Helgi Gunnlaugsson
Helgi Gunnlaugsson
Prófessor í félagsfræði segist undrandi á nýföllnum dómi er varðar stunguárás í miðbænum.

Prófessor í félagsfræði segist undrandi á nýföllnum dómi er varðar stunguárás í miðbænum. Árásarmaðurinn, hinn 23 ára Daniel Zambrana Aquilar, var í vikunni dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir stórfellda líkamsárás, og samverkamaður hans í þriggja mánaða skilorð. „Þetta stakk svolítið í augun, þegar ég sá dóminn. Mér fannst rökstuðningurinn ekki sannfærandi. Sá sem beitti eggvopninu átti að gera sér grein fyrir að atlagan var lífshættuleg. Það er ekki árásarmönnunum tveimur að þakka að ekki fór verr,“ segir Helgi og bætir við að athyglisvert sé að maðurinn hafi verið sýknaður af tilraun til manndráps.

Helgi segir aðspurður að margt bendi til þess að vopnaburður ungra karlmanna í næturlífinu færist í aukana. „Það eru rannsóknir, bæði hér á landi og erlendis, sem sýna fram á að í ákveðnum hópum, sér í lagi meðal ungra karlmanna á jaðrinum, þyki það töff og jafnvel virðingarauki að bera vopn,“ segir Helgi. Það sé iðulega „réttlætt“ með því að nauðsynlegt sé að verja sig ef ögrun á sér stað. Stutt sé í ofbeldið þegar víman tekur yfir.

Miklu máli skipti að jaðarsetja ekki hópinn frekar, heldur eiga við hann samskipti.

„Það skiptir gríðarlegu máli að ná til þessara hópa, grafa undan hugmyndafræðinni sem réttlætir vopnaburð og brýna fyrir þeim að við leysum aldrei ágreining með ofbeldi.“ Það sé ekki aðeins hlutverk lögreglu að spyrna við þróuninni heldur einnig ábyrgðaraðila í skemmtanalífinu og ekki síst þeim sem sinna og starfa með ungmennum.

Spurður hvort refsingar sem þessar skili árangri segir hann að miklu máli skipti að refsingin endurspegli alvarleika brotanna og sendi skýr skilaboð um að hegðun af þessu tagi sé ekki liðin. „Fyrir okkur sem samfélag skiptir þó fræðslan öllu máli – sú hugmyndafræði að það sé aldrei réttlætanlegt að leysa ágreining með ofbeldi.“ ari@mbl.is