Lán Una segir útlán til fyrirtækja hafa aukist síðustu mánuði.
Lán Una segir útlán til fyrirtækja hafa aukist síðustu mánuði. — Morgunblaðið/Eggert
Logi Sigurðarson logis@mbl.is Stýrivextir Seðlabankans hafa hækkað um 3,5 prósentustig það sem af er ári. Una Jónsdóttir, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, segir í samtali við Morgunblaðið að aukna ásókn í verðtryggð lán megi rekja til ofannefndra vaxtahækkana.

Logi Sigurðarson

logis@mbl.is

Stýrivextir Seðlabankans hafa hækkað um 3,5 prósentustig það sem af er ári. Una Jónsdóttir, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, segir í samtali við Morgunblaðið að aukna ásókn í verðtryggð lán megi rekja til ofannefndra vaxtahækkana.

Almenningur hefur tekið verðtryggð íbúðalán fyrir um 5,9 milljarða á síðustu fjórum mánuðum. Ef miðað er við sama tímabil í fyrra lækkuðu verðtryggð lán um 21,4 milljarða. Ef horft er til útistandandi íbúðalána má sjá að 56% allra útistandandi íbúðalána eru óverðtryggð, eins og staðan var í júní, en hlutfallið fyrir faraldurinn var um 28% og um 15% árið 2016.

„Fólk sér að það er erfiðara að taka lán, greiðslubyrði af lánum hefur almennt hækkað og þá verða verðtryggðu lánin að ákjósanlegum kosti fyrir mjög marga, þar sem greiðslubyrðin er lægri,“ segir Una.

Verðbólgan leggst ofan á

Er þessi þróun áhyggjuefni?

„Staðan er sú að meirihluti útistandandi lána er óverðtryggður. Þótt við sjáum smá breytingu þá gjörbreytir það ekki heildarmyndinni. Verðtryggðu íbúðalánin eru þannig að verðbólgan leggst ofan á höfuðstólinn. Ég held að það sé mikilvægast að lántakendur séu meðvitaðir um muninn á þessum lánsformum og þá hvað há verðbólga þýðir fyrir lánið. En eins og ég segi, á móti er lægri greiðslubyrði og það er viðráðanlegur kostur fyrir mjög marga. Seðlabankinn er líka, með ákveðnum aðgerðum, búinn að girða fyrir óhóflega mikla lántöku,“ segir Una. Þar er hún að vísa til þeirra aðgerða sem Seðlabankinn greip til í júní. Þá lækkaði bankinn meðal annars veðsetningarhlutfall fyrstu kaupenda úr 90% í 85% og stytti hámarkslánstíma fyrir verðtryggð lán niður í 25 ár.

Seðlabankinn setti á þessi skilyrði til þess að reyna að takmarka uppsöfnun á kerfisáhættu í fjármálakerfinu.

Vaxtahækkanir hafa áhrif

Spurð, hvort hún hafi áhyggjur af auknum vanskilum vegna hækkandi greiðslubyrði, segist hún ekki hafa forsendur til þess að meta það.

„Seðlabankinn er búinn að setja ákveðin skilyrði við gerð greiðslumats á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum. Ég held að með því sé verið að reyna að koma í veg fyrir of mikla skuldsetningu og gæta þess að fólk taki ekki lán sem það ræður ekki við. Svo ég held að það sé ekkert endilega meiri hætta á því.“

Una segir að skýr merki séu um það að vaxtahækkanir Seðlabankans séu að slá á þenslu á fasteignamarkaði og bendir á að útlán til heimila hafi dregist verulega saman.

Útlán til heimila dragast saman

Ef bornir eru saman júlímánuður í ár og júlí í fyrra má sjá að íbúðalán til heimila hafa dregist saman um rúma 13 milljarða, úr tæpum 31 milljarði niður í 17,6 milljarða.

„Ef þú berð þetta saman við síðustu tvö ár þá er lántaka heimila orðin minni og það endurspeglar hægagang á fasteignamarkaði. Þannig að þar hafa vaxtahækkanir vissulega áhrif og eru aðeins að slá á þenslu þar. Við sjáum hins vegar að það er góður gangur í hagkerfinu. Sérstaklega má benda á að við sjáum útlán til fyrirtækja aukast. Ríflega helmingur af hreinum nýjum útlánum í síðasta mánuði voru til fyrirtækja.“