TF-ÖGN Smíðuð fyrir 90 árum og flogið árið 1940. Er geymd á vísum stað og fljótgert að setja aftur saman fyrir sýningar eins og var gert um helgina.
TF-ÖGN Smíðuð fyrir 90 árum og flogið árið 1940. Er geymd á vísum stað og fljótgert að setja aftur saman fyrir sýningar eins og var gert um helgina. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Ögnin vekur alltaf athygli enda þótt hún sé ekki fleyg. En hver veit nema vélin fari í loftið á næstu árum,“ segir Elías Erlingsson flugvirki. Hann er einn liðsmanna Íslenska flugsögufélagsins sem ásamt fleiri samtökum stóð að hátíðinni Wings and Wheel í Mosfellsbæ um helgina. Þar mátti sjá margt af því helsta í íslensku einkaflugi, grasrótarstarfi sem er jafnan forsmekkurinn að þróun til framtíðar. Sjá mátti fjölmargar vélar af ýmsum gerðum og stærðum á Tungubakkaflugvelli og flugmenn sýndu leikni sína í háloftunum.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Ögnin vekur alltaf athygli enda þótt hún sé ekki fleyg. En hver veit nema vélin fari í loftið á næstu árum,“ segir Elías Erlingsson flugvirki. Hann er einn liðsmanna Íslenska flugsögufélagsins sem ásamt fleiri samtökum stóð að hátíðinni Wings and Wheel í Mosfellsbæ um helgina. Þar mátti sjá margt af því helsta í íslensku einkaflugi, grasrótarstarfi sem er jafnan forsmekkurinn að þróun til framtíðar. Sjá mátti fjölmargar vélar af ýmsum gerðum og stærðum á Tungubakkaflugvelli og flugmenn sýndu leikni sína í háloftunum.

Hékk lengi uppi í rjáfri í Leifsstöð

Eins og stundum áður á flughátíðinni í Mosfellsbæ var þar til sýnis flugvélin TF-ÖGN en sú er að öllu smíðuð og hönnuð á Íslandi. Að verkinu stóðu þeir Gunnar Jónsson og Björn Olsen, fyrstu íslensku flugvirkjarnir, menntaðir hjá Lufthansa í Berlín. Þeir félagar hófu smíði flugvélarinnar góðu undir lok árs 1932 og sýndu hana vorið eftir í Reykjavík. Vélinni var svo reynsluflogið átta árum síðar. Þar var við stýrið Örn Johnson, forstjóri Flugfélags Íslands, sem var í loftinu á vélinni í nokkuð á þriðju klukkustund samanlagt. Flugvélin tekur einn farþega. Hreyfillinn er af gerðinni Gispy I, vænghafið er 7,25 metrar, lengdin 6 metrar og flughraðinn allt að 125 kílómetrar á klukkustund.

Árið 1940 höfðu Bretar hernumið Ísland. Þeir gerðu Íslendingunum að taka flugvélina í sundur og setja í geymslu. Þar var vélin í áratugi en var seinna gerð upp af Gunnari og nokkrum félögum hans. Margir muna svo efalítið eftir vélinni sem var sem sýnisgripur uppi í rjáfri í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli frá opnun hennar árið 1987 og nokkuð fram yfir aldamót.

Íslenska flugsögufélagið er í dag eigandi Agnar, sem er geymd í skýli á Reykjavíkurflugvelli. Fljótlegt er að setja vélina saman enda þótt í pörtum sé.

„Þetta er einstök flugvél og saga hennar merk,“ segir Elías Erlingsson. Þeir Sigurjón Valsson flugmaður, sem er formaður ÍF, sögðu fólki frá gripnum um helgina – og í kynningarskyni ók Elías vélinni eftir flugbrautinni.

Flugvirkjar fínstilli

„Í sjálfu sér þarf ekkert mikið svo Ögnin geti aftur farið í loftið. Huga þarf aðeins að ýmsum vírum í stjórnvirki og fínstilla ýmis atriði. Fyrir tvo flugvirkja væri þetta kannski tveggja mánaða vinna, segir Elías sem flaug Ögninni óvart fyrir þremur árum. Hann var þá í brautarakstri í Mosfellsbæ þegar snörp vindhviða kom á móti vélinni og feykti henni á loft. Vélin náði 60 sentimetra hæð og var í loftinu 6 – 7 sekúndur. „Þetta var ótrúleg flugferð sem væri gaman að endurtaka þótt þá yrði farið eitthvað lengra og hærra og lengra út í himinblámann,“ segir Elías.