafði mjög gaman að sjá hvað hann var snöggur að tileinka sér nýja tækni og tól. Ég er viss um að hann hefði verið alveg frábær verkfræðingur ef hann hefði farið þá leiðina í lífinu.

Pabbi minn var mikill vinnuþjarkur sem átti stóra fjölskyldu og góða vini. Hann var alltaf fyrstur til að bjóða hjálp og ætlaðist aldrei til að fá neitt í staðinn annað en vináttu og kannski te í bolla. Ég veit ekki hversu mörgum helgum var eytt í að bera búslóðir upp og niður stiga, hjálpa við bílviðgerðir, eða vinna eitthvað annað fyrir vini og fjölskyldu. Ég man ekki eftir því að hann hafi nokkurn tímann sagt „nei“ við neinn sem bað um aðstoð. Slíkt atferli skilar sér í okkur börnin hans og núna þegar ég hugsa um það, þá held ég að ég geti fullyrt að við öll eigum við þetta sama „vandamál“ að stríða. Það sem hann kenndi okkur er að halda uppi gullnu reglunni: „Að koma fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig.“ Hugsið ykkur hversu betri heimurinn væri ef allir færu eftir því.

Við pabbi áttum margar góðar stundir saman í gegnum árin. Hann kenndi mér ansi mikið. Til dæmis kenndi hann mér að vinna öll verk eins vel og ég get. Ég sé hann fyrir mér núna vera að segja við mig sem lítinn pjakk: „Alltaf að gera hlutina eins vel ég þú getur, þá þarftu ekki að gera þetta aftur.“ Það var ekki hægt að alast upp með manni eins og pabba mínum án þess að læra mikið um bíla. Bíladellan er annar arfur sem hann skilur eftir sig. Ást pabba á tónlist og hasar bíómyndum skilaði sér og það er einfaldlega ekki hægt að fara í ferðalag án þess að hlusta á Creedence Clearwater Revival að minnsta kosti einu sinni.

Að pabbi minn skuli vera farinn svona snemma er alls ekki sanngjarnt en svona er lífið víst. Það sem við verðum að gera núna er að lifa lífinu og halda uppi þeirri heimspeki sem hann kenndi okkur, sem er að hjálpa öllum þeim sem hjálp þurfa og einfaldlega vera góð manneskja.

Hjalti Hreinn Sigmarsson.

Ég er svo þakklát fyrir allt sem pabbi kenndi mér. Hann var hörkuduglegur og flinkur í höndunum, ef hann kunni ekki að gera við eitthvað, þá bara lærði hann það. Hann hafði mikið verkvit og hugsaði í lausnum. Fyrir mér er þetta eitt besta veganestið út í lífið sem ég hef fengið. Pabbi var hjálpsamur og iðulega fyrstur á staðinn til að aðstoða vini sína og vandamenn. Alveg sama hversu mikið var að gera hjá honum, ef einhvern vantaði hjálp þá var hann mættur. Þegar við Daníel keyptum okkar fyrstu íbúð þá hjálpaði pabbi okkur svo óendanlega mikið. Við hefðum aldrei getað gert þetta án hans hjálpar og leiðsagnar. Hann var ekki bara hörkuduglegur, hann var líka viskubrunnur og ég gat alltaf hringt í hann til að fá leiðsögn og ráð.

Pabbi var ákveðinn, skapstór, algjör harðjaxl og töffari. Hann elskaði að ferðast en var aldrei mikið fyrir að ganga, til hvers að labba þegar maður gat farið á fjórhjóladrifnum jeppa á 46 tommu dekkjum. Alveg frá því að ég man eftir mér fannst mér gaman að fá að hjálpa til í skúrnum, verkefnin þurftu ekki að vera flókin en mikið var gaman að fá að sortera skrúfur eða sópa gólfið, nú eða halda ljósahundinum á réttum stað svo pabbi sæi hvað hann væri að gera. Ég er sko með meistarapróf í að halda á ljósahundinum.

Einu sinni þegar ég var kannski fimm ára var pabbi að undirbúa húsbíl fyrir ferðalag. Litla forvitna ég fylgdist grannt með verkinu og sá að hann var að skrúfa langa undarlega skrúfu í vaskaskápnum og sagði „Pabbi, þetta er skrítin skrúfa“, hann leit á mig og brosti og svaraði „Þú ert skrítin skrúfa.“ Síðan þá kallaði hann mig oft skrítna skrúfu.

Við systkinin áttum iðulega gamla bílgarma sem pabbi hjálpaði okkur að laga. Fyrsti bílinn minn var til að mynda BMW-drusla, sorrí pabbi en hann var það. Við kölluðum BMW-inn Skjóna, því hann var eins og skjóttur hestur, rauður á litinn en húddið hvítt.

Einu sinni átti ég gamlan Suzuki Swift-garm sem fór ekki í gang svo til stóð að draga hann í gang, nema hvað ég hafði aldrei gert það áður. Ég sat inni í bílnum og pabbi ýtti. Þegar pabbi var búinn að hlaupa með bílinn á undan sér nánast alla innkeyrsluna að Landakoti þá hvæsti hann á mig „Hvað ertu að gera?“ og ég svaraði fullum hálsi „Nú, það sem þú sagðir mér að gera.“ Pabbi varð svo hissa að ég hafi svarað honum í sömu mynt og seinna þegar æsingurinn var búinn og bílinn kominn í gang, segir hann „það er skap í þér, hvaðan ætli þú hafir það?“ Svo brostum við bara.

Fyrir innan hans harða skráp var hann algjört ljúfmenni og mikil tilfinningavera. Hann var yndislegur afi og börnin mín dýrkuðu hann. Við áttum margar góðar stundir saman eftir að hann hætti að vinna og var mikið hjá mér í fæðingarorlofinu með Jóhann. Hann sagði mér oft að honum þætti svo gott að vera hjá okkur, þessi tími er mér mjög dýrmætur.

Pabbi var mikill húmoristi og hafði gaman af orðaleikjum. Þrátt fyrir erfið veikindi þá tapaði hann aldrei húmornum og sagði brandara alveg fram á síðustu stundu. Ég hafði svo gaman af því þegar við fórum í „göngutúr“ í Bauhaus fyrir stuttu. Við gengum fram á gasarinn, grínaðist ég að þarna ætti Arnar heima. Við hlógum. Svo sáum við kantsteina og pabbi bætti við að þarna byggi Steinar. Við vorum svo góðir vinir og ég mun sakna hans svo mikið.

Takk fyrir allt elsku pabbi minn.

Þín skrítna skrúfa,

Marta.

Meira á www.mbl.is/andlat

Sigmar var systursonur minn og hefur alla tíð verið í miklu uppáhaldi. Hann var hugmyndaríkur unglingur, athafnasamur ungur maður og þegar ég minnist hans nú sem fullorðins manns kemur fyrst í hugann hve hann var ósérhlífinn, einstaklega fjölhæfur og hæfileikaríkur og glaðvær. Hann var maður sem gat nánast allt, málað, smíðað, flísalagt, pípulagt og gert við bíla. Það var nánast sama hvað, hann gat það. Við hjónin nutum vináttu og hæfileika hans í ríkum mæli. Þegar þurfti að skipta um vatnskrana, miðstöðvarofn, leggja hitalögn í bílaplan, logsjóða botn í gamla bílinn, setja niður heitan pott eða hvað annað sem þurfti hjálpar við, þá bjargaði Sigmar því.

Ég kveð kæran frænda með þökk í hjarta.

Ingibjörg.

Við fráfall Sigmars Sigurðssonar er horfinn eftirminnilegur maður sem var sannur fulltrúi sinnar kynslóðar, þar sem fólk þurfti að standa á eigin fótum, treysta á eigin dugnað, verkþekkingu og samhjálp. Slíkur maður þurfti að kunna að bjarga sér og leysa flókin verkefni þegar kom að ýmsum verklegum framkvæmdum og iðnþekkingu. Og Sigmar var svo sannarlega einn af þessum mönnum sem kunna allt og geta allt eins og sagt er um slíka menn. Þeir eru eftirsóttir í öllum fjölskyldum og vinahópi ekki síst ef þeir eru hjálpfúsir og ósérhlífnir og láta þeir þá gjarnan hjálpsemi við aðra ganga framar eigin hagsmunum og verkefnum. Þetta voru einmitt einkenni Sigmars sem var alltaf boðinn og búinn að hjálpa öðrum hvort sem verkefnið var einfaldir búferlaflutningar eða flóknar viðgerðir á vélum, tækjum og húsum. Sjálfur naut hann hagleiks síns í frístundum við smíðar á fornbílum og húsbílum sem enn vitna um verk Sigmars. Má m.a. nefna síðasta verkefni hans sem er eldrauður glæsigripur, sportbíll af gerðinni Mustang.

Kynni fjölskyldu minnar við Sigmar tókust þegar sonur okkar Haukur Steinn og dóttir Sigmars, Ásta María, felldu hugi saman og giftust árið 2005. Við hittum Sigmar oft á heimilinu og áttum við skemmtileg samtöl þar sem Sigmar veitti af þekkingu sinni á sameiginlegu áhugamáli okkar um fornbíla. Enn fremur reyndist hann okkur mikill hjálparmaður við ýmis verkleg viðfangsefni. Það var einstaklega ánægjulegt að sjá hvernig góð samskipti og vinátta jókst með hverju ári ekki síst eftir að barnabörnin uxu úr grasi. Sigmar laðaðist að þeim og þau hændust mjög að afa sínum. Unga fjölskyldan keypti sér góða sérhæð í Garðabæ en þar þurfti að taka til hendinni bæði utan- og innanhúss. Þarna var Sigmar á heimavelli. Hann var öflugur og útsjónarsamur liðsmaður.

Það var mikið áfall að Sigmar greindist með krabbamein og andaðist langt um aldur fram einmitt þegar svo virtist sem í hönd gæti farið meiri tími til ánægjustunda með fjölskyldunni. Við hjónin, synir okkar, tengdabörn og barnabörn sendum Ástu Maríu, Hauki Steini og fjölskyldu þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Ólafur Örn Haraldsson,

Sigrún Richter og fjölskyldur.

Hveragerði u.þ.b. 1975. Í mölinni fyrir utan heimili sitt í Laufskógunum liggur ungur maður og dyttar að bílnum sínum. Drengur um fermingu snýst í kringum hann og dáist að bílnum. Þetta er nokkurn veginn myndin af því hvernig ég kynntist Sigmari. Margan bílinn horfði ég á Sigmar eiga við þarna í Laufskógunum og stundum fékk hann að stinga þeim inn í skúrinn hjá afa. Aldrei var ég langt undan þegar glæsikerrurnar runnu um hlaðið. Ekki get ég sagt að við Sigmar höfum verið vinir á þessum tíma; til þess var aldursmunurinn of mikill. En fjölskyldur okkar tengdust. Foreldrar hans, foreldrar mínir og afi og amma bjuggu við sömu gatnamótin svo stutt var á milli. Foreldrar Sigmars og afi voru miklir vinir; mamma vann með föður Sigmars og ég seinna um tíma með Sævari bróður hans.

Leiðir okkar Sigamars liggja síðan saman aftur þegar ég hef búskap með Önnu, konunni minni. Hún og Gulla, fyrri kona Sigmars og barnsmóðir, voru æskuvinkonur. Á þeim árum hittumst við Sigmar oft og þá var aldursmunurinn gufaður upp. En Gulla og Sigmar skildu og þá strjálaðist um samskiptin. Við urðum þó alltaf af og til á vegi hvor annars, ekki hvað síst í einhverju bílatengdu stússi.

Svo gerist það árið 2007 að ég kaupi frá Ameríku gamlan Mustang. Mig langaði að fá álit sérfróðs á eintakinu og hringi því í Sigmar. Hann kemur og leggur mat á gripinn og upp frá því tókst með okkur mikil vinátta. Og er ég þá loks kominn að efninu. Þessi síðustu fimmtán ár hef ég átt í Sigmari traustan og góðan vin. Þó samtöl okkar og samskipti hafi að umfangi mest snúist um bíla og mótorhjól þá risti hún mun dýpra. Fyrir nokkrum árum lenti ég í talsverðum hremmingum í lífinu og þá steig Sigmar fram og rétti mér trausta hönd, studdi mig og stýrði upp úr öldudalnum. Þetta er um það leyti sem hann kennir sér fyrst meins og síðan höfum við hist og talast við reglulega.

Ég kveð í dag með trega góðan dreng, þakklátur fyrir allar þær stundir semég fékk að eyða með honum. Bræðrum hans, börnum og barnabörnum færi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Haukur Svavars.