[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Svend Richter er fæddur 29. ágúst 1947 í Reykjavík og ólst upp í Vogahverfi. Hann var í sveit í fimm sumur á Svarfhóli í Svínadal í Hvalfirði.

Svend Richter er fæddur 29. ágúst 1947 í Reykjavík og ólst upp í Vogahverfi. Hann var í sveit í fimm sumur á Svarfhóli í Svínadal í Hvalfirði. „Ég eyddi helst frístundum mínum annaðhvort niðri á Reykjavíkurhöfn, bryggjunum þar, eða litlu Elliðaánum. Ég var alveg sjúkur að veiða. Ég veiddi líka á bryggjunum á Ísafirði þegar ég var í heimsókn hjá frændfólki þar.“

Svend gekk í Vogaskóla, varð stúdent frá MR, lauk kandídatsprófi í tannlæknisfræði frá Tannlæknadeild HÍ 1974 og síðan meistaragráðu 2005.

Svend hefur verið tannlæknir í Reykjavík frá 1974 og rak eigin stofu frá 1978 til síðustu áramóta. Hann var aðjúnkt, lektor og dósent við tannlæknadeild í 29 ár og varð dósent emeritus 2017. Hann er brautryðjandi í réttartannlæknisfræði hér á landi, en hann hefur verið réttartannlæknir DVI/ID nefndar, sem hefur upp á íslensku verið nefnd kennslanefnd, frá upphafi 1989.

„Einn af prófessorum tannlæknadeildar, Guðjón Axelsson, hafði aðstoðað lögreglu við að bera kennsl á menn en nú stóð fyrir dyrum að stofna formlega nefnd um þennan málaflokk og var mikið starf framundan við skipulag og hann fékk mig í þetta. Síðan hef ég sinnt þessu af ástríðu.“

Svend var þátttakandi í rannsókn látinna í Scandinavian Star-ferjuslysinu í Ósló 1990, „Mér var hent í djúpu laugina, lögregluyfirvöld ákváðu að senda mig út til að öðlast reynslu, en þá vorum við rétt í startholunum hérna á Íslandi. 159 manns fórust í slysinu og var Ósló undirlögð . Ég var svo heppinn að konan mín fór með mér og ég fékk stuðning hjá henni.“ Svend tók einnig þátt í rannsókn fjöldagrafa í Kósovó 1999 á vegum Alþjóðastríðsglæpadómstólsins í Haag. „Stríðinu átti að vera lokið þar og við fórum þrír frá Íslandi þangað. En stríðinu var í raun ekki lokið, það voru alls konar skærur í gangi, við lentum í ýmsum uppákomum og eftir á að hyggja var þetta nokkur háskaför.“

Svend vann einnig sérfræðistörf við rannsókn látinna á flóðasvæðum Taílands í janúar og febrúar 2005. „Ég held að Taíland hafi tekið mest á. Þarna vorum við fyrst og fremst að rannsaka fjölskyldur sem höfðu verið í fríi, heilu fjölskyldurnar fórust þarna, eða hluti fjölskyldu og þá voru ættingjar að koma með orðsendingu um hvort við vildum leggja sérstaka áherslu á að finna ljóshærða tíu ára stúlku sem fylgdi mynd af, o.s.frv. Það var samt spennandi að vinna með jafnvel bestu réttarsérfræðingum í heiminum. Menn tengjast mjög þétt í svona vinnu. Það var passað upp á að menn ynnu ekki of langan vinnudag, menn sætu ekki einir uppi á herbergi og færu saman út að borða. Það er mikilvægt að hugsa um slíkt.“

Svend hefur sinnt kennslu í réttartannlæknisfræði heima og erlendis. Hann hefur unnið aldursgreiningar fyrir ríkislögreglustjóra, Útlendingastofnun og lögreglu frá upphafi. „Ég tók þá afstöðu snemma að fá yngra fólk með mér í þetta og núna erum við vel sett og erum fjögur í þessu.“ Svend sinnti aukastörfum við meistara- og doktorsnám í réttartannlæknisfræði við háskólann í Dundee um fjögurra ára skeið. Hann hefur skrifað innlendar og erlendar vísindagreinar og haldið fyrirlestra í réttartannlæknisfræði í um 20 löndum. Hann hefur verið einn skipuleggjenda og kennari á alþjóðlegum námskeiðum í réttartannlæknisfræði sem hafa verið haldin á Norðurlöndum frá 1993 og síðar framhaldsnámskeiðum, síðast 2019 á Svalbarða.

Svend hefur gegnt félagsstörfum í Tannlæknafélagi Íslands um langt árabil, hann er fyrrverandi formaður og núverandi heiðursfélagi Tannlæknafélagsins og ritstjóri Tannlæknablaðsins frá 2017. Hann er virkur félagi í frímúrarastúkunni Fjölni, stangveiðifélögunum Ármönnum og Haustmönnum og AA-samtökunum.

„Ég er með endalaus áhugamál fyrir utan starfsvettvanginn, stangveiði á flugu, fluguhnýtingar, matreiðsla og ferðalög. Ég var eitt sinni í jólaferð á Acapulco í Mexíkó og fór með syni mínum á djúpsjávarveiðar og þar fengum við stóran sverðfisk, sem var þrír metrar á lengd og 130 pund. Hann var stoppaður upp og tekinn heim.“

Fjölskylda

Eiginkona Svends er Björg Yrsa Bjarnadóttir, f. 28.11. 1948, fóstra og tanntæknir. „Við Björg gengum í hjónaband á unga aldri, 1968, og bjuggum í Vogahverfi, Kleppsholti og Breiðholti í Reykjavík en fluttum í Garðabæ 1979 þar sem við höfum búið síðan, nú síðast í Sjálandshverfi.“ Foreldrar Bjargar voru hjónin Bjarni Kristinn Björnsson, verkstjóri í Reykjavík, f. 14.2. 1917, d. 26.3. 1992, og Margrét Ágústa Jónsdóttir húsfreyja, f. 11.8. 1919, d. 24.10. 2006.

Börn Svend og Bjargar eru 1) Pétur Örn, f. 24.5. 1971, véla- og iðnaðarverkfræðingur í Garðabæ. Sambýliskona er Steinunn Ragnarsdóttir flugfreyja. Með fyrri eiginkonu, Helgu Dröfn Þórarinsdóttur véla- og iðnaðarverkfræðingi, eiga þau synina Anton Óla Richter, f. 1.8. 1997, Róbert Aron Richter, f. 4.1. 2004, og Mikael Nóa Richter, f. 30.6. 2007; 2) Margrét Yrsa Richter, f. 22.2. 1974, sameindalíffræðingur, búsett í Stokkhólmi. Með eiginmanni, Þóri Steinþórssyni viðskiptafræðingi, eiga þau börnin Yrsu Rós Þórisdóttur, f. 10.8. 2000, Þráin Leó Þórisson, f. 14.4. 2004 og Sindra Svend Þórisson, f. 27.7. 2009; 3) Guðrún Yrsa Richter, f. 8.9. 1981, hagfræðingur, búsett í Garðabæ. Með eiginmanni, Marinó Erni Tryggvasyni forstjóra, eiga þau börnin Björgu Yrsu Marinósdóttur, f. 4.6. 2010, Tryggva Tý Marinósson, f. 23.12. 2011 og Bjarna Þór Marinósson, f. 2.1. 2014.

Systkini Svends eru Kristján Richter, samfeðra, f. 21.7 1937, forstjóri, búsettur í Garðabæ, og Anna Gerður Richter, f. 27.4. 1953, tannlæknir, búsett á Akranesi.

Foreldrar Svend voru hjónin Aðalsteinn Magnús Stefánsson Richter, f. 31.10. 1912, d. 16.2. 2007, arkitekt og skipulagsstjóri Reykjavíkur, og Elísabeth Richter, f. 30.9. 1920, d. 14.1. 2020, húsfreyja. Þau voru búsett í Reykjavík.